Ferill 879. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1909  —  879. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um græna skatta.


    Við gerð þessa svars er fylgt aðferðafræði í staðli Evrópusambandsins um umhverfisskatta. Sambandið skilgreinir þá sem skatta sem lagðir eru á skattstofna sem sannreynt er að hafi neikvæð áhrif á umhverfið. Umhverfisskattarnir sem eru til grundvallar í þessu svari eru í samræmi við upplýsingagjöf Hagstofunnar til Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Þó að mörg þessara gjalda séu flokkuð sem umhverfisskattar voru sum þeirra lögfest í öðrum tilgangi, t.d. til að standa undir samgöngukerfinu. Til viðbótar eru í lögum gjaldtökuheimildir sem tengjast umhverfismálum og taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna en fjöldi slíkra gjalda samkvæmt samræmdri talningu liggur ekki fyrir og því eru þau ekki meðtalin í þessu svari. Þá skal nefnt að svarið miðast einungis við skatta og gjöld til ríkisins en ekki sveitarfélaga.

     1.      Hversu margir „grænir skattar“ eða önnur gjöld sem tengjast umhverfismálum hafa verið lagðir á eða hækkaðir á þessu kjörtímabili og hversu oft hafa gjöldin hækkað?
    Á kjörtímabilinu tók skattur á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir (f-gös) gildi. Innleiðingin var í tveimur jöfnum áföngum árin 2020 og 2021. Kolefnisgjald var hækkað árlega á kjörtímabilinu, þar af einu sinni í takt við vísitölu neysluverðs. Árlegar hækkanir hafa verið á öðrum krónutölugjöldum, þar á meðal vörugjöldum á bensín, olíugjaldi, bifreiðagjaldi og kílómetragjaldi í samræmi við vísitölu neysluverðs en þó aldrei um meira en 2,5%. Jafnframt hefur losunargjald breyst árlega, þar af þrisvar til hækkunar, en gjaldið fylgir meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Nokkrir vöruflokkar úrvinnslugjalds voru hækkaðir árin 2020 og 2021 til þess að mæta kostnaði við úrvinnslu úrgangs. Þá hækkaði gjald af raforku vegna eftirlits árið 2020.

     2.      Hversu margir „grænir skattar“ eða önnur gjöld sem tengjast umhverfismálum eru nú við lýði á Íslandi?
    Samkvæmt staðli Evrópusambandsins eru eftirfarandi skattar og gjöld sem eru við lýði á Íslandi flokkaðir sem umhverfisskattar:
          vörugjald á ökutæki,
          vörugjöld á bensín,
          kolefnisgjald,
          olíugjald,
          skilagjald,
          úrvinnslugjald,
          skattur á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir,
          jöfnunargjald vegna dreifingar raforku,
          gjald af raforku vegna eftirlits,
          sérstakur skattur af heitu vatni,
          kílómetragjald,
          bifreiðagjald,
          gjöld vegna starfsleyfa Umhverfisstofnunar,
          skipagjald,
          vitagjald,
          gjald rekstrarleyfishafa sjókvíaeldis,
          greiðslur fyrir sölu losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfinu) og losunargjald.