Ferill 881. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1890  —  881. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um neysluskammta fíkniefna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig er neysluskammtur fíkniefna skilgreindur að mati ráðherra, flokkað eftir ólíkum tegundum fíkniefna?

    Í frumvarpi ráðherra sem var lagt fyrir á þessu þingi, á þskj. 1193 í 714. máli, var lögð til sú breyting á 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, að ráðherra skyldi setja reglugerð þar sem kveðið væri á um hvaða magn ávana- og fíkniefna samkvæmt ákvæðinu, sbr. einnig 3. og 5. gr., gæti talist til eigin nota, að höfðu samráði meðal annars við notendur.
    Frumvarp þetta var ekki samþykkt, en áformað var að í kjölfar samþykktar þess yrðu í framangreindri reglugerð neysluskammtar skilgreindir. Ástæða þess að kveða skyldi á um skilgreininguna í reglugerð er sú að það þykir nauðsynlegt þar sem markaðurinn með fíkniefni er síbreytilegur og brýnt að geta brugðist við og bætt inn efnum í reglugerðina án þess að til lagabreytinga þurfi að koma. Í frumvarpinu kemur auk þess fram að gert hafi verið ráð fyrir að samkvæmt reglugerðinni yrði sett á laggirnar notendasamráð þar sem skyldu eiga sæti fulltrúi velferðarþjónustu, fulltrúi lögreglunnar, fulltrúi ráðuneytis heilbrigðismála og fulltrúi frjálsra félagasamtaka. Hlutverk þess væri að leggja mat á og gera tillögur um endurskoðun á því magni ávana- og fíkniefna sem getur talist til eigin nota samkvæmt lögunum. Þannig yrði það ekki í höndum ráðherra að skilgreina neysluskammta heldur á vegum notendasamráðs.