Ferill 886. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1891  —  886. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um kyn.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mörg eru kyn mannfólks að mati ráðuneytisins?

    Í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, er kveðið á um óskoraðan rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt. Samkvæmt sömu lögum er hlutlaus skráning kyns heimil og ber aðilum sem skrásetja kyn að gera ráð fyrir því að einstaklingar geti skráð kyn sitt með þrennum hætti, kona, karl og kynhlutlaus. Hugtakið kyn er skilgreint í framangreindum lögum sem „safnhugtak sem nær meðal annars yfir kyneinkenni, kyngervi, kynvitund og kyntjáningu“. Skilgreining kyns ræðst því ekki eingöngu af líffræði.
    Samkvæmt framansögðu er opinber skráning kyns samkvæmt lögum nú þrenns konar og opnar hlutlaus skráning kyns á þann möguleika að einstaklingur sem telur sig ekki falla undir hefðbundna flokkun í konu eða karl geti nú skilgreint sig sem kynhlutlausan samkvæmt opinberum gögnum.
    Frá 6. janúar 2021 hefur verið hægt að óska eftir hlutlausri skráningu kyns í þjóðskrá. Í samvinnu við Samtökin ’78 ákvað Þjóðskrá Íslands að einstaklingar sem óska eftir hlutlausri skráningu kyns í þjóðskrá skyldu skráðir „kynsegin/annað“. Talið er að um þetta heiti megi ná sem mestri sátt innan hinsegin samfélagsins og að flestir einstaklingar geti samsamað sig því.
    Kynin samkvæmt lögum eru ekki lengur tvö, kona og karl, heldur opnar skilgreiningin á hugtakinu í lögum á þann möguleika að kyn séu fleiri.