Ferill 621. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1914  —  621. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Gunnarssyni um starfsemi Úrvinnslusjóðs.


     1.      Tryggir Úrvinnslusjóður í starfsemi sinni jafnræði milli innlendra og erlendra endurvinnslufyrirtækja og hversu margir þeirra sem sjóðurinn greiðir til að endurvinna úrgang eru á Íslandi í samanburði við útlönd?
    Í lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, er kveðið á um að úrvinnslugjald skuli standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning hans til móttökustöðvar og ráðstöfun hans. Einnig er kveðið á um að úrvinnslugjald eigi að standa undir kostnaði við að ná söfnunar- eða endurvinnslumarkmiðum fyrir raf- og rafeindatæki, rafhlöður og umbúðir úr pappa, pappír og plasti.
    Fyrirkomulag Úrvinnslusjóðs felur í sér að þjónustuaðilar safna úrgangi frá söfnunarstöðvum, fyrirtækjum eða heimilum, meðhöndla hann og koma honum til ráðstöfunaraðila. Úrvinnslusjóður gerir samninga við þjónustuaðila en samþykkir ráðstöfunaraðila á grundvelli skilmála fyrir þjónustu- og ráðstöfunaraðila. Þjónustuaðili getur ekki einnig verið ráðstöfunaraðili. Þjónustuaðilar eru í samkeppni um úrganginn, taka t.d. þátt í útboðum sveitarfélaga um að þjóna söfnunarstöðvum. Þegar þjónustuaðili hefur komið úrganginum til ráðstöfunaraðila telst hann hafa lokið sínum verkþætti og fær greitt endurgjald frá Úrvinnslusjóði gegn staðfestingu frá ráðstöfunaraðila á mótteknu magni. Ráðstöfunaraðili fær ekki greitt endurgjald með beinum hætti frá Úrvinnslusjóði. Þjónustuaðili semur við ráðstöfunaraðila um greiðslur hvort sem greiða þarf með efninu eða það er selt. Þjónustuaðili er einnig í viðskiptasambandi við úrgangshafa, hvort sem hann er sveitarfélag, fyrirtæki eða heimili. Framangreint fyrirkomulag við framkvæmd kerfisins hefur verið mótað af stjórn Úrvinnslusjóðs.
    Til að jafna aðstöðu sveitarfélaga og fyrirtækja um allt land til að safna úrgangi og koma til ráðstöfunar greiðir Úrvinnslusjóður flutningsjöfnun. Flutningsjöfnunin er ákveðin greiðsla (kr./kg) sem tekur mið af nauðsynlegri flutningsvegalengd til næsta núllpunkts (útflutningshöfn), þar sem engin flutningsjöfnun er greidd (t.d. höfuðborgarsvæðið). Flutningsjöfnun er miðuð við póstnúmer úrgangshafa og miðar við flutning á ómeðhöndluðum úrgangi. Þjónustuaðilar hafa flestir starfsstöðvar í núllpunktum þar sem þeir geta meðhöndlað úrganginn áður en hann er sendur til ráðstöfunaraðila. Til að auka sveigjanleika er gert ráð fyrir því að einn þjónustuaðili geti framselt úrgang sem hann hefur safnað til annars þjónustuaðila sem kemur úrganginum til ráðstöfunaraðila. Þjónustuaðilinn sem safnar úrganginum fær greidda flutningsjöfnun frá Úrvinnslusjóði þegar hann framselur úrganginn til annars þjónustuaðila sem fær endurgjald frá sjóðnum þegar hann hefur komið honum til ráðstöfunaraðila.
    Sömu skilmálar gilda fyrir innlenda og erlenda ráðstöfunaraðila. Þjónustuaðilar safna úrgangi, meðhöndla hann og koma honum til ráðstöfunaraðila sem staðfestir móttöku. Enginn greinarmunur er gerður á innlendum og erlendum aðilum.
    Á árinu 2020 fengu 13 innlendir þjónustuaðilar greiðslur frá Úrvinnslusjóði vegna úrgangs sem var sendur í endurvinnslu. Þá voru 17 ráðstöfunaraðilar, þar af einn innlendur, sem fengu greiðslur frá þjónustuaðilum (hluti af greiðslu Úrvinnslusjóðs til þjónustuaðila) vegna ráðstöfunar úrgangs til endurvinnslu.
    Dæmi um endurvinnslu- og endurnýtingaraðila hér á landi er endurvinnsla á heyrúlluplasti og ýmsum plastumbúðum og hreinsun á leysiefnum til þvotta á málningaráhöldum og vélum. Einnig er úrgangsolía hreinsuð og hjólbarðakurl nýtt sem byggingarefni á urðunarstað.

     2.      Hefur Úrvinnslusjóður aðlagað sig að breyttum áherslum, t.d. ef horft er til tillagna landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs hvað varðar rekjanleika, umhverfisáhrif og endurvinnslu og endurnýtingu sem næst uppruna?
    Í júní sl. voru samþykkt á Alþingi lög sem hafa það að markmiði að styðja við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi, sbr. lög nr. 103/2021, um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Með tilkomu laganna verður m.a. gerð aukin krafa um rekjanleika úrgangs. Úrvinnslusjóður hefur tekið þátt í samstarfi aðila í Evrópu, sem bera framleiðendaábyrgð, um að skoða leiðir til að tryggja betur rekjanleika úrgangs. Eins og fram kemur í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar þá þarf úrgangur sem safnað er oft að fara í áframhaldandi vinnslu eða flokkun áður en hann getur farið til endurvinnslu. Slíkir aðilar, miðlarar eða flokkunarfyrirtæki, taka við efni frá mörgum aðilum og blöndun á efni getur átt sér stað, sérstaklega þegar um lítið magn er að ræða eins og frá þjónustuaðilum Úrvinnslusjóðs, enda er magnið frá Íslandi almennt lítið í samanburði við magnið frá fjölmennari þjóðum. Úrvinnslusjóður hefur kallað eftir upplýsingum um áfangastað efnisins og framgangsmáta við leyfi og val á endurvinnsluaðilum utan Evrópu. Sjóðurinn hefur jafnframt lagt sig fram um að afla upplýsinga um raunverulega endurvinnslu þess úrgangs sem þjónustuaðilar senda utan. Þá stendur yfir endurskoðun á skilmálum fyrir þjónustu- og ráðstöfunaraðila til þess að tryggja betur upplýsingaflæði varðandi endanlega meðhöndlun og úrvinnslu úrgangs sem fluttur hefur verið út til endurvinnslu.
    Samkvæmt framangreindum breytingalögum nr. 130/2021 skal Úrvinnslusjóður stuðla að hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu þar sem markmiðið er sjálfbær auðlindanýting, að draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Úrvinnslusjóði er nú skylt að hafa til hliðsjónar umhverfislegan ávinning þegar hann ákveður fyrirkomulag á úrvinnslu úrgangs sem er á forræði sjóðsins. Þá skal Úrvinnslusjóður einnig tryggja að fullnægjandi gögn varðandi ráðstöfun úrgangs liggi fyrir áður en greiðslur eru inntar af hendi til samningsaðila Úrvinnslusjóðs. Gert er ráð fyrir að Úrvinnslusjóður þurfi að grípa til aðgerða til að aukning verði á endurvinnslu úrgangs, hvort sem endurvinnsla úrgangsins muni fara fram hér á landi eða erlendis.

     3.      Eru hráefnismiðlarar sem ekki geta sýnt fram á eigin endurvinnslu viðurkenndir sem ráðstöfunaraðilar hjá Úrvinnslusjóði?
    Aðilar eins og flokkunarfyrirtæki og miðlarar sem meðhöndla úrgang og koma honum áfram til endurvinnslu geta verið mikilvægir hlekkir í keðju úrgangsmeðhöndlunar, svo sem með því að sinna sérhæfðri flokkun tiltekinna úrgangstegunda. Þessir aðilar geta fengið viðurkenningu Úrvinnslusjóðs sem ráðstöfunaraðilar. Hins vegar, líkt og kemur fram í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar, þá skal Úrvinnslusjóður nú tryggja að fullnægjandi gögn varðandi ráðstöfun úrgangs liggi fyrir áður en greiðslur eru inntar af hendi til samningsaðila Úrvinnslusjóðs. Úrvinnslusjóður hefur hafið vinnu við að uppfæra verklag til samræmis við breytingalög nr. 130/2021 og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið fyrir áramót.

     4.      Er það rétt að flutningsjöfnun Úrvinnslusjóðs miðist við ákveðnar útflutningshafnir og er eitthvað því til fyrirstöðu að breyta þessum greiðslum ef það stuðlar að frekari endurvinnslu hér á landi?
    Flutningsjöfnun er til að jafna aðstöðu við söfnun úrgangs sem ber úrvinnslugjald um allt land. Ef vísbendingar eru um að flutningsjöfnunin tryggi ekki jafna aðstöðu um allt land er unnt að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar. Hjá Úrvinnslusjóði er hafinn undirbúningur við að endurskoða flutningsjöfnun vöruflokka, bæði fjárhæðir og svokallaðra núllpunkta, til að fylgja eftir þróun í úrvinnslu hér á landi.
    Flutningsjöfnun miðar við flutning frá úrgangshafa til næsta núllpunkts (útflutningshafnar), þ.e. staðar þar sem engin flutningsjöfnun er greidd. Þessir núllpunktar eru staðir þar sem hægt er að meðhöndla úrganginn áður en hann er fluttur til ráðstöfunar hvort sem ráðstöfunin er hér á landi eða erlendis. Flutningsjöfnun miðar við flutning á ómeðhöndluðum úrgangi eins og hann fellur til hjá úrgangshafa, hvort sem hann er söfnunarstöð, fyrirtæki eða heimili. Sem dæmi má nefna að notuðu heyrúlluplasti er safnað hjá bændum með ýmsu móti, í pressugáma, í stórsekkjum, litlum böggum eða lausu í gámum. Flutningsjöfnun miðar við flutning á framangreindu efni frá bændum til næsta núllpunkts til að koma í veg fyrir flutning á óbögguðu efni landshluta á milli. Þjónustuaðilar eru nær undantekningarlaust með starfsstöðvar á þessum núllpunktum. Þó að flutningsjöfnun miðist við tiltekinn núllpunkt þá á það aðeins við um greiðslu til þjónustuaðila. Ef þjónustuaðili vill flytja úrganginn annað til vinnslu þá gerir hann það án afskipta frá Úrvinnslusjóði. Fjöldi núllpunkta er mismunandi eftir vöruflokkum, t.d. er aðeins einn núllpunktur fyrir spilliefni (önnur en úrgangsolíu og rafgeyma) sem fargað er í Kölku. Sjá einnig svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.