Ferill 729. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1888  —  729. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um endurgreiðslu ferðakostnaðar Sjúkratrygginga Íslands


     1.      Hvaða reglur gilda almennt um endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna aukins eftirlits eða fyrirbyggjandi aðgerða hjá Sjúkratryggingum Íslands?
    Um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands gildir 30. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og reglugerð nr. 1140/2019, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands.
    Í 2. gr. reglugerðarinnar segir að þurfi læknir að vísa sjúkratryggðum frá sér til óhjákvæmilegrar sjúkdómsmeðferðar á opinberum sjúkrastofnunum eða hjá öðrum aðilum heilbrigðiskerfisins þar sem sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra, ýmist á grundvelli samnings eða gjaldskrár Sjúkratrygginga Íslands taki Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði samkvæmt reglugerðinni.
    Ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar gildir um lengri ferðir, þ.e. yfir 20 km. Þar kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í tveimur ferðum sjúklings á hverju 12 mánaða tímabili, þegar um er að ræða nauðsynlegar ferðir til að sækja óhjákvæmilega sjúkdómsmeðferð. Skilyrði er að læknir í heimabyggð sæki um ferðina og staðfesti að þjónustu sé ekki hægt að fá í heimabyggð.
    Samkvæmt sama ákvæði taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða, umfram tvær á hverju 12 mánaða tímabili, ef um er að ræða alvarlega sjúkdóma, svo sem illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega hjartasjúkdóma, alvarlega sjúkdóma barna, alvarlega geðsjúkdóma og alvarleg vandamál í meðgöngu.
    Engar sérreglur gilda um greiðslu ferðakostnaðar vegna aukins eftirlits eða fyrirbyggjandi aðgerðir. Fyrirbyggjandi meðferð telst ekki meðferð vegna alvarlegs sjúkdóms í skilningi 3. gr. reglugerðarinnar og gildir því sú almenna regla að ferðir vegna slíkrar meðferðar teljast til þeirra tveggja ferða sem almennt er heimilt að greiða fyrir á hverju 12 mánaða tímabili.

     2.      Hvaða reglur gilda um endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna aukins eftirlits og fyrirbyggjandi aðgerða til að fækka eða koma í veg fyrir alvarleg krabbamein, í kjölfar greiningar á erfðaþáttum (svo sem BRCA) sem auka líkur á krabbameini?
    Það gilda engar sérreglur um ferðakostnað vegna aukins eftirlits eða fyrirbyggjandi aðgerða til að fækka eða koma í veg fyrir alvarleg krabbamein, í kjölfar greiningar á erfðaþáttum sem auka líkur á krabbameini, svo sem BRCA-stökkbreytingu.
    Almennt fá einstaklingar sem greinast með slíkt frávik niðurgreiddar tvær ferðir á ári til að sækja læknaþjónustu vegna BRCA, ef slík þjónusta er ekki í boði í heimabyggð.

     3.      Hvernig er staðið að uppfærslu og endurskoðun reglna um endurgreiðslu ferðakostnaðar hjá Sjúkratryggingum Íslands samhliða þróun heilbrigðisþjónustu?

    Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga er í stöðugri skoðun og einnig endurgreiðslureglur ferðakostnaðar sem koma fram í reglugerð nr. 1140/2019, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands.
    Lækkun greiðsluþátttöku sjúkratryggðra er afgerandi þáttur í því að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu og sporna við heilsufarslegum ójöfnuði af félagslegum og fjárhagslegum ástæðum. Markmið er að greiðsluþátttakan jafnist á við það sem best gerist annars staðar á Norðurlöndum. Í fjármálaáætlun stjórnvalda eru 3,5 milljarðar kr. ætlaðir til að draga úr kostnaði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu til ársins 2024.