Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 164  —  162. mál.




Skýrsla


forsætisráðherra um reynsluna af starfi nefnda Seðlabanka Íslands eftir gildistöku
laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, m.a. með hliðsjón af skiptingu verkefna
á milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar.


    Skýrsla þessi er unnin á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Það kveður á um að fyrir lok árs 2021 skuli ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði peninga- og fjármálahagfræði og fjármálaeftirlits um reynsluna af starfi nefnda Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laganna, m.a. með hliðsjón af skiptingu verkefna á milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar. Meta skuli sérstaklega reynsluna af varúðar- og viðskiptaháttaeftirliti innan bankans og mögulega orðsporsáhættu vegna þess.
    Úttektarnefnd var skipuð þann 9. júní 2021 en hana skipuðu Tryggvi Pálsson hagfræðingur, formaður, Þórhildur Hansdóttir Jetzek hagfræðingur og Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður.
    Niðurstaða nefndarinnar er í aðalatriðum sú að gengið hefur verið rösklega til verks við sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins með góðum árangri. Nefndarstarfið nýtur samlegðarinnar, meiri samvinna er nú á milli sviða bankans, mikið hefur áunnist í upplýsingatæknimálum og gagnaúrvinnslu og enn frekari uppbygging sé í vændum. Þá er það mat nefndarinnar að áhyggjur af orðspori Seðlabankans hafi ekki raungerst og verið ofmetnar.
    Nefndin bendir hins vegar á ýmis atriði sem huga þyrfti að við endurskoðun laganna, svo sem stefnumörkun varðandi fjármálastöðugleikanefnd, verkaskiptingu milli nefnda og val á ytri nefndarmönnum, sem gerð er nánari grein fyrir í fylgiskjali.


Fylgiskjal.


Skýrsla um reynsluna af starfi peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands 2020–2021.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0164-f_I.pdf