Ferill 82. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 82  —  82. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007 (neytendalánasamningar).

Flm.: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fyrningarfrestur samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. gildir ekki um kröfur sem byggjast á lánssamningum við neytendur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fyrningarfrestur kröfuréttinda vegna lánssamninga við neytendur falli ekki lengur undir sérreglu 5. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, heldur muni þá gilda meginregla 3. gr. sömu laga um fjögurra ára fyrningarfrest.
    Nauðsyn þess að koma til móts við neytendur í greiðsluerfiðleikum kom bersýnilega í ljós í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Margir sem jafnvel höfðu misst heimili sín voru skráðir á vanskilaskrá með árangurslausu fjárnámi fyrir meintum eftirstöðvum húsnæðislána sem framlengdi erfiðleika þeirra um allt að áratug vegna þeirra áhrifa sem slíkar gerðir hafa. Markmið frumvarpsins er því að koma til móts við þá sem lenda í slíkum erfiðleikum með því að stytta fyrningartíma krafna vegna neytendalána í fjögur ár til þess að gera neytendum örlítið hægara um vik að endurskipuleggja fjármál sín án þess að leita gjaldþrotaskipta.
    Með lánssamningum við neytendur er í frumvarpinu átt við alla slíka samninga sem eru eða hafa verið boðnir almenningi að undirgangast, eins og þeir hafa verið skilgreindir hverju sinni, svo sem í lögum um neytendalán, nr. 33/2013, eða lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.