Ferill 41. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 41  —  41. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (tengdir aðilar í sjávarútvegi).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    4. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Tengdir aðilar teljast:
     1.      Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint a.m.k. 20% af hlutafé eða stofnfé í hinum aðilanum eða fer með samsvarandi hluta atkvæðisréttar. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.
     2.      Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, hefur rétt til að tilnefna meiri hluta stjórnarmanna í hinum aðilanum, hefur í gegnum samninga heimild til að taka ákvarðanir um hagsmuni hins aðilans, hefur á grundvelli samninga eða umboðs heimild til að skuldbinda hinn aðilann, getur í krafti atkvæðavægis síns komið í veg fyrir að aðrar tillögur verði samþykktar þrátt fyrir stuðning annarra atkvæða, svo sem vegna kröfu um samhljóða atkvæðagreiðslu. Sama á við ef tengdir aðilar skv. 1. eða 3. tölul. hafa vegna tengsla sömu heimildir og greinir í 1. málsl.
     3.      Lögaðilar, þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., eiga yfir 20% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í báðum eða öllum lögaðilunum enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 5% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef aðili eða aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., sem eiga hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétt í lögaðila, eiga ásamt viðkomandi lögaðila hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétt í öðrum lögaðila.
     4.      Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum skv. 1.–3. tölul. telst jafnframt eignarhluti og atkvæðisréttur maka, skyldmenna og mægðra aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar og aðila sem tengjast með sama hætti vegna ættleiðingar.

2. gr.

    Í stað „10%“ í 3. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 5%.

3. gr.

    Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, svohljóðandi:
    Fiskistofa getur krafið einstök fyrirtæki, fyrirtækjahópa og samtök fyrirtækja, sem lög þessi taka til, um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin ákveður.
    Fiskistofa getur með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin ákveður.
    Fiskistofa getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá samkeppnisyfirvöldum, skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.
    Fiskistofa getur einnig lagt skyldu á þá aðila sem um getur í 1. mgr. að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við framkvæmd laga þessara. Fiskistofa getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.
    Fiskistofa getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð fyrirtækis og samtaka fyrirtækja og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum stjórnvalda.
    Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150. og 151. löggjafarþingi (234. mál). Frumvarpið er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Til að tryggja virka samkeppni og sporna við því að veiðiheimildir safnist á fáar hendur eru í lögum um stjórn fiskveiða ákvæði sem kveða á um að samanlögð aflahlutdeild tengdra aðila megi ekki fara umfram ákveðið hlutfall heildarafla. Mikilvægt er að tryggja virka samkeppni í fiskveiðum. Virk samkeppni í sjávarútvegi stuðlar að aukinni vernd neytenda og launþega og einnig betri nýtingu auðlinda. Fiskveiðistofnar Íslandsmiða eru ein helsta auðlind þjóðarinnar og því er mikilvægt að tryggja að aðgangur að þeirri auðlind safnist ekki á fáar hendur.
    Núverandi löggjöf er um margt gölluð þegar kemur að skilgreiningu á tengdum aðilum og eftirlitsheimildir Fiskistofu eru verulega takmarkaðar miðað við önnur eftirlitsstjórnvöld. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Fiskistofu kom m.a. fram að Fiskistofa kanni ekki hvort tengsl séu á milli aðila með markvissum og reglubundnum hætti heldur reiði sig alfarið á upplýsingar frá handhöfum aflaheimilda. Þar kom einnig fram að Fiskistofa teldi að það væri í raun óframkvæmanlegt að afmarka hvort tengsl væru til staðar vegna „raunverulegra yfirráða“ þar sem ákvæðið væri of matskennt.
    Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar sem hafa það að markmiði að skýra betur hvort tengsl séu á milli aðila og efla eftirlitsheimildir Fiskistofu svo að stofnunin geti rannsakað með viðhlítandi hætti hvort tengsl séu á milli aðila. Verði frumvarpið samþykkt mun Fiskistofa geta sinnt eftirliti með því hvort samþjöppun aflaheimilda sé of mikil og gripið til aðgerða ef svo er. Þannig verður betur tryggt að auðlindir þjóðarinnar safnist ekki á of fáar hendur með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. eru lagðar til breytingar á 1.–3. tölul. 4. mgr. 13. gr. laga um stjórn fiskveiða sem fjallar um skilgreiningu á því hvað teljist tengdir aðilar.
    Í 1. tölul. 4. mgr. 13. gr. laganna er kveðið á um að tengsl séu á milli aðila ef aðili á meiri hluta eða nýtur meiri hluta atkvæðisréttar í öðrum aðila. Lagt er til að þetta hlutfall verði fært niður í 20%.
    Í 2. tölul. 4. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um að tengsl séu á milli aðila ef aðili hefur raunveruleg yfirráð yfir öðrum aðila. Vegna þess að ekki er skilgreint nánar í lögunum hvað felist í raunverulegum yfirráðum hefur Fiskistofa talið að ákvæðið sé í raun gallað. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 27/1998 og fjallaði fyrst um samþjöppun aflaheimilda sagði um hugtakið „Aðilar geta haft úrslitaáhrif á rekstur og stjórn lögaðila með ýmsum hætti og þannig farið með raunveruleg yfirráð yfir lögaðilanum. Í 1. tölul. eru talin upp tilfelli sem leiða sjálfkrafa til þess að aðili verður talinn hafa yfirráð yfir öðrum aðila. Undir 2. tölul. falla í raun hvers konar yfirráð sem ekki eru talin í 1. tölul. og gefa einum aðila úrslitaáhrif í rekstri og stjórn annars aðila. Sem dæmi má nefna rétt aðila til að tilnefna meira en helming fulltrúa í stjórn lögaðila eða rétt eins aðila til að stýra rekstri annars aðila. Síðarnefnda dæmið tekur til dæmis til þess þegar ákvarðanir þarf að taka samhljóða og aðili sem á minni hluta atkvæðisréttar getur því í raun haft úrslitaáhrif. Enn fremur má hugsa sér þá aðstöðu að aðili hafi svo sterka samningsstöðu við annan aðila að hann ráði í raun stjórnarákvörðunum, svo sem vegna samnings um notkun eða ráðstöfun eigna viðkomandi, samnings um einkarétt til að nýta allan afla aðilans eða samnings við hluthafa eða stjórnarmenn sem geta haft úrslitaáhrif við ákvarðanatöku aðilans.“ Lagt er til að þau tilfelli sem þar voru talin fram verði skilgreind í 2. tölul. 4. mgr. svo að það orki ekki tvímælis að þau feli í sér raunveruleg yfirráð.
    Í 3. tölul. 4. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um hvenær tengsl eru til staðar ef fleiri en einn aðili eiga hlut í fleiri en einum lögaðila. Ákvæðinu er hér ekki breytt í grunninn en gerðar eru breytingar á eignarhlutföllum og atkvæðahlutföllum til samræmis við þær breytingar sem gerðar eru á 1. tölul. 4. mgr. 13. gr. Þá er lokamálsliður 3. tölul. felldur brott en sambærileg regla er í staðinn sett fram í nýjum tölulið.
    Nú er fjallað um fjölskyldutengsl í lokamálslið 3. tölul. 4. mgr. 13. gr. laganna en rétt þykir að fjalla um slík tengsl í sérstökum tölulið sem gildi ekki aðeins um tengsl skv. 3. tölul. heldur einnig um tengsl skv. 1. og 2. tölul. Þá er reglan víkkuð út til samræmis við hæfisreglur á öðrum sviðum, svo sem hæfisreglur stjórnsýslulaga, hæfisreglur dómara og fleiri sambærilegar reglur. Þannig teljast nú tengsl vera til staðar á milli fleiri ættmenna en aðeins þeirra sem tengjast í beinan legg.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. 14. gr. laganna er m.a. kveðið á um að lögaðilum sem eiga fiskiskip með aflahlutdeild beri að láta Fiskistofu reglubundið í té upplýsingar um eignarhlut allra þeirra sem eigi 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi lögaðila. Það hlutfall er samsvarandi hlutfall og kemur nú fram í 3. tölul. 4. mgr. 13. gr. laganna. Því er lagt til að hlutfallið lækki til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á 3. tölul. 4. mgr. 13. gr. úr 10% niður í 5%.

Um 3. gr.

    Til að efla eftirlitsheimildir Fiskistofu er lagt til að á eftir 14. gr. komi ný grein sem veiti Fiskistofu samsvarandi eftirlitsheimildir og 19. og 20. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, veita Samkeppniseftirlitinu. Rannsókn á því hvort tengsl séu á milli ákveðinna einstaklinga og lögaðila og aðrar rannsóknir á grundvelli laga um stjórn fiskveiða eru um margt svipaðar rannsóknum samkeppnisyfirvalda á því hvort fyrirtæki séu í markaðsráðandi stöðu og hvort aðilar hafi brotið gegn ákvæðum laga um bann við markaðssamráði. Því er skynsamlegt að veita Fiskistofu sambærilegar heimildir til að sinna eftirliti laganna.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.