Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 111  —  111. mál.
Fyrirspurn


til innanríkisráðherra um skiptastjóra.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Hvað hafa mörg erindi um aðfinnslur við störf skiptastjóra borist héraðsdómstólunum sl. 10 ár? Óskað er sundurliðunar á fjölda erinda eftir dómstólum, árum og tegund búa, t.d. þrotabúa, dánarbúa, búa til fjárslita hjóna o.s.frv.
     2.      Hvað hafa mörg erindi borist héraðsdómstólunum sl. 10 ár þar sem krafist er úrskurðar um að skiptastjóra verði vikið frá sökum vanhæfis? Óskað er sömu sundurliðunar og í 1. tölul.
     3.      Hvað líður að meðaltali langur tími frá því að erindi berst héraðsdómstól og þangað til málinu lýkur? Óskað er sömu sundurliðunar og áður.
     4.      Hve mörgum aðfinnslumálum hefur verið vísað frá sl. 10 ár, hve mörg dregin til baka og hve mörgum lokið með kröfu dómara um úrbætur eða með úrskurði? Hvernig hefur málum sem lokið hefur verið með kröfu um úrbætur verið fylgt eftir af dómstólum? Óskað er sömu sundurliðunar og áður.
     5.      Hvernig er úthlutun þessara mála háttað hjá hverjum héraðsdómstól? Fara dómstjórar með þau, dómarar og/eða aðstoðarmenn dómara? Ef aðstoðarmönnum er falin meðferð þessara mála, samkvæmt hvaða heimild er það þá?
     6.      Hvað eru margir lögmenn skráðir á lista sem mögulegir skiptastjórar hjá hverjum héraðsdómstól? Hvernig eru lögmenn valdir á þennan lista? Hafa verið settar skriflegar reglur um það og lögmönnum kynnt hvernig þeir geta komist á þennan lista? Hve margir af þeim hafa fengið úthlutun búa og hve oft hver þeirra sl. 10 ár? Hve margir á viðkomandi listum hafa ekki fengið úthlutað búum? Hver eru kynjahlutföllin?
     7.      Hve langur tími líður að meðaltali frá skipun skiptastjóra og þar til skiptum lýkur?
     8.      Hvernig er almennu eftirliti dómstóla með skiptastjórum háttað, þ.m.t. með því að þeir ljúki störfum innan hæfilegs frests?
     9.      Hverjir skipa skiptastjóra hjá héraðsdómstólum? Eru það dómstjórar, dómarar eða aðstoðarmenn? Óskað er sömu sundurliðunar og í 1. tölul. og einnig eftir kyni þeirra sem skipa skiptastjóra.
     10.      Hafa verið settir formlegir, samræmdir og skriflegir verkferlar hjá héraðsdómstólunum um úthlutun framangreindra mála og meðferð þeirra, svo sem um val á skiptastjórum, mat á störfum þeirra og meðferð aðfinnslumála? Hafa sl. 10 ár verið gerðar úttektir hjá héraðsdómstólunum um meðferð þessara mála og hvort farið er að verklagsreglum eða öðrum viðmiðunum?
     11.      Hver er fjöldi riftunar- og ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta sl. 10 ár? Óskað er sömu sundurliðunar og í 1. tölul.


Skriflegt svar óskast.