Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 22  —  22. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (tengdir aðilar og raunveruleg yfirráð).

Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Kristrún Mjöll Frostadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      2. tölul. 4. mgr. orðast svo: Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint a.m.k. 25% hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með a.m.k. 25% atkvæðisréttar.
     b.      Lokamálsliður 3. tölul. 4. mgr. fellur brott.
     c.      Við 4. mgr. bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                  1.      Lögaðilar sem stjórnað er af sömu einstaklingum.
                  2.      Hjón, sambúðarfólk, börn þeirra og fósturbörn og lögaðilar í þeirra eigu.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Með raunverulegum yfirráðum í 2. tölul. 4. mgr. er átt við rétt sem skapast með samningum eða einhverjum öðrum hætti sem gerir aðila kleift að hafa afgerandi áhrif á félag, einkum með:
              1.      eignarhaldi eða rétti til að nota eignir félags, allar eða að hluta,
              2.      rétti til að hafa afgerandi áhrif á samsetningu, atkvæðagreiðslu eða ákvarðanir stofnanafélags.

2. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Ef samanlögð aflahlutdeild einstakra aðila og tengdra aðila er yfir 6% af heildarverðmæti allra tegunda sem sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla ber að tilkynna til Fiskistofu flutning aflaheimilda, samruna lögaðila sem eiga fiskiskip með aflahlutdeild, kaup á eignarhlut í slíkum lögaðilum og kaup, kaupleigu eða leigu á fiskiskipi með aflahlutdeild áður en lögskiptin koma til framkvæmda, en eftir að samningur er gerður, og koma flutningur, kaup, leiga eða samruni ekki til framkvæmda fyrr en Fiskistofa hefur staðfest að stofnunin telji að ekki þurfi að fara fram sérstakt mat eða staðfest að aflahlutdeild fari ekki yfir lögbundin mörk. Fiskistofa skal innan 10 virkra daga frá því að tilkynning barst staðfesta að aflahlutdeild fari ekki yfir lögbundin mörk eða tilkynna um að stofnunin muni framkvæma mat á því hvort flutningur, kaup eða samruni leiði til þess að aðili fari yfir lögbundið hámark. Mat Fiskistofu á því hvort flutningur, kaup eða samruni leiði til þess að aðili fari yfir lögbundið hámark skal liggja fyrir innan 30 virkra daga frá því að tilkynning barst. Sama gildir ef aðilar ráða yfir meira en 2,5% af heildaraflaverðmæti krókaaflahlutdeildar.


3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fari aflahlutdeild eða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu tengdra aðila, sem ekki töldust tengdir aðilar fyrir 1. júní 2022, yfir þau mörk sem kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. skulu aðilar gera ráðstafanir til að aflahlutdeild eða krókaaflahlutdeild rúmist innan lögbundinna marka fyrir lok fiskveiðiársins 2024–2025.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2022.


Greinargerð.

    Frumvarp sama efnis var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi (51. mál).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þess efnis að nánar verði skilgreint í lögunum hvað felst í hugtökunum „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“.
    Frumvarpið miðar að því að hrinda í framkvæmd tillögum verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem verkefnastjórnin skilaði til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 30. desember 2019. Verkefnastjórninni var m.a. falið að bregðast við ábendingum í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu er varðar samþjöppun aflaheimilda. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins átti sæti í stýrihópnum. Í kjölfar skýrslunnar birti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda sem byggðust á niðurstöðum hennar. Frumvarp ráðherra hefur ekki verið lagt fram á Alþingi, en þetta frumvarp byggist að meginstefnu til á þeim drögum sem birtust í samráðsgátt. Þó er vikið frá efni draganna að nokkru leyti, þar sem ósamræmis gætir á milli þeirra og niðurstaðna verkefnastjórnarinnar. Þá eru lagðar til breytingar til samræmis við fyrirvara fyrsta flutningsmanns frumvarpsins, Oddnýjar G. Harðardóttur, við skýrslu verkefnastjórnarinnar.

Samþjöppun aflahlutdeilda.
    Í 13. gr. laga um stjórn fiskveiða er fjallað um hámarksaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Frá því að reglur um hámarksaflahlutdeild voru fyrst lögfestar hefur orðið samþjöppun á aflahlutdeildum og fara nú tíu stærstu útgerðarfélög landsins með meira en helming aflahlutdeilda. Samhliða þeirri þróun hefur aðilum í sjávarútvegi fækkað ört. Útgerðir sem réðu yfir aflahlutdeildum voru 946 í upphafi fiskveiðiársins 2005–2006 en þeim hafði fækkað niður í 382 árið 2019. Í skilgreiningu laganna á hugtakinu „tengdir aðilar“ er miðað við að aðilar séu tengdir eigi annar aðilinn beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fari með meiri hluta atkvæðisréttar. Þannig getur einn aðili farið með hámark leyfilegrar aflahlutdeildar skv. 1. mgr. 13. gr., en þar að auki átt allt að 49,99% hlut í öðrum fyrirtækjum sem fara með aflahlutdeildir samkvæmt lögunum. Ljóst er að slíkt eignarhald gengur gegn markmiðum laganna auk þess sem skilgreiningin er í ósamræmi við skilgreiningu raunverulegra eigenda samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Samkvæmt þeim lögum telst m.a. til raunverulegra eigenda einstaklingur sem í raun á eða stjórnar lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ræður yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða telst á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Sá munur sem er á skilgreiningu eignatengsla samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skýtur skökku við, enda getur aðili talist raunverulegur eigandi lögaðila án þess að teljast „tengdur aðili“ samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.
    Í tillögum verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni eru lagðar til breytingar á skilgreiningu laganna á hugtökunum „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“ þannig að hægt sé að ná fram skilvirkara eftirliti með reglum um hámarksaflahlutdeild. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu kemur fram að við framkvæmd laga um stjórn fiskveiða hafi komið í ljós erfiðleikar við að staðreyna að um tengda aðila væri að ræða þrátt fyrir vísbendingar um slík tengsl þar sem kveðið væri á um raunveruleg yfirráð. Lagði verkefnastjórnin til að skilgreining tengdra aðila yrði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra og að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiddi til þess að fyrirtæki væru talin tengd, nema sýnt væri fram á hið gagnstæða.
    Að auki lagði verkefnastjórnin til að skilgreint yrði hvað fælist í raunverulegum yfirráðum og að kveðið yrði á um að aðilar sem réðu meira en 6% af aflahlutdeild eða 2,5% af krókaaflahlutdeild skyldu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, kaup í félagi sem réði yfir aflahlutdeild eða kaup á hlutdeild. Samþykki Fiskistofu fyrir slíkri ráðstöfun væri forsenda samruna eða kaupa í félagi eða kaupa á hlutdeild og kæmi ráðstöfunin ekki til framkvæmda fyrr en Fiskistofa hefði samþykkt hana.

Efni frumvarpsins.
    Lagðar eru til breytingar á skilgreiningu hugtaksins „tengdir aðilar“ í lögum um stjórn fiskveiða. Í 1. tölul. 4. mgr. 13. gr. gildandi laga er kveðið á um að aðilar séu tengdir þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar. Lagt er til að miðað verði við að aðilar teljist tengdir fari annar aðilinn með að minnsta kosti 25% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í hinum, til samræmis við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, og lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019. Er því gert ráð fyrir því að teljist aðili raunverulegur eigandi annars, teljist þeir „tengdir aðilar“ í skilningi laganna.
    Í öðru lagi er lagt til að til tengdra aðila teljist lögaðilar sem stjórnað er af sömu einstaklingum og hjón, sambúðarfólk, börn þeirra og fósturbörn auk lögaðila í þeirra eigu.
    Í þriðja lagi er lögð til ítarlegri skilgreining á því hvað felist í raunverulegum yfirráðum en kveðið er á um í gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Er lagt til að með raunverulegum yfirráðum sé átt við rétt sem skapast með samningum eða einhverjum þeim hætti sem gerir aðila kleift að hafa afgerandi áhrif á félag, með eignarhaldi eða rétti til að nota eignir félags, allar eða að hluta, eða með rétti til að hafa afgerandi áhrif á samsetningu, atkvæðagreiðslu eða ákvarðanir stofnanafélags.
    Að lokum er kveðið á um málsmeðferð Fiskistofu þegar samanlögð aflaheimild einstakra aðila og tengdra aðila er yfir 6% af heildarverðmæti allra tegunda sem sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Ber í þeim tilvikum að tilkynna til Fiskistofu hverja þá ráðstöfun sem leiðir til hækkunar á aflahlutdeild áður en slík lögskipti koma til framkvæmda. Kemur ráðstöfunin ekki til framkvæmdar fyrr en að lokinni athugun Fiskistofu á málinu.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júní 2022 en þeim aðilum sem fara umfram leyfilega aflahlutdeild samkvæmt frumvarpinu verði veittur frestur til loka fiskveiðiársins 2024–2025 til þess að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að aflahlutdeild rúmist innan lögbundinna marka.