Ferill 54. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 54  —  54. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995 (leiðrétting viðmiða vegna greiðslna ríkissjóðs).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
a.     Í stað „250.000“ í a-lið 2. mgr. kemur: 455.000.
b.     Í stað „5.000.000“ í b-lið 2. mgr. kemur: 9.140.000.
c.     Í stað „3.000.000“ í c-lið 2. mgr. kemur: 6.600.000.
d.     Í stað „2.500.000“ í d-lið 2. mgr. kemur: 4.570.000.
e.     Í stað „1.500.000“ í e-lið 2. mgr. kemur: 2.740.000.
f.     Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
              Fjárhæðarmörk skv. 1. og 2. mgr. skulu taka breytingum í upphafi hvers árs í samræmi við þróun launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils, þó þannig að þær hækki aldrei minna eða lækki meira en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.

Greinargerð.

    Frumvarp þessa efnis var áður flutt á 149., 150. og 151. löggjafarþingi (87. mál). Er það nú endurflutt óbreytt að því undanskildu að fjárhæðum hefur verið breytt til samræmis við þróun launavísitölu frá því að frumvarpið var síðast lagt fram ásamt því að gildistöku hefur verið breytt.
    Bótagreiðslur sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota takmarkast við fjárhæðir skv. 2. mgr. 7. gr. laganna. Þær fjárhæðir sem þar er kveðið á um hafa verið óbreyttar frá árinu 2012. Síðan þá hafa orðið breytingar á verðlagi og jafnframt hafa bætur ákvarðaðar í refsimálum þróast í samræmi við þær verðlagsbreytingar. Það er ágalli á gildandi löggjöf að þessar fjárhæðir þróast ekki í samræmi við verðlag. Þegar fjárhæðum var breytt síðast, í júní 2012, stóð launavísitalan (miðað við grunn frá 1989 samkvæmt vefsíðu Hagstofu Íslands) í 433,1 stigi en nú stendur hún í 791,6 stigum. Þá er ekki ósennilegt að hún kunni að hækka verulega í framtíðinni. Af framangreindum ástæðum er lagt til að fjárhæðir skv. 2. mgr. 7. gr. hækki.
    Ástæða þykir til að ábyrgð á greiðslum ríkissjóðs á bótum fyrir miska skv. c-lið 1. gr. frumvarpsins verði hækkuð umfram hlutfallslega hækkun annarra liða. Sífellt kemur betur í ljós hve mikil áhrif afbrot hafa á líf og líðan brotaþola. Erfitt er að meta slík áhrif út frá læknisfræðilegum viðmiðum. Þótt líkamleg áhrif brots séu metin er erfiðara að meta andleg áhrif og þau geta oft komið fram eða aukist löngu eftir að brot er framið og þar til bætur eru dæmdar eða ákvarðaðar. Þá er óskandi að slík hækkun á ábyrgð greiðslu ríkissjóðs veiti dómstólum hvatningu til að ákvarða hærri bætur fyrir miska í alvarlegri málum en tíðkast hefur.
    Einnig er lagt til að til frambúðar hækki fjárhæðir bóta skv. 2. mgr. 7. gr. laganna árlega í samræmi við breytingar á launavísitölu. Einnig skal lágmark ábyrgðar á bótakröfu hækka, sbr. 1. mgr. 7. gr., í samræmi við breytingar á launavísitölu. Eðlilegt er að breyting á fjárhæðum skuli fara fram um hver áramót og miðað verði við þróun launavísitölu árið þar á undan. Þar sem launavísitala kann að lækka ef efnahagur versnar skyndilega er lagt til að miðað verði við vísitölu neysluverðs ef hún hefur hækkað meira eða lækkað minna á gefnu ári en launavísitala.