Ferill 883. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1908  —  883. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um kostnað ríkisins af framkvæmdum við Borgarlínu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er áætlaður núvirtur heildarkostnaður ríkisins af framkvæmdum við Borgarlínu og rekstur hennar og annarra almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar?

    Kostnaður vegna framkvæmda við Borgarlínu kemur fram í áætlun fyrir samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem birtur var á stjórnarráðsvefnum 26. september 2019. Í fyrirspurninni er í fyrsta lagi óskað eftir upplýsingum um núvirtan heildarkostnað ríkisins af framkvæmdum við Borgarlínu. Við núvirðingu framkvæmda er venjulega verið að horfa til afkomu yfir tiltekið tímabil, eða ábata af framtíðartekjum að frádregnum kostnaði við að afla þeirra (e. net present value), að teknu tilliti til tímavirðis fjármuna á þann hátt að afkoman eða ábatinn er núvirtur til upphafsársins m.v. meðalfjármögnunarkjör (afvaxtaður). Í þessu tilfelli er eingöngu um að ræða stofnkostnaðinn við að framkvæma samgönguverkefni sem ríkið og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa sammælst um að fjármagna, en ekkert hefur verið ákveðið um framtíðarrekstrarfyrirkomulag (tekjur eða gjöld). Ábati í þessu verkefni gæti t.d. verið fólginn í mögulegum beinum tekjum af farþegum Borgarlínunnar eða annarri umferð og af tímasparnaði og slysasparnaði í samgöngum samhliða lækkun kostnaðar vegna samdráttar í annarri umferð. Afvöxtun á framkvæmdaframlögum ríkissjóðs einum og sér fangar því ekki núvirði verkefnisins í heild heldur endurspeglar einungis hversu háa fjárhæð þyrfti að setja til hliðar í fjárfestingarsjóð með tiltekinni ávöxtun til að unnt væri að fjármagna hlutdeild ríkisins yfir allt tímabilið. Ef miðað er við 3% raunávöxtun í dæmaskyni þá væru núvirt framkvæmdaframlög ríkisins til yfirstandandi árs um 37 ma.kr. m.v. að greiðslur fari fram í lok hvers árs.
    Til samanburðar má skoða staðvirt framkvæmdaframlög ríkisins yfir tímabilið, þ.e. kostnaðinn á föstu verðlagi, með því að uppreikna áætlunina frá 2019 til verðlags 2021. Í töflunni hér á eftir er kostnaðurinn samkvæmt samgöngusáttmálanum sundurliðaður á þau 15 ár sem áætlað er að framkvæmdin taki á verðlagi 2019 og uppreiknaður m.v. vísitölu samgönguverkefna (gögn frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti) til 2021.

m.kr.

Verðlag 2019

Verðlag 2021 m.v. VSV

Ár
Heild Hlutur ríkis Heild Hlutur ríkis
2019 600 525 639 559
2020 1.000 875 1.065 932
2021 6.400 5.600 6.817 5.965
2022 6.400 5.600 6.817 5.965
2023 4.800 4.200 5.113 4.474
2024 3.100 2.713 3.302 2.889
2025 2.600 2.275 2.770 2.423
2026 4.200 3.675 4.474 3.915
2027 2.600 2.275 2.770 2.423
2028 2.600 2.275 2.770 2.423
2029 3.700 3.238 3.941 3.449
2030 3.700 3.238 3.941 3.449
2031 3.200 2.800 3.409 2.983
2032 2.600 2.275 2.770 2.423
2033 2.100 1.838 2.237 1.957
15 49.600 43.400 52.835 46.231

    Áætlaður heildarkostnaður þess hluta samgöngusáttmálans sem snýr að framkvæmdum við Borgarlínu frá 2019 til 2033 er um 49,6 ma.kr. á verðlagi ársins 2019. Hlutdeild ríkisins við verkefnið er 87,5%, eða 43,4 ma.kr. á sama verðlagi, en um 46 ma.kr. á verðlagi í ágúst 2021.
    Í öðru lagi, hvað varðar rekstrarkostnað Borgarlínunnar og annarra almenningssamgangna til framtíðar, þá hefur samkvæmt upplýsingum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu ekki verið samið um neina aðkomu ríkisins að rekstri Borgarlínunnar. Samgöngusáttmálinn fjallar um innviði, ekki rekstur. Ríkið hefur frá 2012 styrkt rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við samning þar að lútandi. Þar var samið um að ríkið legði til 1 milljarð til almenningssamgangna í 10 ár en á móti yrðu þá ekki byggð tiltekin stærri samgöngumannvirki á svæðinu. Af þeirri upphæð færu 90% í rekstur almenningssamgangna innan höfuðborgarsvæðisins en 10% í rekstur almenningssamgangna milli höfuðborgarsvæðisins og byggðakjarna á áhrifasvæði þess. Þessi framlög hafa haldist svo til óbreytt síðan. Samhliða undirritun samgöngusáttmálans í september 2019 var undirrituð viljayfirlýsing um framlengingu á framlagi ríkisins til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2034. Er þar gert ráð fyrir að þessi framlög verði að minnsta kosti óbreytt að raunvirði út samningstímann eða sem svarar til 15 ma.kr. uppsafnað á núverandi verðlagi. Það jafngildir um 12 ma.kr. að núvirði miðað við sömu forsendur og áður greinir.