Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 97  —  97. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (nagladekk).

Flm.: Jóhann Páll Jóhannsson, Helga Vala Helgadóttir, Kristrún Mjöll Frostadóttir, Logi Einarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 85. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, sem verður 4. mgr., svohljóðandi:
                  Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald allt að 40.000 kr. vegna notkunar negldra hjólbarða á vélknúnum ökutækjum á nánar tilteknum svæðum, fyrir ákveðið tímabil eða ákveðin skipti, að höfðu samráði við Vegagerðina. Utan tímabils er notkun negldra hjólbarða á vélknúnum ökutækjum óheimil.
     b.      2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Kveða skal á um nánari kröfur, viðmið og fyrirkomulag gjaldtöku vegna notkunar negldra hjólbarða skv. 4. mgr. í reglugerð sem ráðherra setur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sveitarstjórnum verði veitt heimild til að ákveða gjald allt að 40.000 kr. sem lagt verði á eiganda eða umráðamann vélknúins ökutækis sem ekur með negldum hjólbörðum. Tilgangurinn er annars vegar að draga úr notkun nagladekkja og vinna þannig gegn lífshættulegri svifryksmengun og hins vegar að standa straum af kostnaði sveitarfélaga vegna slits á vegum. Akstur á nagladekkjum er langstærsti orsakavaldur svifryksmengunar á höfuðborgarsvæðinu. Rannsóknir sýna að svifryksmengun veldur auknum innlögnum á sjúkrahús og leggst þyngst á eldra fólk, börn, óléttar konur og fólk með undirliggjandi hjarta-, æða- og öndunarfærasjúkdóma. Áhrif svifryks á heilsu manna hefur einnig verið tengt við aukna heildardánartíðni.
    Í nýlegri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu er áætlað að á Íslandi megi rekja 70 dauðsföll á ári til svifryksmengunar. Mikilvægi þess að draga úr svifryksmengun er þannig augljóst og skjótvirkasta leiðin til þess að draga úr menguninni er að stórminnka notkun nagladekkja. Í frumvarpi þessu er farin sama leið og áður hefur verið lögð til í frumvarpsdrögum og frumvarpi frá ráðherrum samgöngumála en ekki náð fram að ganga, sjá mál nr. 21/2018 í samráðsgátt stjórnvalda og 179. mál á 141. löggjafarþingi. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur ítrekað óskað eftir því að lögfest verði heimild til gjaldtöku vegna nagladekkja án viðbragða löggjafans. Miklar framfarir hafa orðið í gæðum vetrarhjólbarða og staðalbúnaði bifreiða á undanförnum árum sem gera akstur í hálku öruggari en áður. Samkvæmt könnun Félags íslenskra bifreiðaeigenda frá 2019 geta góðir ónegldir hjólbarðar hentað betur við erfið skilyrði heldur en ýmsar gerðir negldra hjólbarða. Fram kemur í vetrardekkjakönnun norsks systurfélags FÍB frá 2021 að ónegld vetrardekk séu engu verri kostur en negld dekk með tilliti til aksturseiginleika, grips, hemlunar, hávaða, rásfestu og aksturstilfinningar. Þá hefur verið bent á að negld dekk slitni fyrr en ónegld og geti þannig veitt falskt öryggi. Loks þarf að líta til þeirrar hættu sem skapast í umferðinni vegna slits á vegum en rannsóknir sýna að nagladekk slíta vegum 20 sinnum hraðar en ónegld dekk.
    Í a-lið 1. gr. er sveitarstjórnum veitt heimild til að ákveða gjald vegna notkunar negldra hjólbarða á vélknúnum ökutækjum á nánar tilteknum svæðum, fyrir ákveðið tímabil eða ákveðin skipti. Í b-lið er ráðherra falið að kveða nánar á um útfærslu gjaldtökunnar í reglugerð, má í því sambandi nefna undanþáguheimild þegar notkun negldra hjólbarða telst öryggisatriði vegna nauðsynlegra ferða umráðamanns bifreiðar um langan veg vegna búsetu eða starfa fjarri heimabyggð.