Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 21  —  21. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mat á burðarþoli Jökulfjarða og Eyjafjarðar og birtingu burðarþols fyrir Mjóafjörð.


Flm.: Teitur Björn Einarsson.

    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að láta án tafar meta burðarþol Jökulfjarða og Eyjafjarðar og birta burðarþol fyrir Mjóafjörð þegar þær upplýsingar eru tilbúnar hjá Hafrannsóknastofnun.

Greinargerð.

    Það er lykilforsenda við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem nú stendur yfir, að mikilvægar og veigamiklar upplýsingar, byggðar á vísindalegum rannsóknum um vistkerfi nytjastofna, lífríki þeirra og umhverfi, liggi fyrir áður en mótuð verði tillaga um skipulag strandsvæðis í Jökulfjörðum, Mjóafirði og eftir atvikum, þegar þar að kemur, í Eyjafirði.
    Skipulagsgerð á strandsvæðum er ætlað að stuðla að vernd og viðhaldi vistkerfa, veita grundvöll fyrir fjölbreytta nýtingu, draga úr árekstrum ólíkrar starfsemi og stuðla að betri og upplýstari ákvarðanatöku um framkvæmdir og starfsemi. Meðal þess sem taka þarf afstöðu til í strandsvæðisskipulagi er fiskeldi í sjó.
    Við gerð strandsvæðisskipulag ber, skv. 10. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða, að taka mið af stjórnvaldsfyrirmælum, öðrum lögum og lögbundnum ákvörðunum um nýtingu og vernd haf- og strandsvæða þar sem tiltekin starfsemi er t.d. takmörkuð eða bönnuð
    Burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar eru samkvæmt gildandi lögum um fiskeldi þýðingarmestu lögbundnu stjórntæki stjórnvalda, sem byggjast á vísindalegri aðferðafræði, við að ákvarða hvar og með hvaða hætti starfsemi fiskeldis fari fram. Forsenda fyrir gerð strandsvæðisskipulag á Vestfjörðum, Austfjörðum, og eftir atvikum öðrum svæðum þegar þar að kemur, þar sem fiskeldi er starfrækt, er að fyrir liggi þær vísindalegu og lögbundnu rannsóknir sem lög um fiskeldi kveða á um.
    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. b laga um fiskeldi er það matvælaráðherra sem ákveður hvaða firði eða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær það skuli gert. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar.
    Ákvæði 1. mgr. 6. gr. b veitir ráðherra heimild til að forgangsraða svæðum í samræmi við atvik máls og aðstæður, t.d. eftir mikilvægi svæða, fjölda fyrirspurna eða vísbendinga um að svæði kunni að teljast sérlega viðkvæm. Þá kunna tæknileg atriði eða óvænt atvik að réttlæta frestun tímabundið á fyrirhugaðri vinnu við burðarþolsmat.
    Til að markmið fiskeldislaga náist er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma vinni að framkvæmd laganna í hvívetna og beiti þeim vísindalegu úrræðum sem hafa verið lögfest til að afmarka eldissvæði þannig að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki ógnað. Þjónustugjaldi, sem lagt er á rekstrarleyfishafa og rennur til umhverfissjóðs sjókvíaeldis, er m.a. ætlað að standa straum af kostnaði við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra sambærilegra verkefna.
    Önnur niðurstaða en sú að ráðherra láti framkvæma mat á burðarþoli er ekki tæk af þeirri ástæðu að þá myndu lög um fiskeldi ekki ná markmiðum sínum um að stuðla að uppbyggingu fiskeldis á ábyrgan hátt þar sem burðarþolsmat er lögbundið grunnskilyrði fyrir allri leyfisveitingu eða ákvarðanatöku um verndun svæða.
    Það var ekki ætlun Alþingis að veita stjórnvöldum svigrúm til að ákveða hvort burðarþolsmat skyldi framkvæmt eða ekki. Ákvæði um burðarþolsmat var breytt með lögum nr. 101/2019, sbr. 7. gr. þeirra laga. Um þá breytingu var fjallað í greinargerð með frumvarpinu er varð svo að lögum. Þar segir orðrétt:
    „Með b-lið greinarinnar er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði, 6. gr. b, um burðarþolsmat. Ákvæðið heimilar ráðherra að ákveða hvaða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær slíkt burðarþolsmat skuli framkvæmt. Hér er um að ræða nýmæli. Samkvæmt gildandi löggjöf hefur Hafrannsóknastofnun ákveðið forgangsröðun hafsvæða sem metin eru til burðarþols. Við ákvörðun um forgangsröðun svæða hefur stofnunin meðal annars horft til fjölda fyrirliggjandi umsókna um leyfi á svæðum. Telja verður að betur fari á því að ráðherra ákveði hvaða svæði skuli burðarþolsmeta hverju sinni.“
    Með lögum nr. 101/2019 var því gerð sú efnisbreyting á ákvæði um burðarþolsmat að í stað þess að Hafrannsóknastofnun ákvæði forgangsröðun hafsvæða var það sett í hendur ráðherra að ákveða hvaða svæði skyldi burðarþolsmeta hverju sinni. Ekki er annað að sjá af greinargerðinni en að gert sé ráð fyrir að ráðherra láti framkvæma burðarþolsmat en ekki að hann ákveði hvort burðarþolsmat sé unnið.
    Frá því að sett voru í lög ákvæði um burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar hefur fengist nokkur reynsla á framkvæmd þessara rannsókna. Í skriflegu svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við skriflegri fyrirspurn á Alþingi, dags. 24. júní 2020 (þskj. 1731 á 150. þingi), kom fram að á árunum 2015–2018 hefðu tíu firðir eða hafsvæði verið burðarþolsmetin upp að 144.500 tonnum. Einnig kom fram að ráðherra hefði ekki óskað eftir burðarþolsmati frá gildistöku laga nr. 101/2019 og að ekki væri verið að vinna að burðarþolsmati á neinum fjörðum eða svæðum. Frá þeim tíma hefur ráðherra enn ekki látið meta burðarþol Jökulfjarða og Eyjafjarðar en fréttir bárust af því fyrir ári síðan að unnið yrði að mati á burðarþoli Mjóafjarðar og af þeim sökum er mikilvægt að það mat verði birt opinberlega sem allra fyrst.