Ferill 780. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1910  —  780. mál.
Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um landgrunnskröfur Íslands.


     1.      Telur ráðherra málatilbúnað í greinargerðum Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna 2009 og 2021 vera í samræmi við reglugerð nr. 196/1985 varðandi afmörkun landgrunnsins til vesturs, í suður og til austurs?
    Síðustu tvo áratugi hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á hafsbotninum suðvestur af Íslandi í þeim tilgangi að gera kröfu til landgrunns Íslands utan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Ísland lagði inn kröfugerð sína til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna á árinu 2009 og tók hún mið af niðurstöðum þeirra rannsókna. Þar eru gerðar kröfur um ytri mörk sem liggja fjær landi en samkvæmt reglugerð 196/1985, í ljósi aukins skilnings á ákvæðum hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um neðansjávarhæðir og -hryggi og þróunar í túlkun á þeim áratugina þar á undan. Eftir umfangsmikla umfjöllun landgrunnsnefndarinnar taldi hún ekki fullnægjandi gögn til staðar til að fallast að öllu leyti á kröfur Íslands um landgrunn utan 350 sjómílna. Af þeim sökum var greinargerð Íslands endurskoðuð, á grundvelli viðbótarrannsókna og þróunar sem orðið hafði í landgrunnsmálum frá 2009, m.a. samkvæmt öðrum niðurstöðum landgrunnsnefndarinnar. Sú endurskoðaða greinargerð var send inn til landgrunnsnefndarinnar í lok mars á þessu ári og bíður nú afgreiðslu hjá nefndinni. Málatilbúnaður Íslands í þessum kröfugerðum, rétt eins og reglugerð 196/1985, byggist á reglum Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna og tekur mið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir hverju sinni. Ekki verður endanlega ljóst fyrr en landgrunnsnefndin hefur gefið út sín tilmæli hvar endanleg mörk landgrunnsins sem Ísland getur átt kröfu til utan 200 mílna efnahagslögsögunnar munu liggja á þessu svæði.

     2.      Kom til álita að afnema reglugerð nr. 196/1985 áður en greinargerðir voru sendar til landgrunnsnefndarinnar 2009 og 2021?
    Á meðan vinna landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna er enn í gangi varðandi kröfur um þau svæði sem reglugerðin nær til er ekki tímabært að endurskoða reglugerð um landgrunn Íslands á því svæði.

     3.      Hver er heildarkostnaður, þ.m.t. rannsóknarvinna, við gerð greinargerðanna?
    Heildarkostnaður vegna landgrunnsgreinargerðanna sem spurt er um féll til á um tveggja áratuga tímabili hjá nokkrum stofnunum og ráðuneytum. Uppreiknuð samantekt á þeim kostnaði liggur ekki fyrir, en ætla má að hann sé ríflega milljarður króna yfir þetta tímabil. Meginhluti þess kostnaðar hefur verið vegna rannsóknarvinnu, mælinga og úrvinnslu sem verið hefur unnin af stofnunum og fræðimönnum.

     4.      Hvaða lögfræðilegu ráðgjöf fékk ráðuneytið við gerð greinargerðanna?
    Utanríkisráðuneytið fer með hafréttarmál á alþjóðavettvangi og vinna við greinargerðirnar var unnin af sérfræðingum utanríkisráðuneytisins, í samstarfi við sérfræðinga frá Íslenskum orkurannsóknum (áður Orkustofnun), Háskóla Íslands, Landhelgisgæslunni, öðrum ráðuneytum og fyrrverandi fulltrúa í landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna.

    Alls fóru þrjár vinnustundir í að taka þetta svar saman.