Ferill 884. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1905  —  884. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um endurbyggingu á Seyðisfirði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver verður aðkoma ríkisvaldsins að endurbyggingu á Seyðisfirði eftir aurskriðurnar sem féllu á bæinn?

    Í kjölfar hamfaranna á Seyðisfirði í desember 2020 var ákveðið að setja á laggirnar starfshóp undir forystu forsætisráðuneytisins með fulltrúum fimm annarra ráðuneyta, þ.e. dómsmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Fulltrúi sveitarfélagsins og fulltrúi Almannavarna hafa einnig tekið þátt í starfi hópsins. Hópurinn hafði það hlutverk að:
     1.      Fylgja eftir málum er varða aðkomu ríkisins að hreinsun á svæðinu og öðrum aðgerðum sem styðja við að koma sveitarfélaginu í starfhæft horf á ný.
     2.      Sjá til þess að opinberir aðilar sem hlut eiga að máli hefji undirbúning og framkvæmdir við að koma innviðum samfélagsins í það horf sem það var áður.
     3.      Sjá til þess að opinberir aðilar undirbúi viðbrögð og aðgerðir til lengri og skemmri tíma eins og snjóflóðavarnir, hvernig uppbyggingu menningar- og minjamála skuli háttað o.s.frv.
    Aðkoma ríkisvaldsins að enduruppbyggingu hefur verið margþætt, með aðkomu fjölda ríkisaðila og nær fyrir vikið yfir mjög breitt svið. Tryggja hefur þurft öryggi húsa, unnið hefur verið að gatnagerð, hreinsun, stuðningi við fólk og fyrirtæki sem urðu fyrir áföllum í hamförunum og öðru uppbyggingarstarfi, minjavernd, færslu húsa o.s.frv. Stærsti útgjaldaliðurinn er í gegnum Náttúruhamfaratryggingar Íslands en samkvæmt nýjustu upplýsingum þá er gert ráð fyrir að Náttúruhamfaratryggingar greiði um 1.180–1.200 m.kr. til þeirra sem urðu fyrir tjóni, vegna hreinsunarstarfs o.fl.
    Fjöldi ríkisstofnana hefur komið að málum, ýmist til að tryggja almannaöryggi, m.a. með eflingu lögreglunnar á svæðinu, veitingu neyðarþjónustu og annars félagslegs stuðnings. Unnið hefur verið að enduruppbyggingu vega í bæjarfélaginu, brú var byggð á Hafnargötu og unnið var að sameiningu farvega. Mælitækjum og öðrum nauðsynlegum búnaði hefur verið komið fyrir í hlíðum fyrir ofan bæinn til að tryggja öryggi íbúa á Seyðisfirði. Jafnframt hefur verið unnið að því að tryggja bráðavarnir og þau hús sem eru á skilgreindu hættusvæði hafa verið keypt upp. Útgjöld ríkisins vegna framangreinds nema þegar yfir hálfum milljarði króna en endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir.
    Atvinnulíf á Seyðisfirði varð fyrir miklu áfalli þegar skriðan féll. Í vetur ákváðu stjórnvöld að setja 215 m.kr. í atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði á næstu þremur árum. Austurbrú heldur utan um verkefnið en stærsti einstaki þátturinn er Hvatasjóður Seyðisfjarðar sem er ætlað að stuðla að atvinnuuppbyggingu með því að virkja frumkvæði íbúa og annarra sem tengjast byggðarlaginu og koma til móts við þá atvinnurekendur og einstaklinga í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir tjóni. Í sjóðinn bárust 34 umsóknir, þar af 26 frá aðilum úr byggðarlaginu. Sjóðurinn úthlutaði 55 m.kr. í maí sl. til 21 verkefnis.
    Minjastofnun hefur ákveðið styrkja flutning á Gamla ríkinu, Hafnargötu 11, en áætlaður kostnaður við það er 77 m.kr. Lagt hefur verið til að flytja þrjú önnur hús en áætlaður kostnaður við það eru rúmar 315 m.kr. Sveitarfélagið, sem framkvæmdaraðili, vinnur nú að skipulagningu flutninganna en ekki liggur endanlega fyrir hver aðkoma ríkisins verður. Gera má ráð fyrir að stjórnvöld vinni að því máli í samvinnu við Múlaþing þegar frekari upplýsingar um skipulagninguna liggja fyrir. Leitað verður eftir ráðgjöf og aðstoð frá Minjastofnun og Húsafriðunarsjóði.
    Starfshópur sem skipaður var vegna hamfaranna í vetur er enn að störfum. Unnið er að því að taka saman heildaryfirlit yfir útgjöld opinberra stofnana, sveitarfélagsins og annarra í tengslum við eftirmál hamfaranna og meta hvernig skiptingu þess kostnaðar verði háttað.