Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 5  —  5. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (bifreiðagjald, olíu- og kílómetragjald, vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „við skráningu“ í síðari málsl. 2. mgr. kemur: 15 dögum eftir nýskráningu.
     b.      5. mgr. orðast svo:
                      Við eigendaskipti að bifreið skal endurgreiða bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af gjaldtímabili sem er að líða þegar eigendaskipti fara fram. Gjaldskylda flyst jafnframt frá þeim tíma yfir á kaupanda vegna þess sem eftir er af gjaldtímabilinu, með eindaga 15 dögum síðar.
     c.      Í stað orðanna „við afhendingu skráningarmerkis“ í síðari málsl. 7. mgr. kemur: 15 dögum eftir skráningu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr.:
                  1.      Orðin „taka af henni skráningarmerki og afhenda þau lögreglustjóra“ í 3. málsl. falla brott.
                  2.      Lokamálsliður fellur brott.
     b.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr.:
                  1.      Orðin „svo sem að framan segir“ falla brott.
                  2.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lögreglustjóri skal ekki afhenda þau aftur fyrr en færðar hafa verið sönnur á greiðslu bifreiðagjalds.
     c.      4. og 5. mgr. falla brott.

II. KAFLI

Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr.:
                  1.      Á eftir orðunum „koma með ökutæki til álestraraðila“ í 2. málsl. kemur: sem er faggilt skoðunarstöð eða tollyfirvöld við innflutning og útflutning.
                  2.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisskattstjóra er heimilt að ákveða að álestur af kílómetramæli gjaldskylds ökutækis geti jafnframt farið fram rafrænt og skal þá faggilt skoðunarstöð yfirfara og senda ríkisskattstjóra skráningu álesturs við næstu aðalskoðun ökutækis.
     b.      Á eftir orðunum „lætur ekki lesa af ökumæli þess“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: eða álestur er ekki skráður rafrænt.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ef komið er með ökutæki til álestrar eða álestur skráður rafrænt eftir að álestrartímabili, sbr. 1. mgr., er lokið skal kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald ákvarðað með útreikningi á meðaltali ekinna kílómetra á dag á tímabilinu á milli álestra. Þá skal gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. janúar vegna álestrartímabils sem stendur frá 1. til 15. desember árið áður og eftir 1. júní vegna álestrartímabils sem stendur frá 1. til 15. júní sama ár.

4. gr.

    Orðin „og tilkynna lögreglu um það þegar í stað“ í 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.

5. gr.

    Orðin „og tollyfirvöldum þegar tilkynnt um það“ í síðari málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á lögum um bifreiðagjald, lögum um olíu- og kílómetragjald og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er breyting á aðkomu faggiltra skoðunarstöðva og Samgöngustofu að innheimtu gjalda þar sem samningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins við skoðunarstöðvar og Samgöngustofu um greiðslu þóknana vegna innheimtu gjalda voru felldir úr gildi í upphafi árs 2021. Samningarnir höfðu verið í gildi allt frá árinu 1998 og voru taldir barn síns tíma og ekki í samræmi við sjónarmið að baki lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, lög um innheimtu opinberra gjalda, nr. 150/2019 og markmið ríkisstjórnarinnar síðustu ár um skilvirkni innheimtu opinberra skatta og gjalda. Ráðuneytið hefur átt í miklu samráði við Samtök verslunar og þjónustu fyrir hönd skoðunarstöðva sem og Samgöngustofu, Fjársýslu ríkisins og Skattinn enda hafa ýmis álitaefni vaknað í kringum framkvæmd innheimtu skatta á ökutæki. Þannig hefur ákall Samgöngustofu og skoðunarstöðva verið skýrt um að fella úr lögum að sem mestu leyti skyldur skoðunarstöðva og Samgöngustofu er snúa að eftirfylgni og aðkomu að innheimtu skatta á ökutæki. Slíkt hefði í för með sér einföldun fyrir skoðunarstofur og Samgöngustofu og mögulega einnig eigendur og umráðamenn bifreiða. Með frumvarpi þessu er reynt að mæta framangreindum sjónarmiðum sem mest má án þess að innheimtuárangri verði stefnt í voða.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar eru til ýmsar smávægilegar breytingar sem taldar eru til bóta á lögum um bifreiðagjald, lögum um olíugjald og kílómetragjald og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. til þess að aflétta skyldu skoðunarstöðva til að kveða til lögreglu ef eigandi eða umráðamaður hefur látið hjá líða að greiða bifreiðagjald, vörugjald, kílómetragjald eða sérstakt kílómetragjald af bifreiðinni.
    Hvað lög um bifreiðagjald varðar er ein breytingartillagan sú að í kjölfar eigendaskipta sjái álagningaraðili, ríkisskattstjóri, um endurgreiðslu til seljanda og nýja álagningu bifreiðagjalda á kaupanda með eindaga 15 dögum síðar. Skoðað var hvort unnt væri að fella úr gildi skyldu til að greiða gjaldfallið bifreiðagjald fyrir eigendaskipti en í ljós hefur komið að slíkt verklag myndi leiða til áhættu fyrir kaupanda bifreiðar þar sem vangreitt bifreiðagjald, þótt það tengist fyrri eiganda, myndi fylgja viðkomandi bifreið. Slíkt gæti til dæmis valdið kaupanda notaðrar bifreiðar vandkvæðum við að koma ökutækinu í aðalskoðun. Þá er lagt til að við nýskráningu og afhendingu skráningarmerkis verði jafnframt ekki skylt að greiða bifreiðagjald strax heldur verði það lagt á í kjölfarið með eindaga 15 dögum síðar og er það verklag ekki talið valda lakari innheimtuárangri.
    Þá eru lagðar til breytingar á lögum um olíugjald og kílómetragjald. Þannig er lagt til að aðkoma faggiltra skoðunarstöðva að álestri af kílómetramælum gjaldskyldra ökutækja minnki með því að ríkisskattstjóri geti ákveðið að heimilt verði að færa inn álestur rafrænt. Slíkt er í samræmi við þróun stafrænnar þjónustu af hálfu hins opinbera og er til hagsbóta fyrir eigendur gjaldskyldra ökutækja. Aðkoma skoðunarstöðva verði þó eftir sem áður eftirlitshlutverk við aðalskoðun og þannig verði tryggt að reglulega berist álestur til Skattsins og að skatteftirliti verði viðhaldið. Hins vegar er ljóst að skoðunarstöðvar muni enn um sinn sinna álestri kílómetramæla lögum samkvæmt jafnvel þótt ríkisskattstjóri ákveði að heimilt verði að færa inn álestur rafrænt.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skoðunarstöðvar og Samgöngustofu en ekki síst bifreiðaeigendur, bæði einstaklinga og lögaðila. Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Skattinn, Fjársýslu ríkisins, Samgöngustofu og skoðunarstöðvar með liðsinni Samtaka verslunar og þjónustu. Áform um samningu frumvarpsins voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 14.–28. október sl. (mál nr. S-191/2021). Engar umsagnir bárust. Frumvarpsdrögin voru einnig kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 8.–22. nóvember (mál nr. S-214/2021). Engar umsagnir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Gert er ráð fyrir því að fjárhagsáhrif af tillögum frumvarpsins á afkomu ríkissjóðs verði óveruleg verði þær óbreyttar að lögum. Tillögurnar gætu þó orðið til þess að seinka innheimtu bifreiðagjalda í þeim tilvikum þegar um er að ræða nýskráningu bifreiða og úttekt skráningarmerkja enda verður bifreiðagjald ekki lengur innheimt þá heldur lögð á eftir á. Ekki er gert ráð fyrir því að áhrif vegna breytinga á lögum um bifreiðagjald verði mikil á bifreiðaeigendur. Ef heimilt verður að skrá álestra af kílómetramælum rafrænt batnar þjónusta við eigendur gjaldskyldra ökutækja auk þess sem áhættan af því verklagi er minnkuð með því að skoðunarstöðvar skrái ekna kílómetra ökutækis við aðalskoðun þess og sendi upplýsingarnar til ríkisskattstjóra.
    Áhrif á stjórnsýslu ríkisins og stofnanir eru talin verða hverfandi en þó er gert ráð fyrir því að ábyrgð Samgöngustofu og starfsleyfisskyldra skoðanastöðva á innheimtu bifreiðagjalds verði minni þar sem bifreiðagjald verður ekki innheimt lengur við nýskráningar og úttekt skráningarmerkja verði frumvarpið að lögum. Þetta mun jafnframt hafa áhrif á Skattinn þar sem ný álagning og eftir atvikum endurgreiðsla bifreiðagjalda þarf að fara fram við eigendaskipti, nýskráningar og úttekt skráningarmerkja.
    Aðrar breytingartillögur frumvarpsins eru taldar hafa óveruleg eða engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að verklagi við nýskráningu bifreiða verði breytt á þann máta að í stað þess að gjald verði lagt á og greitt við nýskráningu falli gjaldið í eindaga 15 dögum eftir nýskráningu og fari í innheimtu eftir hefðbundnum leiðum. Þetta verklag nýtist jafnframt til að minnka aðkomu Samgöngustofu og skoðunarstöðva að álagningu og innheimtu opinberra gjalda.
    Í b-lið er lagt til breytt verklag við eigendaskipti varðandi innheimtu bifreiðagjalds. Þannig verði gjaldið endurgreitt seljanda í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af yfirstandandi tímabili þegar eigendaskipti fara fram. Gjaldskylda muni á samsvarandi máta flytjast yfir á kaupanda vegna þess sem eftir er af gjaldtímabilinu, með eindaga 15 dögum síðar.
    Í c-lið er gert ráð fyrir samsvarandi verklagi við úttekt skráningarmerkja og um nýskráningu bifreiða, þ.e. að gjald verði lagt á eftir úttekt skráningarmerkis og falli í eindaga 15 dögum síðar.

Um 2. gr.

    Í a-lið er lagt til að skoðunarstöðvum verði ekki skylt að taka skráningarmerki af bifreiðum og afhenda þau lögreglustjóra. Þá er lagt til að fellt verði brott það ákvæði að lögreglustjóri geti ekki afhent skráningarmerki að nýju fyrr en færðar séu sönnur á að bifreiðagjald hafi verið greitt.
    Í b-lið er lagt til að orðin „svo sem að framan segir“ í 3. mgr. 5. gr. laganna falli brott eðli máls samkvæmt. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæðið að fari innheimtumaður ríkissjóðs fram á við lögreglustjóra að fjarlægja skráningarmerki af bifreið skuli hann ekki afhenda skráningarmerki á ný fyrr en færðar hafi verið sönnur á greiðslu bifreiðagjalds.
    Í c-lið er lagt til að 4. og 5. mgr. falli brott úr 5. gr. laganna enda er kveðið á um meðferð við nýskráningu í 3. gr. sömu laga.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lagt til að fram komi, til þess að auka skýrleika, hver annast álestur ökutækis, þ.e. faggilt skoðunarstöð eða tollyfirvöld þegar ökutæki er flutt inn eða flutt út. Jafnframt er í a-lið lagt til að eigandi gjaldskylds ökutækis geti skráð álestur af kílómetramæli ökutækisins rafrænt ákveði ríkisskattstjóri að heimila slíka rafræna afgreiðslu. Við næstu aðalskoðun ökutækis yfirfari skoðunarstöð þá álesturinn og sendi skráningu til ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri getur jafnframt ákveðið hvort rafrænn álestur megi duga við önnur tilvik, svo sem við eigendaskipti og gjaldþyngdarbreytingar. Við innflutning eða brottflutning ökutækis úr landi annast tollyfirvöld hins vegar álestur kílómetramælis skv. 2. málsl. 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna. Þá verður áfram nauðsynlegt að faggilt skoðunarstöð annist álestur kílómetramælis við afskráningu ökutækis.
    Í b-lið er lagt til að bætt verði við orðunum „ef álestur er ekki skráður rafrænt“ í 3. mgr. 14. gr. laganna sem fjallar um áætlun gjalds ef látið er undir höfuð leggjast að láta lesa af ökumæli gjaldskylds ökutækis. Rafrænn aflestur getur ekki komið í stað álesturs hjá skoðunarstöð utan álestrartímabils og skoðast ekki sem kæra í skilningi 4. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna.
    Í c-lið er lagt til að lögfesta ákvæði til bráðabirgða XIV og eldri ákvæði til bráðabirgða sama efnis. Bráðabirgðaákvæðin fjalla um ákvörðun gjalds þegar hækkanir verða og mætt er eftir að álestrartímabili er lokið. Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabili skv. 1. mgr. skal ríkisskattstjóri þannig deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. janúar og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. janúar vegna álestrartímabils sem stendur frá 1. til 15. desember árið áður og miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. júlí og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. júlí vegna álestrartímabils sem stendur frá 1. til 15. júní sama ár.

Um 4. gr.

    Lagt er til að afnumin verði skylda skoðunarstöðva til að tilkynna lögreglu um vanrækslu eiganda gjaldskylds ökutækis á að greiða kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald.

Um 5. gr.

    Lagt er til að afnumin verði skylda skoðunarstöðva til að tilkynna tollyfirvöldum um vanrækslu eiganda ökutækis á að greiða vörugjald.

Um 6. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.