Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1913  —  483. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um loftslagsmál.


     1.      Hvernig má tryggja sem best að mat á loftslagsáhrifum margvíslegra lagafrumvarpa og stjórnvaldsáætlana fari fram og sé gert opinbert?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur eftirfarandi fram: „Ríkisstjórnin stefnir að því að allar stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum. Ívilnanir til nýfjárfestinga byggist á því að verkefnin hafi verið metin út frá loftslagsáhrifum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um samdrátt í gróðurhúsalofttegundum. Lögð verður áhersla á þátttöku allra geira samfélagsins og almennings í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stutt við nýsköpun á þessu sviði.“
    Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá júní 2020 er aðgerð sem felur í sér að loftslagsáhrif lagafrumvarpa verði sérstaklega metin. Unnið er að því að setja fram í verklagsreglu um áhrifamat lagafrumvarpa tól sem stuðst verður við til að meta möguleg loftslagsáhrif allra lagafrumvarpa og líta til ólíkra hagsmuna við greiningu. Í þessari vinnu er horft til viðmiða sem unnin hafa verið í Danmörku. Einnig hefur verið horft til svokallaðs jafnréttismats, sem mögulegrar fyrirmyndar. Í jafnréttismati skal horfa á markmið lagasetningar og hverjir verða fyrir áhrifum í heild eða að hluta. Gefinn hefur verið út á heimasíðu Stjórnarráðsins „Leiðarvísir fyrir mat á jafnréttisáhrifum lagasetningar“.
    Í tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu 2015–2026, sem umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram á 151. löggjafarþingi 2020–2021 (þskj. 1184, 705. mál) var m.a. lagt til að Skipulagsstofnun hefði forgöngu um gerð og miðlun upplýsinga og leiðbeininga fyrir sveitarfélög, skipulagsráðgjafa og hönnuði um loftslagsmiðað skipulag, sem og um mat á loftslagstengdum áhrifum skipulags og annarra áætlana. Í tillögunni var þeim tilmælum beint til stjórnvalda að meta loftslagsáhrif áætlana, annarra en skipulagsáætlana sveitarfélaga, sem varða þróun byggðar, samgöngur og landnotkun, sem og áhrif slíkra áætlana á viðnámsþrótt byggðar og samfélags gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Þingsályktunartillagan hlaut ekki afgreiðslu á þinginu en gert er ráð fyrir að hún verði endurflutt á næsta löggjafarþingi.
    Síðast en ekki síst skal nefna að loftslagsráð hefur sem lögbundið hlutverk skv. 5. gr. b laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, að rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál. Loftslagsráð skal gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum samkvæmt lögunum.
    
     2.      Hvernig er unnt að hraða þeim mælingum, mati og rannsóknum á losun gróðurhúsalofttegunda sem nauðsynlegar eru til þess að staðið verði við íslenskar skuldbindingar Parísarsamkomulagsins?
    Til að tryggja að mat ríkja, og þar á meðal Íslands, á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis sé í samræmi við loftslagsskuldbindingar er reglulega framkvæmd ítarleg rýni af fulltrúum loftslagssamningsins (UNFCCC) og framkvæmdastjórn ESB á árlegu losunarbókhaldi ríkjanna. Losunarbókhaldið samanstendur af skýrslu og umfangsmiklum gögnum sem bæði er rýnt og ef t.d. mat, mælingar eða rannsóknir sem matið byggist á þykir ekki nægilega skýrt eða fullnægja bókhaldskröfum ESB og/eða UNFCCC geta ríki þurft að uppfæra bókhaldið.
    Mikilvægt er að forgangsraða umbótum á mælingum, rannsóknum og mati á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í samræmi við niðurstöður á rýni á losunarbókhaldinu. Losunarbókhald Íslands og aðferðafræði við mat á losun og bindingu er í stöðugri endurskoðun og uppfærslu byggt á niðurstöðum úr rýni á bókhaldinu og mögulegum ábendingum sem borist hafa um umbætur. Þar sem kröfur er snúa að mati á losun og bindingu vegna landnotkunar hafa aukist verulega fyrir skuldbindingartímabil Parísarsamningsins (2021–2030) og meiri óvissa ríkir um þann hluta losunarbókhaldsins en bókhalds fyrir t.d. losun frá bílum eða iðnaði var lagt af stað í umfangsmikla vinnu til að hraða umbótum. Þá sérstaklega þeim sem nauðsynlegar eru til að tryggja að mat Íslands á losun og bindingu vegna landnotkunar standist bókhaldskröfur og Ísland standist loftslagsskuldbindingar sínar.
    Sú vinna nær til mælinga, mats og rannsókna og hófst árið 2020 með auknum fjárveitingum til Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu árið 2023. Auk þessarar umbótavinnu hefur ráðuneytið sett af stað átak til að styrkja enn frekar grunnrannsóknir og fjölga þeim sem hafa þekkingu á sviði loftslagsmála/kolefnisbindingar vegna landnotkunar og skógræktar með því að styrkja doktorsverkefni.
    Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eru settar fram 48 aðgerðir. Samkvæmt lögum um loftslagsmál skal verkefnisstjórn árlega skila skýrslu til ráðherra um framgang aðgerðaáætlunar. Í skýrslunni skal farið yfir þróun losunar og hvort hún er í samræmi við áætlanir, fjallað um framgang aðgerða og eftir atvikum settar fram ábendingar verkefnisstjórnar. Við allar aðgerðir er að finna árangursmælikvarða sem er mælikvarði á framgang viðkomandi aðgerðar. Fylgst er með árangursmælikvörðum yfir tíma til að sjá hvernig viðkomandi aðgerð miðar og hvort hún virki sem skyldi. Árangursmælikvarðarnir verða birtir í ársskýrslu um framgang aðgerða og á heimasíðu aðgerðaáætlunar, CO2.is, og ættu þeir að geta gefið mynd af væntanlegum árangri aðgerða í loftslagsmálum, þrátt fyrir að upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda berist síðar.
    Markmið ráðuneytisins er að bæta samtímaupplýsingagjöf varðandi stöðu á aðgerðum í aðgerðaáætlun Íslands á heimasíðunni CO2.is. Slíkt krefst þátttöku allra ráðuneyta sem koma að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og verður eitt af verkefnum ráðuneytisins á næstu misserum.