Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 6  —  6. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um uppbyggingu félagslegs húsnæðis.


Flm.: Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efla almenna íbúðakerfið með uppbyggingu eitt þúsund leigu- og búseturéttaríbúða á hverju ári, í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða.

Greinargerð.

    Húsnæði telst til grunninnviða og stjórnvöld eiga að skapa kjölfestu sem markaðurinn getur síðan byggt á. Aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum síðustu ár hafa ekki skilað nægilega góðum árangri með þeim afleiðingum að aðstæður margra á húsnæðismarkaði hafa versnað töluvert. Samkvæmt félagsvísum Hagstofunnar fjölgaði þeim sem bjuggu við þröngan húsakost úr 25 þúsund manns árið 2005 í tæp 50 þúsund á árinu 2018. Þessari þróun þarf að snúa við. Húsnæðiskostnaður getur orðið óviðráðanlegur hjá fólki undir meðaltekjum. Það er vandi sem markaðurinn leysir ekki einn og sér.
    Frá því að félagslega íbúðakerfið var lagt niður, af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, um síðustu aldamót hefur framboð á húsnæði fyrir fólk undir meðaltekjum dregist saman og sveiflur á húsnæðismarkaði orðið tíðari. Gildistaka laga um almennar íbúðir og reglugerð um stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga árið 2016 var jákvætt skref en félagslegar íbúðir eru enn of fáar og tilraun til að endurreisa félagslega íbúðakerfið er enn á frumstigi.
    Samfylkingin leggur til að ríkisstjórnin taki næsta skref í átt að fullri endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins; að hún efli almenna íbúðakerfið verulega, með það að markmiði að stuðla að húsnæðisöryggi fólks og heilbrigðara efnahagslífi, nánar tiltekið að ríkisstjórnin hafi forgöngu um uppbyggingu 1.000 leigu- og búseturéttaríbúða á hverju ári í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða, sem yrðu þá þriðjungur af árlegu byggingarmagni. Það kallar á u.þ.b. tvöföldun stofnframlaga í fjárlögum. Þannig væri unnt að fjölga íbúðum um allt land fyrir tekjulægri hópa og draga úr verðhækkunum, bæði á eigna- og leigumarkaði.
    Þörf er á skýrri stefnumörkun stjórnvalda í húsnæðismálum í nánu samstarfi við sveitarfélögin í landinu, aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila. Ríkisstjórnin þarf að setja fram skýr töluleg markmið um fjölda íbúða sem þarf að byggja til lengri og skemmri tíma. Þannig þarf ríkisstjórnin að setja sér langtímahúsnæðisáætlun, líkt og hún gerir með samgönguinnviði í samgönguáætlun.
    Uppbygging slíkra íbúða kann að vera tímabundin á einstökum svæðum en varanleg á öðrum og getur lotið ólíkum lögmálum frá einu svæði til annars. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnvöld komi á fót húsnæðisáætlun og húsnæðisstefnu til lengri tíma um allt land. Við sjáum t.d. að það er langtímavandi í uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni og húsnæðisskortur veldur ótryggari vinnumarkaði á svæðum þar sem byggingarkostnaður er langt yfir markaðsvirði húseigna. Á slíkum svæðum getur ríkið þurft að styðja við byggingu íbúða til langframa. Jafnframt er mikilvægt í þessu samhengi að skoðað verði gaumgæfilega hvernig hægt er að jafna byrði sveitarfélaga þegar kemur að uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Mikilvægt er að gæði þess húsnæðis sem byggt er fyrir opinbert fjármagn séu tryggð og sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi við alla uppbyggingu; mikilvægur þáttur í því er að ríkið móti raunverulega stefnu og tryggi nægt fjármagn í nýsköpun og rannsóknir í byggingariðnaði.