Ferill 827. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1919  —  827. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni um fjölda innleiddra reglna Evrópusambandsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hve margar tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar í íslenskan rétt á yfirstandandi kjörtímabili?

    Samkvæmt óstaðfestu yfirliti Eftirlitsstofnunar EFTA yfir tilkynningar um innleiðingu gerða hefur Ísland innleitt 124 tilskipanir og 1.330 reglugerðir á yfirstandandi kjörtímabili. Í einhverjum tilvikum er um að ræða innleiðingu gerða að hluta.
    Til samanburðar má geta þess að samkvæmt tölfræðiupplýsingum Evrópusambandsins voru alls 7.684 ESB-gerðir gefnar út á tímabilinu 1. nóvember 2017 – 30. júní 2021. Á tímabilinu hefur Ísland því tekið upp um 18% af gerðum ESB. Á síðasta heila kjörtímabili, árin 2013–2016, tók Ísland að meðaltali upp 22% af gerðum ESB.
    Frá gildistöku til og með ársins 2020 hefur Ísland tekið upp um 14,5% af þeim gerðum sem ESB hefur gefið út. Eru þá teknar með í reikninginn þær gerðir sem voru hluti af samningnum í upphafi. Hlutfallið var lágt fyrstu árin, en jókst nokkuð upp úr 2010, fyrst og fremst vegna upptöku matvælalöggjafarinnar í EES-samninginn og vegna nýrra reglna á sviði fjármálamarkaða.

    Alls fóru átta vinnustundir í að taka þetta svar saman.