Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 23  —  23. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (fyrningarálag á grænar eignir o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fari greiðsla fram með eign atvinnurekstrar skal ákvarða hagnað eða tap með sama hætti og hefði eignin verið seld ótengdum aðila, þ.m.t. við úttekt eigenda.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða LXX í lögunum:
     a.      Á eftir orðunum „stofnverð eigna“ í 2. mgr. kemur: skv. 1. mgr.
     b.      Orðin „og hvenær skattaðili telst vera í fjárhagsvanda“ í 8. mgr. falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu eru gerðar lagfæringar á tekjuskattslögum. Annars vegar er lögð til viðbót við 21. gr. laganna sem er ætlað að eyða óvissu í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar í máli nr. 42/2022, sem varðaði úthlutun við slit einkahlutafélags sem greidd var með öðrum eignum en peningum. Hins vegar er um að ræða lagfæringu á ákvæði til bráðabirgða LXX sem varðar fyrningarálag á grænar eignir.
    Með breytingunni í 1. gr. er áréttuð sú meginregla sem gilt hefur að allar eignfærslur úr atvinnurekstri skuli gera upp til skatts á verði sem ótengdir aðilar hefðu samið um. Hér undir falla m.a. þau tilvik þegar greiðsla er í öðru formi en peningum en við þær aðstæður skal ákvarða hagnað eða tap líkt og um sölu eignanna hafi verið að ræða. Á framangreint t.d. við séu eignir rekstrarins nýttar sem greiðslueyrir til að mæta skuldbindingu við eigendur vegna ákvörðunar um almenna úthlutun arðs, lækkun hlutafjár eða slit eða af öðrum ástæðum. Af því leiðir að sé armslengdarverð úthlutaðra eigna hærra eða lægra en skattalegt bókfært verð þeirra, hjá þeim sem úthlutar, skal ákvarða hagnað eða tap eftir reglum tekjuskattslaga um söluhagnað áður en úthlutun fer fram. Hið sama eigi við um úttekt eigenda þar sem ekki er formleg ákvörðun um úthlutun.
    Með breytingunni í 2. gr. er lagt til að setja inn vísunina „skv. 1. mgr.“ en hún var fyrir mistök felld út úr frumvarpstexta í meðförum þingsins á 151. löggjafarþingi (sbr. þingskjal 1172, 399. mál). Með vísuninni er áréttað að fyrningarálag sem kveðið er á um í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LXX taki til sömu eigna og 1. mgr. nær til, þ.e. lausafjár skv. 1. tölul. 33. gr. laganna og nái þannig ekki til annarra eigna. Þá er lagt til að niðurlagsorð 8. mgr. verði felld brott en þau eru óþörf eftir breytingar sem gerðar voru á 7. mgr. greinarinnar í meðförum þingsins þegar skilyrðið um að skattaðili teldist ekki vera í fjárhagsvanda var tekið út.