Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 9  —  9. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (niðurfelling tolla á vörur sem eru upprunnar í Úkraínu).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skal til og með 31. maí 2023 fella niður tolla af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins og eru að öllu leyti upprunnar í Úkraínu. Við ákvörðun um uppruna vöru skal fara eftir ákvæðum fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Úkraínu sem tók gildi 1. júní 2012.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samstarfi við skrifstofu matvæla og landbúnaðar í matvælaráðuneytinu og viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu hefur Úkraína farið þess á leit við ríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA-ríkin) að bæta tollfríðindi til handa Úkraínu umfram það sem kveðið er á um í fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Úkraínu. Þá hefur Úkraína einhliða fellt niður tolla á allar vörur inn á sitt yfirráðasvæði í þeim tilgangi að ýta undir viðskipti. Með frumvarpi þessu er mælt fyrir um einhliða tímabundna niðurfellingu tolla af hálfu Íslands af vörum sem upprunnar eru í Úkraínu án þess þó að farið sé fram á gagnkvæmni af hálfu Úkraínu. Niðurfellingin nær til allra vara sem að öllu leyti eru upprunnar í Úkraínu. Niðurfellingin gildir því ekki um vörur sem framleiddar hafa verið í Úkraínu úr hráefnum frá öðrum ríkjum. Um þær vörur gilda almennar niðurfellingar tolla á grundvelli fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu. Á grundvelli þess fríverslunarsamnings eru iðnaðarvörur og sjávarafurðir þegar tollfrjálsar og tekur niðurfellingin því fyrst og fremst til landbúnaðarafurða. Lagt er til að niðurfellingin gildi til og með 31. maí 2023.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningar má rekja til beiðni Úkraínu til EFTA-ríkjanna um að bæta tollfríðindi til handa Úkraínu umfram það sem kveðið er á um í fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Úkraínu. Í beiðninni kemur fram að innrás Rússa hafi leitt til þess að lokast hefur fyrir útflutning frá Úkraínu um hafnir landsins við Svartahaf. Í þeim tilgangi að halda efnahag landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök leita stjórnvöld í Úkraínu nú leiða til að auka útflutning yfir þau landamæri ríkisins sem liggja að ríkjum í Evrópu. Útflutningur frá Úkraínu hefur aukist mikið á síðustu árum og haft jákvæð áhrif á efnahag landsins. Efnahagur Úkraínu er þannig háður aðgengi að erlendum mörkuðum fyrir vörur eins og stál, vélar og almenn aðföng til landbúnaðarframleiðslu. Til þess að ýta undir viðskipti hefur Úkraína, eins og fyrr segir, fellt niður alla tolla inn á sitt yfirráðasvæði. Þá hafa bæði Evrópusambandið og Bretland þegar afnumið alla tolla á landbúnaðarvörur frá Úkraínu í eitt ár frá 24. maí sl.
    Meginmarkmið með frumvarpi þessu er að Ísland sýni stuðning sinn við Úkraínu í verki og geri nauðsynlegar breytingar á lögum í þeim tilgangi að greiða fyrir viðskiptum á þeim erfiðu tímum sem ríkið gengur í gegnum. Einnig er vert að hafa í huga að hér fetar Ísland í fótspor Evrópusambandsins og Bretlands sem þegar hafa orðið við beiðni Úkraínu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að tollar verði tímabundið felldir niður af vörum sem fluttar eru til Íslands og eru að öllu leyti upprunnar í Úkraínu. Um er að ræða einhliða niðurfellingu á tollum. Samkvæmt fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Úkraínu eru tollar nú þegar felldir niður af iðnaðarvörum og sjávarafurðum. Niðurfelling tolla samkvæmt frumvarpinu á fyrst og fremst við um landbúnaðarafurðir. Lagt er til að niðurfellingin gildi til og með 31. maí 2023.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Vegna þeirra krafna sem ákvæði 40. og 77. gr. stjórnarskrár gera til skattlagningar er ákvörðun um niðurfellingu tolla á valdsviði löggjafans.. Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið varði ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð, tæknilegar reglur um vöru og fjarþjónustu eða frelsi til að veita þjónustu.

5. Samráð.
    Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við skrifstofu matvæla og landbúnaðar í matvælaráðuneytinu og viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins þar sem ákvæði frumvarpsins tengist helst landbúnaðarafurðum og milliríkjaviðskiptum. Efni frumvarpsins hefur ekki áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Frumvarpið var ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda sökum þess hve áríðandi þótti að leggja það fram á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það óveruleg áhrif á ríkissjóð. Á árinu 2021 nam heildartollverð innfluttra vara frá Úkraínu til Íslands samtals 550 milljónum kr. Enginn innflutningur var á landbúnaðarvörum. Ástæður fyrir litlum innflutningi frá Úkraínu hingað til lands kunna að vera langar flutningsleiðir, heilbrigðiskröfur fyrir matvæli og háir tollar auk þess sem í fæstum tilvikum er um að ræða helstu útflutningsafurðir Úkraínu.
    Verði frumvarp þetta að lögum gæti það leitt til þess að fluttar yrðu til Íslands landbúnaðarvörur frá Úkraínu í meiri mæli en nú er sem gæti haft neikvæð áhrif á verð og/eða framboð íslenskra landbúnaðarvara. Þar ber einkum að nefna mjólkurduft en mögulegt er að af slíkum innflutningi geti orðið. Ekki er talið líklegt að flutt verði inn kjúklingakjöt eða egg þar sem flutningsvegalengd er mikil. Af sömu ástæðum er ekki líklegt að fluttar yrðu inn unnar kjötvörur, þótt ekki sé hægt að útiloka slíkt.