Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 40  —  40. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (tannlækningar og tannréttingar vegna afleiðinga meðfæddra galla).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 20. gr. laganna:
     a.      Orðin „meðfæddra galla“ í 2. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá taka sjúkratryggingar til tannlækninga og tannréttinga sem samið hefur verið um skv. IV. kafla vegna afleiðinga meðfæddra galla.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi (535. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Núverandi löggjöf tryggir ekki með nægjanlegum hætti að allir þeir sem fæðast með skarð í vör eða klofinn góm njóti stuðnings frá sjúkratryggingum til að greiða niður kostnað vegna viðhlítandi tannlækninga og tannréttinga. Þetta er vegna þess að það er skilyrði í núgildandi löggjöf að tilteknar aðgerðir séu nauðsynlegar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla. Þau matskenndu viðmið sem lögð eru til grundvallar leiða til þess að réttur til niðurgreiðslu er ekki til staðar hjá öllum sem fæðast með klofinn góm og/eða skarð í vör. Hópur barna kemst nú ekki í viðhlítandi aðgerðir vegna þess að kostnaður er hár og Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði þar sem afleiðingar meðfæddra galla hjá þessum tilteknu börnum eru að mati stofnunarinnar ekki nógu alvarlegar og telst aðgerð þar af leiðandi ekki nauðsynleg. Börn sem fæðast með klofinn góm og/eða skarð í vör þurfa að ganga í gegnum miklar þrautir. Það er því óboðlegt að hið opinbera geri þeim enn þá erfiðara fyrir. Þess vegna er lagt til að sjúkratryggingar taki til tannlækninga og tannréttinga vegna meðfæddra galla óháð alvarleika þeirra og hvort aðgerð teljist nauðsynleg.