Ferill 882. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1907  —  882. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um læknisbústaðinn á Vífilsstöðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað hefur verið gert til að vernda eða gera upp læknisbústaðinn á Vífilsstöðum?

    Fyrir liggur að fjórar eignir á Vífilsstöðum eru friðaðar samkvæmt lögum um menningarminjar, þ.e. gamla heilsuhælið, fjósið, mótorhúsið og yfirlæknisbústaðurinn, en þessar eignir eru allar yfir 100 ára og því friðaðar vegna aldurs. Þá eru eignirnar enn fremur taldar hafa varðveislugildi vegna menningarsögu þeirra og byggingarlistar.
    Yfirlæknisbústaðurinn á Vífilsstöðum var reistur árið 1919 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar. Húsið er eitt af fyrstu verkefnum hans eftir að hann lauk lokaprófi í arkitektúr frá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn í febrúar 1919. Yfirlæknisbústaðurinn á Vífilsstöðum hefur staðið ónotaður um árabil og er ástand hússins lélegt. Til að tryggja varðveislu eignarinnar var ákveðið að færa umráð á bústaðnum á Vífilsstöðum frá Landspítalanum til Ríkiseigna sem fer með miðlæga umsýslu á stærstum hluta fasteigna ríkisins, enda nýtist eignin ekki undir starfsemi spítalans. Ríkiseignum var jafnframt falið að kanna ástand húsa á Vífilsstöðum og leggja drög að utanhússviðgerð á yfirlæknisbústaðnum til að koma í veg fyrir frekari skemmdir og tryggja þannig varðveislu þess.
    Á vegum Ríkiseigna liggur fyrir greinargerð um byggingarnar á Vífilsstöðum sem unnin var í byrjun þessa árs en þar er einnig að finna ítarlegt mat á kostnaði vegna nauðsynlegrar viðgerðar á yfirlæknisbústaðnum. Áætlað er að heildarkostnaður við viðgerðir og endurbætur á húsinu að utan sé í kringum 120 m.kr.
    Á grundvelli fjárfestingarátaks stjórnvalda var fjármagn tryggt til að hægt verði að hefja framkvæmdir á eigninni. Í samræmi við áætlanir Ríkiseigna er unnið að því að hefja fyrsta áfanga framkvæmdanna á þessu ári.