Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 19  —  19. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 74/2021, um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004 (eignarhald flutningsfyrirtækisins).

Frá atvinnuveganefnd.


1. gr.

    Í stað orðanna „1. júlí 2022“ í 3. málsl. 20. gr. laganna kemur: 31. desember 2022.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram þar sem yfirfærslu á eignarhaldi Landsvirkjunar, Rariks, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða í Landsneti til íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga sem áætlað var að yrði lokið 1. júlí nk., sbr. lög nr. 74/2021, verður ekki lokið fyrir það tímamark. Verði frumvarpið að lögum gefst tími til að ljúka vinnu vegna yfirfærslu eignarhalds Landsnets án lagalegrar óvissu. Verði frumvarpið ekki að lögum er þess að vænta að fyrir hendi verði lagaleg óvissa, t.d. um heimildir hlutafjárhafa til framsals á hlutafé sem og um lánstraust þeirra ríkisaðila sem nú eiga eignarhluti í Landsneti.
    Frumvarpið felur því í sér að sú krafa að Landsnet skuli vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga kemur ekki til framkvæmda fyrr en 31. desember nk. í stað 1. júlí. Í því felst einnig að brottfall 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga um stofnun Landsnets og ákvæðis til bráðabirgða XII í raforkulögum frestast með sambærilegum hætti en í ákvæðunum felst annars vegar að eigendum hlutafjár í Landsneti er einungis heimilt að framselja hlutafé sitt til annarra hlutafjáreigenda í fyrirtækinu en ekki til aðila utan þess, og hins vegar að kaupendur hlutafjár í Landsneti geta einungis verið eigendur þeirra flutningsvirkja í flutningskerfinu í skilningi 6. tölul. 3. gr. raforkulaga. Ákvæðin eru í beinum tengslum við áform um breytt eignarhald Landsnets.