Ferill 843. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1897  —  843. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni um lög og reglur er varða umsóknir um alþjóðlega vernd.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er helsti munur á lögum og reglum annars vegar á Íslandi og hins vegar í Noregi og Danmörku varðandi málsmeðferð, málsmeðferðartíma, fresti á áhrifum ákvarðana og áfrýjanir mála umsækjenda um alþjóðlega vernd?

    Alþjóðleg vernd er vernd sem stjórnvöld hér á landi veita einstaklingi sem hingað leitar og fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru í A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, vernd sem veitt er á grundvelli reglna um viðbótarvernd og vernd veitt ríkisfangslausum einstaklingum samkvæmt samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954. Jafnframt er heimilt að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem hvorki telst flóttamaður né ríkisfangslaus, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
    Um meðferð umsókna framangreindra mála gilda mismunandi reglur, bæði hér á landi og í Danmörku og Noregi. Þannig geta umsóknir farið í Dyflinnarmeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, almenna efnismeðferð ef viðkomandi ríki ber ábyrgð á meðferð umsóknar og sérstaka forgangsmeðferð, t.d. þegar umsækjandi er ríkisborgari öruggs upprunaríkis eða ef um er að ræða fylgdarlaust barn. Þá gilda sérstakar reglur um málsmeðferð svokallaðra verndarmála, þ.e. þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd er þegar handhafi slíkrar verndar í öðru Evrópuríki, auk þess sem misjafnt er hvort og hvaða áhrif tafir á framkvæmd brottvísana hafa á málsmeðferð umsókna. Loks eru stjórnkerfi útlendingamála á Íslandi, í Danmörku og í Noregi að einhverju leyti ólík.
    Með hliðsjón af framangreindu er vandkvæðum bundið að taka saman í stuttu máli þann samanburð sem óskað er eftir. Almennt séð telur ráðuneytið þó að einn helsti og mest áberandi munur á milli Íslands annars vegar og annarra Evrópuríkja hins vegar, þar á meðal Danmerkur og Noregs, sé sá að hlutfall svokallaðra verndarmála er verulega hærra hér á landi. Af þeim umsóknum um vernd sem bárust íslenskum stjórnvöldum á tímabilinu 15. júní 2020 til ársloka það ár voru um 70% mála, eða 288 af 407 umsóknum, frá einstaklingum sem þegar höfðu hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki. Um var að ræða verulega fjölgun frá árinu 2019 þegar hlutfall verndarmála var tæp 20% af umsóknum, en það ár var Ísland samt sem áður með hlutfallslega flest slík mál miðað við önnur Evrópuríki. Fyrstu fimm mánuði ársins 2021 var hlutfallið hér á landi um 58%, eða 88 af 152 umsóknum. Til samanburðar var hlutfall verndarmála í Noregi um 3,7% árið 2019 og um 4,5% ári síðar. Samkvæmt upplýsingum frá dönskum stjórnvöldum eru þessi mál ekki sérstaklega skráð í upplýsingakerfum þeirra þannig að unnt sé að fá tölfræðina með einföldum hætti.
    Skýra má þessa miklu ásókn verndarmála til Íslands meðal annars af því að lagaumhverfi og framkvæmd hér á landi sker sig einkum úr að tvennu leyti í samanburði við önnur Evrópuríki. Í fyrsta lagi er það ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sem leggur þær skyldur á stjórnvöld að taka mál einstaklinga, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í öðru ríki, til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæla annars með því. Í öðru lagi fá mörg verndarmál efnismeðferð hér á landi þar sem stjórnvöld ná ekki að afgreiða og framkvæma ákvarðanir innan lögbundins frests. Samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði ber stjórnvöldum að taka til efnismeðferðar Dyflinnar- og verndarmál ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd var lögð fram og tafir á málsmeðferð eru ekki á ábyrgð umsækjanda. Sá tími er tíu mánuðir í verndarmálum ef um barn er að ræða.