Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 158  —  156. mál.
Fyrirspurn


til innanríkisráðherra um ógildingarmál og stefnubirtingu.

Frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur.


     1.      Hversu margir héraðsdómar hafa verið kveðnir upp í svokölluðum ógildingarmálum vegna glataðra eða horfinna skuldabréfa skv. XVIII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, frá og með árinu 2008? Svar óskast sundurliðað eftir árum og eftir fjölda slíkra mála þar sem:
                  a.      ekki hefur verið mætt af hálfu annars en stefnanda og dómur kveðinn upp í samræmi við kröfu hans,
                  b.      einhver annar hefur mætt og gert tilkall til viðkomandi skuldabréfs,
                  c.      útgefandi skuldabréfs hefur mætt og tekið til varna gegn kröfu stefnanda og í hversu mörgum tilfellum slíkar varnir hafi verið teknar til greina þannig að kröfu stefnanda væri hafnað.
     2.      Hversu mörgum ógildingardómum hefur verið áfrýjað til æðri dómstóla? Í hversu mörgum þeirra tilvika hefur dómur héraðsdóms verið staðfestur? Í hversu mörgum þeirra hefur dómi héraðsdóms verið snúið við? Hversu mörgum þeirra mála hefur lyktað með ómerkingu, frávísun eða niðurfellingu?
     3.      Hvernig stendur á því að fjármálastofnanir geta höfðað ógildingarmál til að öðlast réttindi samkvæmt skuldabréfi sem er glatað eða horfið, án þess að birta stefnu fyrir útgefanda viðkomandi skuldabréfs eða gera honum með öðrum hætti viðvart um málshöfðunina svo að hann geti gætt lögvarinna hagsmuna sinna?
     4.      Telur ráðherra það samræmast ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð að málsmeðferð um réttindi og skyldur útgefanda skuldabréfs í ógildingarmáli fari fram án vitundar hans og honum gefist því ekki kostur á að gæta réttar síns við málsmeðferðina?
     5.      Telur ráðherra það samræmast heilbrigðum viðskipta- og innheimtuháttum, eða eftir atvikum 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, ef fjármálastofnun hagnýtir sér þann möguleika að geta höfðað ógildingarmál til að öðlast réttindi samkvæmt skuldabréfi, án vitundar útgefanda þess, í því skyni að innheimta kröfu samkvæmt viðkomandi skuldabréfi hjá honum?
     6.      Hvernig er gætt að reglum um framsal viðskiptabréfa og ákvæðum tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798 við meðferð ógildingarmála?
     7.      Telur ráðherra koma til greina að gera breytingar á lögum til að tryggja að höfðun ógildingarmáls komist til vitundar útgefanda viðkomandi skuldabréfs svo að honum gefist kostur á að gæta lögvarinna hagsmuna sinna við málsmeðferðina?


Skriflegt svar óskast.