Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 12  —  12. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara.


Flm.: Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Inga Sæland, Gísli Rafn Ólafsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jódís Skúladóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Vilhjálmur Árnason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara.
    Markmið úttektarinnar verði að greina hverju sé helst ábótavant í tryggingavernd og úrvinnslu tjóna og að draga fram leiðir til úrbóta.
    Í úttektinni verði einkum horft til náttúruhamfara síðustu 10 ára, en úttektina mætti afmarka frekar í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga eftir að vinnan hefst.
    Úttektinni verði skilað í formi skýrslu til Alþingis eigi síðar en 1. júlí 2022.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 151. löggjafarþingi (817. mál) og er nú endurflutt óbreytt með minniháttar breytingum á greinargerð.
    Hér á landi hafa náttúruöflin alla tíð reynst landsmönnum áskorun. Síðustu árin hafa ekki verið nein undantekning, en á síðustu árum hafa náttúruhamfarir gengið yfir sem valdið hafa umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni. Þar nægir að nefna óveðrið í desember 2019, snjóflóð á Flateyri, aurflóð í Þingeyjarsveit og aurflóð á Seyðisfirði. Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Náttúruhamfaratryggingar Íslands voru stórtjón á árinu 2020 14 talsins, en frá árinu 1987 hafa slík tjón verið sjö á ári að meðaltali.
    Tjón af völdum náttúruhamfara er oft töluvert og getur reynst hvort sem er einstaklingum eða rekstraraðilum ofviða og þar með ógnað heilu samfélögunum. Tryggingavernd vegna náttúruhamfara er því mikilvæg sem og skilvirk og sanngjörn úrvinnsla í kjölfar hamfara.
    Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Má þar nefna ýmiss konar vöktun náttúruvár, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, ofanflóðasjóð, Bjargráðasjóð, og verklag stjórnvalda við að bregðast við afleiðingum einstakra atburða hefur mótast mjög á síðustu árum. Þá spila tryggingar sem keyptar eru af tryggingafélögum inn í verndina, bæði lögboðnar tryggingar og valfrjálsar tryggingar.
    Að úrvinnslu tjóna koma margir aðilar, m.a. tjónþolar, starfsmenn tryggingafyrirtækja og sjóða, matsmenn tryggingafyrirtækja, verkfræðingar við hönnun viðgerða, verktakar sem gera við, rífa og endurbyggja mannvirki, stjórnvöld, þ.e. sveitarfélög, ríkisstofnanir, ráðuneyti og jafnvel ríkisstjórn. Kostnaður og vinna hjá stjórnvöldum og tjónþolum eykst eftir því sem úrvinnsla tryggingamála dregst á langinn.
    Flutningsmenn telja tímabært að leggja mat á samspil ólíkra þátta og hvernig allar þær mikilvægu aðgerðir sem komin er reynsla á vinna saman, hvort einhvers staðar séu göt í kerfinu og hvort tilefni sé til úrbóta. Þá er brýnt að tryggja að jafnræðis sé gætt þegar tekist er á við afleiðingar náttúruhamfara.
    Því er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að láta gera úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara með það að markmiði að greina hverju sé helst ábótavant í tryggingavernd og úrvinnslu tjóna og að draga fram leiðir til úrbóta.
    Úttektin nái bæði til stöðu einstaklinga og lögaðila í kjölfar atburða þar sem náttúruhamfarir hafa valdið eignatjóni, rekstrartjóni eða tjóni á opinberum innviðum. Farið verði yfir alla tryggingavernd, lögboðnar tryggingar, valfrjálsar tryggingar og tryggingar opinberra sjóða (svo sem ofanflóðasjóðs, Náttúrhamfaratryggingar og Bjargráðasjóðs). Þá er mikilvægt að skoða reynslu af nýlegum verklags- og lagabreytingum, svo sem á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands frá 2019, meðal annars hvað varðar afgreiðslu bóta til tjónþola sem nú greiðast samkvæmt framvindu úrbóta.
     Í úttektinni verði m.a. fjallað um eftirtalin atriði:
     a.      hvers konar eignir hafi ekki fengist bættar í gegnum tryggingar,
     b.      hvers vegna þær eignir hafi ekki fengist bættar,
     c.      hvort jafnræði sé milli einstaklinga varðandi bætur vegna eignatjóns og ef ekki, hvað skýri mismuninn,
     d.      hvort jafnræði sé milli einstaklinga eftir því hvort þeir fá bætur vegna tapaðra fasteigna í gegnum Náttúruhamfaratryggingu Íslands eða ofanflóðasjóð,
     e.      hvort jafnræði sé milli lögaðila varðandi bætur vegna eignatjóns og ef ekki, hvað skýri mismuninn,
     f.      hvort rekstrartjón fáist bætt og hvort atvinnugreinar séu í mismunandi stöðu hvað það varðar,
     g.      hvort tryggingavernd sé breytileg eftir því hvers konar náttúruhamfarir valda tjóni,
     h.      hvernig kostnaður opinberra aðila sem verða fyrir tjóni sé metinn og úrbætur fjármagnaðar,
     i.      hvernig kostnaður vegna hreinsunaraðgerða í kjölfar náttúruhamfara skiptist milli ríkis og sveitarfélaga,
     j.      hvort verkferlar við mat á tjóni og þörf fyrir úrbætur af öllu tagi séu nægilega skýrir,
     k.      hvort verkferlar á afgreiðslu bóta til tjónþola séu viðunandi,
     l.      hvaða kostnaður og vinna hafi lagst á ríki og sveitarfélög vegna tímabundinnar neyðaraðstoðar til tjónþola, t.d. vegna biðtíma eftir greiðslu bóta og endurreisnar,
     m.      hvernig stytta megi úrvinnslu- og endurreisnartímabilið með samþættingu verkferla þeirra sem að málunum koma.
    Þá verði teknar saman tillögur um mögulegar aðgerðir sem stuðlað gætu að frekara jafnræði og sanngirni og fækkað úrlausnarefnum sem stafa af óljósum reglum við úrlausn mála í kjölfar náttúruhamfara í framtíðinni. Undir slíkar aðgerðir gætu t.d. fallið breytingar á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum, miðlun upplýsinga og fræðslu- og kynningarverkefni.