Ferill 620. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1886  —  620. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um kostnaðarþátttöku hjálpartækja til útivistar og tómstunda.


     1.      Hver er afstaða ráðherra gagnvart því að fella tvímenningshjól undir kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands með vísan í að þau efla fötluð börn í athöfnum daglegs lífs og bæta andlega líðan þeirra?
    Ráðherra skipaði starfshóp 14. júní 2018 til að skoða fyrirkomulag varðandi hjálpartæki. Hópnum var falið að skoða fyrirkomulagið í heild með tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var hér á landi árið 2016, möguleika til sjálfstæðs lífs, samfélags- og atvinnuþátttöku, verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, jafnræðis og tækniþróunar.
    Starfshópurinn skilaði skýrslu með tillögum til úrbóta í október 2019. Tillögurnar miða allar að því að auka, bæta og einfalda aðgengi að hjálpartækjum sem einstaklingar þarfnast og að draga úr kostnaði notenda.
    Starfshópurinn lagði það m.a. til að endurskoða reglugerðir sem varða hjálpartæki og skilgreiningu á hugtakinu hjálpartæki í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Afstaða starfshópsins var að breyta þyrfti ákvæði reglugerðarinnar um styrki vegna hjálpartækja, nr. 1155/2013, til samræmis við samninginn. Einnig lagði starfshópurinn til að endurskoðaðar yrðu reglugerðir með tilliti til þarfa fatlaðra foreldra fyrir hjálpartæki til að sinna börnum sínum í samræmi við 23. gr. samningsins.
    Í 26. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, er fjallað um hjálpartæki. Þar eru sett fram skilyrði fyrir því hvað teljist hjálpartæki samkvæmt lögunum og styrkir séu greiddir samkvæmt reglugerðinni. Tækið þarf að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartæki þarf auk þess að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.
    Þá hefur umboðsmaður Alþingis nýlega bent á það í áliti sínu til úrskurðarnefndar velferðarmála að leggja skuli einstaklingsbundið og heildstætt mat á það sem teljist vera nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs við yfirferð á umsóknum einstaklinga um styrk til kaupa á hjálpartæki.
    Það er ekki endilega ljóst að ósamræmi ríki milli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og laga um sjúkratrygginga um hjálpartæki, þó að ákjósanlegt gæti verið að rýmka skilgreiningu á hugtakinu hjálpartæki í reglugerðum til þess að veita rýmri rétt til styrkja til kaupa á hjálpartækjum og þannig koma frekar til móts við þarfir fatlaðs fólks og eru þessi málefni til skoðunar í heilbrigðisráðuneyti.
    Töluverð kostnaðaraukning myndi fylgja því að veita rýmri rétt til styrkja til kaupa á hjálpartækjum, þannig að aukinnar fjárveitingar er þörf ef breyting yrði gerð á skilgreiningu á því hvað telst vera hjálpartæki.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að styðja við möguleika fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til að stunda útivist með því að fella undir kostnaðarþátttöku önnur hjálpartæki sem nýtast sérstaklega til tómstunda og hreyfingar?
    Vísað er til svars við 1. tölul. um breytingar og rýmri skilgreiningu á því hvað fellur undir kostnaðarþátttöku ríkisins.

     3.      Kemur til greina að miða úthlutun slíkra hjálpartækja við færni í stað þess að láta greiningu einstaklings ráða för?
    Ef farið yrði í breytingar og heimildir yrðu útvíkkaðar, þannig að styrkir yrðu miðaðir við færni en ekki líkamlega skerðingu eða greiningu, fælu slíkar breytingar í sér kostnaðarauka og þörf á aukinni fjárveitingu frá Alþingi.