Ferill 819. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1883 — 819. mál.
Svar
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um innanlandsflug.
1. Til hvaða áfangastaða innan lands er áætlunarflug rekið á markaðslegum forsendum? Hver er lágmarksfjöldi farþega, á ársgrundvelli, til að flugleið falli ekki undir áætlunarflug á markaðsforsendum?
Áætlunarflug á markaðslegum forsendum á Íslandi er til fimm áfangastaða. Þeir eru: Akureyri, Egilsstaðir, Ísafjörður, Vestmannaeyjar og Húsavík.
Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1008/2008 eru 10.000 farþegar á ári sá lágmarksfjöldi farþega sem þarf til að flugleið falli ekki undir áætlunarflug á markaðsforsendum.
2. Hvaða áfangastaðir falla undir skilgreiningu á áætlunarflugi innan lands og hvaða flugfélög fljúga til viðkomandi áfangastaða, sundurliðað eftir áfangastað og flugfélagi?
Áætlunarflug er flogið til eftirfarandi staða, skipt eftir því hvaða flugfélag flýgur til hvers áfangastaðar.
Icelandair | Norlandair | Ernir |
Reykjavíkurflugvöllur | Bíldudalsflugvöllur | Hornarfjarðarflugvöllur |
Akureyrarflugvöllur | Gjögurflugvöllur | Húsavíkurflugvöllur |
Egilsstaðaflugvöllur | Grímseyjarflugvöllur | Reykjavíkurflugvöllur |
Ísafjarðarflugvöllur | Vopnafjarðarflugvöllur | |
Vestmannaeyjaflugvöllur | Þórshafnarflugvöllur | |
Reykjavíkurflugvöllur |
3. Hvaða áfangastaðir innan lands hafa notið ríkisstyrkja á árunum 2010–2020, sundurliðað eftir árum og flugleiðum og fjárhæð styrks? Hver er fjöldi farþega á þessum flugleiðum á árunum 2010–2020, sundurliðað eftir árum og flugleiðum?
Farþegafjölda og upphæð ríkisstyrkja í áætlanaflugi innan lands árin 2010–2020 má sjá í eftirfarandi töflum.
Í fyrri töflunni eru sýndar upphæðir ríkisstyrkja í íslenskum krónum árin 2010–2020 eftir áfangastöðum. Haustið 2020 var Vestfjarðasvæði skipt niður á tvö verknúmer í stað eins sem útskýrir þrjár mismunandi upphæðir styrks það ár.
Bíldudalur og Gjögur | Grímsey, Vopnafjörður og Þórshöfn | Höfn | |
2010 | 80.097.739 | 64.488.746 | 53.043.500 |
2011 | 88.794.000 | 68.282.774 | 57.726.900 |
2012 | 123.411.478 | 81.036.000 | 59.925.240 |
2013 | 140.130.782 | 88.121.010 | 66.093.272 |
2014 | 115.589.381 | 87.486.241 | 73.301.361 |
2015 | 110.000.00 | 87.879.945 | 73.000.000 |
2016 | 118.708.492 | 91.684.151 | 82.000.000 |
2017 | 124.805.496 | 116.977.962 | 96.401.165 |
2018 | 144.054.538 | 132.443.166 | 109.437.085 |
2019 | 146.861.991 | 137.951.081 | 175.624.822 |
2020 | 189.476.277 19.186.162 6.058.788 |
125.681.324 | 144.220.785 |
Fyrir árið 2020 eru þrjár tölur fyrir Bíldudal og Gjögur. Samtals er upphæðin það ár því 214.721.227.
Í eftirfarandi töflu má síðan sjá upplýsingar um farþegafjölda árin 2010–2020 eftir áfangastöðum.
Bíldudalur | Gjögur | Grímsey | Vopnafjörður | Þórshöfn | Höfn | |
2010 | 2.946 | 269 | 1.443 | 1.478 | 1.504 | 9.229 |
2011 | 3.326 | 233 | 1.782 | 1.536 | 1.450 | 10.240 |
2012 | 3.639 | 181 | 1.851 | 1.369 | 1.329 | 8.524 |
2013 | 3.675 | 156 | 1.693 | 1.177 | 965 | 8.793 |
2014 | 3.316 | 219 | 1.800 | 1.143 | 673 | 9.277 |
2015 | 2.816 | 213 | 1.490 | 823 | 485 | 8.668 |
2016 | 2.941 | 237 | 872 | 660 | 391 | 10.349 |
2017 | 3.128 | 158 | 1.767 | 820 | 696 | 9.751 |
2018 | 3.132 | 139 | 1.689 | 1.026 | 885 | 10.034 |
2019 | 3.031 | 63 | 1.766 | 1.082 | 806 | 9.730 |
2020 | 1.917 | 99 | 863 | 524 | 455 | 5.822 |
Rétt er að geta að flugleiðirnar til Ísafjarðar og Egilsstaða, sem alla jafna eru reknar á markaðslegum forsendum, voru styrktar tímabundið vegna áhrifa heimfaraldurs Covid-19 á árinu 2020.
4. Hvaða tæknilegu kröfur eru gerðar um flugvélar sem fljúga til þeirra áfangastaða sem njóta ríkisstyrkja, svo sem hvað varðar farþegafjölda, flutningsgetu fyrir frakt og jafnþrýstibúnað?
Tæknikröfur um loftför fyrir Bíldudal, Gjögur og Höfn eru eftirfarandi:
– Flugvél með hverfihreyflum.
– Fullkominn afísingarbúnaður, ísingavarnarbúnaður og ótakmörkuð heimild til blindflugs.
– GNSS-tæki sem er samþykkt til notkunar í RNAV (GNSS) aðflugi. Ísetningin skal vera viðurkennd samkvæmt tæknigögnum frá framleiðanda – STC, e. Supplemental Type Certificate.
– Jafnþrýstibúnaður.
Tæknikröfur um loftför fyrir Grímsey, Vopnafjörð og Þórshöfn eru eftirfarandi:
– Flugvél með hverfihreyflum. Til Grímseyjar er gerð krafa um flugvél með tveim hverfihreyflum.
– Fullkominn afísingarbúnaður, ísingavarnarbúnaður og ótakmörkuð heimild til blindflugs.
– GNSS-tæki sem er samþykkt til notkunar í RNAV (GNSS) aðflugi. Ísetningin skal vera viðurkennd samkvæmt tæknigögnum frá framleiðanda – STC, e. Supplemental Type Certificate.
Fyrir áætlunarleið til Gjögurs er eftirfarandi krafa gerð:
– Fjöldi farþegasæta skal vera að lágmarki níu og á tímabilinu 1. nóvember til og með 31. maí þarf flugrekandi á þessari leið að geta annast vöruflutninga að allt að 600 kg í ferð til viðbótar farþegaflutningum.
Fyrir áætlunarleið til Bíldudals er eftirfarandi krafa gerð:
– Fjöldi farþegasæta skal vera að lágmarki níu. Á tímabilinu 1. maí til 31. ágúst skal flugrekandi hafa a.m.k. 15 flugsæti.
Fyrir áætlunarleið til Hafnar er eftirfarandi krafa gerð:
– Fjöldi farþegasæta skal vera að lágmarki 15.
Fyrir áætlunarleið til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar er eftirfarandi krafa gerð:
– Fjöldi farþegasæta skal vera að lágmarki níu. Á tímabilinu 1. maí til 31. ágúst skal flugrekandi hafa a.m.k. 15 flugsæti.
5. Ef áætlunarflug til Húsavíkur leggst af er þá ætlunin að Þingeyingar og aðrir þeir sem notast við Húsavíkurflugvöll fari um Akureyrarflugvöll? Hverjar eru forsendurnar fyrir því að áætlunarflug milli Reykjavíkur og Húsavíkur er ekki ríkisstyrkt með sambærilegum hætti og þekkist um flesta aðra áfangastaði?
Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1008/2008 er ríkinu heimilt að styrkja flugleið ef ekki er tryggt að annars konar flutningsmáti geti tryggt órofna þjónustu a.m.k. tvisvar á dag. Þá kveður reglugerðin á um að aðildarríki skulu meta hvort fyrirhuguð skylda um opinbera þjónustu sé nauðsynleg og fullnægjandi með tilliti til möguleikans á að nota annan flutningsmáta.
Almenningssamgöngur milli Húsavíkur og Akureyrar eru þrisvar sinnum á dag með almenningsvögnum, alla virka daga, og tvisvar á dag á sunnudögum. Tekur aksturinn eina klukkustund og 11 mínútur að meðaltali, en akstursvegalengd milli Akureyrar og Húsavíkur er 75 km þegar ekið er um Vaðlaheiðargöng. Frá Akureyri er áætlunarflug til Reykjavíkur og er flogið þaðan þrisvar til fimm sinnum á dag.
Samkvæmt fyrrgreindum reglum Evrópuþingsins og með hliðsjón af núverandi almenningssamgöngum til og frá Húsavík fellur Húsavík ekki undir þá skilgreiningu að njóta ríkisstyrkja í innanlandsflugi.