Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 85  —  85. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (endurgreiðsla kostnaðar).

Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Sigmar Guðmundsson, María Rut Kristinsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 38. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sjúkratryggður einstaklingur sem fær heimild sjúkratryggingastofnunar til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins skv. 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, skal heimilt að sækja þjónustuna hér á landi þótt samningur um heilbrigðisþjónustu sé ekki fyrir hendi, sbr. IV. kafla. Skilyrði fyrir slíkri heimild er að þjónustan sé veitt af aðila sem uppfyllir allar kröfur sem til slíkrar þjónustu eru gerðar og miðast greiðsluþátttaka sjúkratrygginga við það sem greitt er fyrir samsvarandi þjónustu innan lands samkvæmt gjaldskrá sem stofnunin gefur út. Nánar skal kveðið á um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð sem ráðherra setur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið var áður lagt fram á 149., 150. og 151. löggjafarþingi (401. mál) og er nú lagt fram að nýju. Frumvarpið tekur ekki breytingum frá því það var flutt síðast. Lögð var til orðalagsbreyting á 151. löggjafarþingi frá því að frumvarpið var flutt á 150. löggjafarþingi þess efnis að sjúkratryggður einstaklingur, sem fær heimild sjúkratryggingastofnunar til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins á grundvelli reglugerðarinnar, geti sótt sér þjónustuna hér á landi þótt samningur um hana sé ekki til staðar. Með því er áskilið að viðkomandi meðferð sé hluti af þeirri aðstoð sem sjúkratryggingar taka til en sjúklingur eigi ekki kost á henni innan tímamarka sem réttlæta má læknisfræðilega ef tekið er mið af núverandi heilsufarsástandi hans og líklegri framvindu sjúkdómsins.

Biðtímaregla 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 883/2004.
    Samkvæmt 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 á sjúkratryggður einstaklingur rétt á því að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru EES-landi sé bið hans eftir nauðsynlegri meðferð hér á landi eftir greiningu orðin lengri en viðmiðunartími nauðsynlegrar meðferðar. Reglugerðin var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 442/2012, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Embætti landlæknis setti reglur um slík viðmiðunarmörk 15. júní 2016. Ásættanleg bið eftir aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi er þar ákveðin 90 dagar frá greiningu. Að þeim tíma liðnum getur viðkomandi sótt um að fá heimild til þess að sækja þjónustuna í öðru aðildarríki EES-samningsins.
    Alkunna er að hér á landi hafa um árabil verið langir biðlistar eftir ýmsum aðgerðum og að ekki eru horfur á að þeir styttist verulega í náinni framtíð í ýmsum greinum, t.d. liðskiptaaðgerðum. Vegna þessa hafa allmargir sem sjúkratryggðir eru á Íslandi fengið slíkar aðgerðir framkvæmdar erlendis á síðustu árum og kostnaður við þær þá verið greiddur af Sjúkratryggingum Íslands ef skilyrðið um biðtíma hefur verið uppfyllt.
    Sú undarlega staða er uppi að Sjúkratryggingar Íslands telja sér ekki heimilt að greiða kostnað við sams konar aðgerð hér á landi, enda þótt hún hafi verið gerð af aðila sem uppfyllir öll lagaskilyrði til að framkvæma hana. Synjunin hefur þá verið rökstudd með þeim hætti að ekki hafi verið fyrir hendi samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og viðkomandi læknis um framkvæmd slíkra aðgerða, og stofnunin hefur talið sér óheimilt að gera slíkan samning vegna afstöðu ráðherra. Þessi afstaða hefur í reynd leitt til þess að kostnaður við aðgerðirnar er miklu meiri en nauðsyn krefur því að aðgerðir framkvæmdar erlendis eru mun dýrari en sams konar aðgerðir framkvæmdar utan ríkisspítalanna hér á landi. Auk þess fellur ferða- og uppihaldskostnaður á sjúkratryggingarnar og í mörgum tilvikum einnig kostnaður vegna fylgdarmanns.
    Flutningsmenn telja brýnt að undið verði ofan af þessari framkvæmd með þeim hætti sem felst í þessu lagafrumvarpi.