Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 42  —  42. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021 (vatnsorkuver, vindorkuver).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. viðauka við lögin:
     a.      Liður 3.15 orðast svo:
A B
3.15 Vatnsorkuver, utan þess sem fellur undir tölul. 3.02, með uppsett rafafl 200 kW eða meira. X
     b.      Liður 3.16 orðast svo:
A B
3.16 Vindorkuver, utan þess sem fellur undir tölul. 3.02, með uppsett rafafl 1 MW eða meira eða mannvirki sem eru 25 m eða hærri. X

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.

    Mál þetta var áður flutt á 149., 150. og 151. löggjafarþingi (156. mál) en náði ekki fram að ganga. Það er nú lagt fram aftur efnislega óbreytt, en uppfært með tilliti til gildistöku nýrra laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Í gildandi lögum falla vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu með uppsett rafafl 1 MW eða meira í flokk B í 1. viðauka. Skv. 1. mgr. 1. viðauka skal meta framkvæmdir sem falla undir flokk B í hverju tilfelli fyrir sig og af því leiðir að ekki er skylt að framkvæma mat á umhverfisáhrifum við slíkar framkvæmdir.
    Framkvæmdir við gerð og rekstur fallvatnsvirkjana og vindbúa kunna að hafa í för með sér veigamikil áhrif á lífríki og náttúru. Óánægja ríkir með núverandi fyrirkomulag þar sem virkjanir undir 10 MW rafafli hafa hlotið framkvæmdaleyfi án þess að umhverfismat hafi farið fram. Þá geta vindmyllur með 1 MW valdið ýmsum umhverfisröskunum. Því er lagt til að öll vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu með uppsett rafafl 1 MW eða meira falli undir flokk A í 1. viðauka og framkvæmdaleyfi verði samkvæmt því ávallt háð mati á umhverfisáhrifum.