Ferill 875. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1920  —  875. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um Evrópusambandið.


     1.      Hefur Evrópusambandið á einhvern hátt dregið til baka viðurkenningu á því að umsókn um aðild að sambandinu hafi verið slitið? Hafi Evrópusambandið gefið slíkt til kynna, hver voru þá viðbrögð íslenskra stjórnvalda?
    Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir með bréfi þáverandi utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, dags. 1. mars 2015, til Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands (en Lettland var í formennsku ráðherraráðs Evrópusambandsins um þær mundir), og Johannesar Hahn, þáverandi framkvæmdastjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að aðildarviðræðum væri að fullu hætt og að ekki skyldi líta á Ísland sem umsóknarríki. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, ítrekaði þetta í bréfi til Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, 26. mars sama ár. Í svarbréfi utanríkisráðherra Lettlands fyrir hönd ráðherraráðsins, dags. 22. apríl 2015, kemur fram að með hliðsjón af afstöðu íslenskra stjórnvalda muni ESB aðlaga verklag sitt að því og í kjölfarið hætti sambandið að meðhöndla Ísland sem umsóknarríki. Engin breyting hefur orðið þar á. Afstaða núverandi ríkisstjórnar er skýr en í stefnuyfirlýsingu hennar er undirstrikað að „hagsmunum Íslands er best borgið með því að standa áfram utan Evrópusambandsins“.

     2.      Við hvaða aðstæður gæti Ísland nýtt 102. gr. EES-samningsins?
    Umrædd grein EES-samningsins fjallar um málsmeðferð við upptöku gerða í EES-samninginn. Henni er reglulega beitt í tengslum við fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Á þeim fundum „nýtir“ Ísland (ásamt öðrum samningsaðilum) 102. gr. til ,,að taka ákvörðun um að breyta EES-samningnum eins fljótt og unnt er eftir að bandalagið hefur samþykkt nýja samsvarandi löggjöf bandalagsins, með það að markmiði að unnt sé að beita samtímis þeirri löggjöf og breytingunum á viðaukunum við samninginn“, eins og segir í ákvæðinu. Með þessu leggur Ísland sitt af mörkum til þess að tryggja að íslensk fyrirtæki og einstaklingar sitji við sama borð og búi við sömu réttarvernd og aðrir á innri markaðnum á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær til.
    Ákvarðanir um breytingar á samningnum eru teknar samhljóða í sameiginlegu EES-nefndinni. Greinin leggur á herðar samningsaðilum að reyna sitt ýtrasta til þess að komast að samkomulagi um upptöku gerða sam falla undir gildissvið samningsins. Það hefur alltaf gengið eftir hingað til en greinin gerir þó ráð fyrir þeim möguleika að samkomulag um það takist ekki. Í fundargerð (e. Agreed Minutes) við undirritun samningsins kom fram sameiginleg afstaða samningsaðilanna að frestun framkvæmdar á hluta viðauka EES-samningsins „sé ekki í þágu góðrar framkvæmdar samningsins og ætti að leita allrar viðleitni til að komast hjá því.“ Hins vegar eru ekki sett nein skilyrði fyrir því í greininni undir hvaða kringumstæðum samningsaðili getur hafnað því að taka upp gerðir í samninginn, umfram það sem að framan greinir.

    Alls fóru sex vinnustundir í að taka þetta svar saman.