Ferill 868. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1899  —  868. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um upplýsingar Hagstofu Íslands um utanríkisverslun Íslands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra að upplýsingar um útflutning á vöru og þjónustu, sem Hagstofa Íslands birtir, kunni að vera misvísandi eða ónákvæmar hvað varðar stærstu útflutningsmarkaði Íslands? Ef svo er, hver er skýringin á því að upplýsingar um útflutning Íslands séu ekki nákvæmari en raunin virðist vera? Eru útflutningsskýrslur þannig uppsettar að Hagstofunni reynist erfitt að byggja á þeim eða lætur Skatturinn Hagstofunni ekki í té fullnægjandi upplýsingar?

    Forsætisráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Hagstofu Íslands við undirbúning svars við fyrirspurn þessari og er eftirfarandi svar byggt á þeim upplýsingum.
    Gögn Hagstofu um inn- og útflutning á vöru byggjast á upplýsingum úr tollskýrslum. Útflutningsaðilum ber að fylla út útflutningsskýrslu í hvert skipti sem vara er flutt úr landi og kemur þá fram ákvörðunarland útflutnings, en með því er átt við endastöð vöruflutnings eða nánar tiltekið það land þar sem endanleg ráðstöfun vörunnar á sér stað. Áður en tölfræði er unnin úr tollskýrslum eru gerðar leiðréttingar á gögnunum af hálfu Hagstofu Íslands.
    Algengt er að óseld vara sé send í birgðageymslu erlendis og er þá land þeirrar birgðageymslu þangað sem varan er send sett á tollskýrslu. Af þessari ástæðu mælist Holland með hátt vægi í útflutningstölum, en stórar vörugeymslur í Rotterdam taka við óseldum vörum frá Íslandi og hefur það farið vaxandi.
    Sérstök rannsókn hefur verið framkvæmd á þessum vaxandi hlut Hollands af hálfu Hagstofunnar og voru niðurstöður hennar birtar 2. nóvember 2015. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka hlutdeild Hollands í vöruútflutningi þar sem hún hafði aukist mjög ört. Þegar vöruflutningar milli tveggja landa hafa viðkomu í þriðja landinu þá hættir útflutningsaðilum til að skrá þriðja landið sem áfangastað vöruflutninganna. Þar af leiðir að þriðja landið verður ofmetið í tölum um utanríkisverslun ríkjanna. Í tilviki Íslands fer mikið af vöruútflutningi um skipahöfnina í Rotterdam á leið til áfangastaðar. Því er talað um Rotterdam-áhrifin þegar horft er á mikla hlutdeild Hollands í vöruútflutningi. Þessi áhrif eru ekki bundin eingöngu við Rotterdam heldur má finna sambærileg áhrif í tengslum við aðrar stórar skipahafnir, t.d. í Antwerpen í Belgíu og í Klaipeda í Litháen.
    Við gerð framangreindrar rannsóknar var haft samband við útflutningsaðila til að sannreyna gögn um útflutning til Hollands. Í viðtölum við útflutningsaðila komu fram tvær meginástæður fyrir Rotterdam-áhrifum. Í fyrsta lagi var endastöð íslensks útflutnings óþekkt. Í mörgum tilvikum, þegar íslenskur útflutningsaðili flytur vöru út til Hollands, er varan afhent erlendum kaupanda þar. Útflutningsaðilinn hefur ekki upplýsingar um hvar varan endar og því er Holland endastöð vörunnar frá þeirra sjónarhóli. Varan er því skráð sem útflutningur til Hollands. Einnig getur verið um að ræða að varan fari í áframvinnslu í Hollandi. Íslenski útflutningurinn hverfur inn í þarlenda virðisaukakeðju og því eðlilegast að skrá Holland sem ákvörðunarland.
    Í öðru lagi var um að ræða að útflutningur var sendur í geymslu til Rotterdam. Fyrir útflutningsfyrirtæki í sjávarútvegi er margvíslegt hagræði sem hlýst af því að senda sjávarafurðir til geymslu í Rotterdam. Skortur er á geymsluplássi á Íslandi, sérstaklega þegar makrílvertíðin stendur sem hæst. Þá er hægt að stytta afhendingartíma vöru til kaupenda í Evrópu og Asíu með því að geyma vöru í Rotterdam fremur en á Íslandi. Loks er geymsluplássið í Rotterdam tiltölulega ódýrt og getur vara legið þar í nokkra mánuði og í sumum tilvikum í nokkur ár áður en kaupandi finnst. Því hafa útflytjendur ekki upplýsingar um endanlegan ákvörðunarstað þegar tollskýrsla er útfyllt. Hér skal tekið fram að ef varan er tollafgreidd inn í Holland skal samkvæmt tollalögum setja Holland sem ákvörðunarland.
    Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekki er unnt með frekari upplýsingum frá útflytjendum að finna endanlegt ákvörðunarland fyrir meiri hluta þess útflutnings sem fer til Hollands, þar sem stórir útflutningsaðilar á iðnaðarvöru (aðallega áli og álafurðum) búa ekki yfir þeim upplýsingum. Því er ljóst að flutningur um Rotterdam hefur mikil áhrif á niðurstöðu um landaskiptingu útflutnings. Í tilviki útflutnings á sjávarafurðum var hins vegar í flestum tilvikum hægt að fá upplýsingar um endanlegt ákvörðunarland. Hlutdeild Hollands í heildarútflutningi lækkaði því aðeins um 6%, eða um 39 milljarða kr., á grundvelli rannsóknarinnar.
    Í niðurstöðum rannsóknarinnar eru nefndar nokkrar leiðir til úrbóta. Meðal annars er bent á að auka mætti sveigjanleika í tollkerfi með því að gera útflutningsaðilum kleift að skila leiðréttingarskýrslu þegar nánari upplýsingar liggja fyrir.
    Nánar má lesa um niðurstöðurnar á vef Hagstofu Íslands þar sem þær eru birtar undir heitinu „Reykjavík-Rotterdam, rannsókn á vöruútflutningi til Niðurlands (Hollands)“.