Ferill 635. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1889  —  635. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um Sjúkratryggingar Íslands og fjölskyldunúmer barna.


     1.      Hefur verklagsreglum Sjúkratrygginga Íslands verið breytt þegar send eru út bréf sem varða börn þannig að ekki er aðeins miðað við þann aðila sem stýrir fjölskyldunúmeri barns?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hefur verklagsreglum verið breytt en stofnunin hefur útbúið kerfislausn fyrir þá forsjárforeldra sem stýra ekki fjölskyldunúmeri þannig að nú má sækja um aðgang að réttindagátt barnsins með því að leggja fram gögn til staðfestingar á því að farið sé með forsjá barns. Að sækja um slíkan aðgang er tiltölulega einfalt ferli. Í kjölfarið er lokað á aðgang að upplýsingum um viðkomandi barn hjá þeim aðila sem stýrir fjölskyldunúmeri barnsins en fer ekki með forræði yfir því.

     2.      Hafa Sjúkratryggingar Íslands brugðist við þeim athugasemdum sem Persónuvernd gerði við að Sjúkratryggingar Íslands stíli bréf sem varða málefni barns á annan en forráðamann, ef til vill einhvern sem er skráður á lögheimili barnsins?
    Sjúkratryggingar Íslands hafa brugðist við athugasemdum Persónuverndar. Hins vegar er rétt að benda á að bréfin eru aldrei send á „einhvern“ sem er skráður á lögheimili barnsins, heldur eru bréfin annaðhvort send á foreldri sem fer með forsjá barnsins eða maka foreldrisins, þar sem það eru einu aðilarnir sem tengjast fjölskyldunúmeri barnsins. Allir fullorðnir einstaklingar hafa sitt eigið fjölskyldunúmer í þjóðskrá, nema ef viðkomandi er giftur eða í sambúð. Þá hafa þeir einstaklingar sameiginlegt fjölskyldunúmer, sem er kennitala þess sem eldri er. Aðrir fullorðnir einstaklingar sem eru ekki í sambúð með foreldri barnsins en búa á sama lögheimili eru ekki tengdir umræddu fjölskyldunúmeri og því eru bréf vegna barna ekki send til þeirra.

     3.      Persónuvernd lagði til úrbætur, var þeim fylgt eða önnur leið farin?
    Persónuvernd hefur mælst til þess að stofnunin skrái ábendingar þeirra einstaklinga sem óskað hafa leiðréttingar á skráningu forsjárupplýsinga og að miðlun upplýsinga verði hagað í samræmi við þær leiðréttingar. Sjúkratryggingar hafa orðið við þeim tilmælum með áðurnefndu umsóknarferli.
    Að lokum er rétt að árétta að eina leiðin sem ríkisstofnanir hafa til að tengja einstaklinga við börn sín, þegar um upplýsingamiðlun er að ræða, er að nota gagnagrunn Þjóðskrár Íslands til samtengingar, þ.e. fjölskyldunúmer. Sá kerfislægi veikleiki er á skráningu fjölskyldunúmera í Þjóðskrá Íslands að hún felur ekki í sér raunveruleg vensl. Nýr gagnagrunnur þjóðskrár, sem er ætlað að leysa fjölskyldunúmeri af og þar með eyða þessum kerfisleg veikleika, er tilbúinn. Hins vegar er gert ráð fyrir að umræddur gagnagrunnur verði ekki innleiddur fyrr en 1. janúar 2022, sbr. frumvarp til breytinga á barnalögum, nr. 75/2003, sem fjallar um skipta búsetu barna. Mikilvægt er að Sjúkratryggingar Íslands fái aðgang að nýjum gagnagrunni þjóðskrár sem allra fyrst, í stað þess að stofnunin ráðist í tímabundnar, flóknar og kostnaðarsamar aðgerðir á kerfum sínum. Þar til tenging við nýjan gagnagrunn liggur fyrir verður því stuðst við þau tímabundnu úrræði að leiðrétta aðgang að beiðni forsjárforeldra.