Ferill 891. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1900  —  891. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um skólasókn barna.


     1.      Um hversu mörg börn á grunnskólaaldri er óljóst hvort eða hvar þau stunda nám? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum.
    Sendur var spurningalisti á sveitarfélög þar sem kannaður var fjöldi barna á skólaskyldualdri með lögheimili í sveitarfélaginu sem ekki sótti grunnskóla í sveitarfélaginu og af þeim væri fjöldi barna sem ekki væri vitað hvar eða hvort væru skráð í grunnskóla.
    Spurningalistinn var sendur til allra 72 sveitarfélaga á Íslandi og bárust svör frá 68 sveitarfélögum á tímabilinu 8. júní til 18. júlí 2020. Ráðuneytinu bárust ekki svör frá fjórum sveitarfélögum þrátt fyrir ítrekanir (Eyja- og Miklaholtshreppur, Grindavíkurbær, Skorradalshreppur og Skútustaðahreppur).
    Heildarfjöldi barna sem ekki var skráður í grunnskóla innan sveitarfélags var 1646 og þar af 279 börn sem sveitarfélög upplýstu um að óvíst var hvort eða hvar þau væru skráð í grunnskóla.
    Fjöldi barna eftir árgöngum þar sem óljóst var hvort eða hvar þau stunduðu nám er sýndur í töflu 1.

Tafla 1. Fjöldi barna á grunnskólaaldri með skráða búsetu í sveitarfélagi þar sem óljóst er hvort eða hvar þau stunda nám.

Bekkur
Sveitarfélag 1. 2. 3. 4. 5. 6. 7. 8. 9. 10. Alls
Reykjavíkurborg 26 17 9 8 3 4 5 2 2 4 80
Suðurnesjabær 0 0 0 1 0 1 0 0 0 0 2
Vestmannaeyjabær 0 1 0 1 2 0 0 1 2 1 8
Skaftárhreppur 0 0 0 0 1 0 0 1 0 0 2
Reykjanesbær 5 7 9 6 5 5 6 4 4 3 54
Fjarðabyggð 0 0 0 0 0 0 0 1 0 0 1
Akureyrarbær 2 4 1 2 2 2 5 3 2 1 24
Hafnarfjarðarkaupstaður 4 8 7 8 11 6 5 6 1 5 61
Kópavogsbær 4 6 5 4 3 3 7 4 3 8 47
Alls 41 43 31 30 27 21 28 22 14 22 279

    Samkvæmt yfirliti Hagstofu Íslands um heildarfjölda barna í grunnskóla (tafla SKO02101) er um að ræða 0,6% af nemendafjölda í grunnskólum árið 2018.

     2.      Hverjar eru ástæður þess að umrædd börn sækja ekki skóla?
    Í sama spurningalista voru sveitarfélög beðin um að tilgreina ástæður þess að börnin sem tilgreind voru í töflu 1 væru ekki skráð í skóla eða hvort það væri óljóst hvort eða hvar þau væru skráð í grunnskóla. Í þeim níu sveitarfélögum sem tilkynna um fjölda barna með lögheimili innan sveitarfélagsins þar sem óljóst er hvort þau stundi nám í grunnskóla telja sjö sveitarfélög ástæðuna vera þá að fjölskyldur hafi þegar flutt úr landi en ekki breytt skráningu lögheimilis og koma því fram sem íbúar sveitarfélagsins. Reykjavíkurborg bendir á að eftir athuganir væri óljóst hvar 179 börn, sem voru skráð til heimilis í Reykjavík, sóttu skóla. Eftir nánari eftirgrennslan og rannsókn er enn ekki vitað um hvort og þá hvar 80 börn eru skráð í skóla. Langflest barnanna hafa aldrei verið skráð í skóla í Reykjavík og er mjög stór hluti þeirra börn af erlendum uppruna. Tvö sveitarfélaganna, Kópavogur og Fjarðabyggð, tilgreina ekki ástæður þess að börn innan þeirra sveitarfélaga eru ekki skráð í skóla. Sjá má svör sveitarfélaganna í töflu 2.
    Erfitt getur verið að meta ástæður þess að börn sem skráð eru til heimilis hér á landi sæki ekki skóla, sér í lagi þegar sveitarfélögum tekst ekki að hafa upp á foreldrum og forráðamönnum barna á skólaskyldualdri. Með vísan til meðfylgjandi töflu má ætla að ástæður geti m.a. falist í því að börn og foreldrar þeirra hafi flutt búsetu sína erlendis en ekki tilkynnt það til Þjóðskrár Íslands.

Tafla 2. Svör við ástæðum þess að óljóst er hvort börn séu skráð í grunnskóla.

Sveitarfélag Tilgreindar ástæður fyrir því að börn eru ekki skráð eða óljóst er hvort þau séu skráð í grunnskóla
Vestmannaeyjabær Búa ekki á landinu. Sveitarfélagið er að kalla eftir upplýsingum frá forráðamönnum þeirra.
Akureyrarbær Búsett erlendis en lögheimili skráð á Íslandi. Þá eru flest börnin í 10. bekk (10) komin í framhaldsskóla og því ekki skráð í grunnskóla.
Suðurnesjabær Erfiðlega hefur gengið að fá staðfestingu frá foreldrum/skólum erlendis.
Skaftárhreppur Eru búsettir í Póllandi.
Reykjavíkurborg Í langflestum tilvikum hafa börnin aldrei verið í skólum í sveitarfélaginu og ekki fengist upplýsingar um þeirra skólagöngu. Í nokkrum tilvikum voru börnin á einhverjum tímapunkti í skóla í sveitarfélaginu en ekki vitað hvar þau stunda nám í dag.
Reykjanesbær Grunur um flutning úr landi sem ekki hefur verið skráður eða tilkynntur.
Kópavogsbær Ekki vitað.
Hafnarfjarðarkaupstaður Sveitarfélagið er með vöktun á lögheimilisskráningu barna í sveitarfélaginu í upphafi hvers skólaárs til að tryggja að öll börn á grunnskólaaldri séu með skólavist á vegum sveitarfélagsins, þ.e. í grunnskólum bæjarins eða öðrum grunnskólum. Reynt er að hafa upp á foreldrum/forráðamönnum þeirra barna sem ekki eru skráð í skóla að okkar vitneskju en eru með lögheimili í sveitarfélaginu og spyrjast fyrir um skóla barnanna. Við teljum að í flestum tilfellum sé um að ræða flutning fjölskyldna erlendis til lengri eða skemmri tíma án þess að fólk hafi flutt lögheimili sitt eða látið vita af skólagöngu barns síns til sveitarfélagsins. En það er ekkert kerfi til sem heldur utan um skólaskráningu á Íslandi og tryggir að öll íslensk börn séu opinberlega skráð í grunnskóla.
Fjarðabyggð Við athugun nú í júní er viðkomandi nemandi skráður með lögheimili í Fjarðabyggð (Neskaupstað), en skólastjóri kannast ekki við að nemandinn sé búsettur þar og var ekki í skóla í Nesskóla.

     3.      Hver ber ábyrgð á því að öll börn á grunnskólaaldri stundi nám og að gripið sé til ráðstafana ef í ljós kemur að svo er ekki?
    Samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er sveitarfélögum skylt að tryggja að skólaskyld börn skv. 5. gr. laganna, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Liggi ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lögheimili barns kveður sveitarstjórn á um skólaskyldu þess, enda búi barnið í sveitarfélaginu og leitað hafi verið eftir innritun þess í skóla, sbr. 19. gr. laganna. Synjun sveitarstjórnar er kæranleg til mennta- og menningarmálaráðuneytis eftir fyrirmælum 47. gr. laganna. Í úrskurði getur ráðuneytið lagt fyrir sveitarfélag að tryggja barni skólavist innan sveitarfélagsins. Þá segir jafnframt í lögum um grunnskóla að sveitarstjórn í sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili geti samið við annað sveitarfélag um að veita barninu skólavist þannig að viðtökusveitarfélag hafi sömu skyldur gagnvart skólavist þess og ætti það lögheimili þar.
    Lög um grunnskóla kveða einnig á um ábyrgð foreldra á námi barna sinna og að þeim beri að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið. Skólastjóri skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. grunnskólalaga. Í úrskurði getur ráðuneytið lagt fyrir sveitarfélag að tryggja nemanda tiltekin kennsluúrræði, þ.m.t. að veita honum aðgang að tilteknum skóla innan sveitarfélagsins.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög um grunnskóla taka til og í samhengi við þá fyrirspurn sem hér um ræðir, hefur eftirlit með gæðum skólastarfs, annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga, og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lög þessi kveða á um. Ráðuneyti hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lög þessi, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um.
    Af þessu er ljóst að það er á ábyrgð sveitarfélaga, skólastjóra grunnskóla, foreldra og forráðamanna að öll börn á skólaskyldualdri sæki grunnskóla og að gripið sé til viðeigandi ráðstafana ef í ljós kemur að svo er ekki. Ráðuneyti hefur á grundvelli tiltekinna ákvæða í lögum um grunnskóla heimild til að hlutast til um einstök mál er varða réttindi og skyldur nemenda.
    Könnun þessi varpar ljósi á mikilvægi þess að komið verði á miðlægu skráningarkerfi svo að unnt sé að fylgjast með því hvort og hvar börn á skólaskyldualdri eru skráð í grunnskóla. Ráðuneytið skipaði á sl. ári starfshóp um skráningarkerfi grunnskólabarna. Í hópnum eiga sæti fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þjóðskrár Íslands, Hagstofu Íslands, Menntamálastofnunar og Reykjavíkurborgar, auk mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hlutverk hópsins er að skilgreina þarfir og óskir sem slíkt kerfi þarf að uppfylla og m.a. að skoða hversu umfangsmikið skráningarkerfið þarf að vera með tilliti til hvaða upplýsinga það þarf að ná utan um. Gert er ráð fyrir að niðurstöður vinnunnar liggi fyrir í september.