Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 169  —  167. mál.

Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.


Frá forsætisráðherra.    Alþingi ályktar, með vísan til 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem felur í sér að í stað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis komi félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, innviðaráðuneyti, matvælaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á heiti og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem forsætisráðherra hyggst gera tillögu um til forseta Íslands í samræmi við 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Áður en slík tillaga er lögð fyrir forseta til staðfestingar skal skv. 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, leggja hana fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu svo sem hér er gert og er í ákvæðinu sérstaklega kveðið á um að tillagan skuli þegar koma til umræðu og afgreiðslu á þinginu.
    Fyrirhuguð fjölgun ráðuneyta og breyting á heitum þeirra er lokaáfangi í umfangsmiklum breytingum á skipulagi Stjórnarráðs Íslands sem kynntar voru í tengslum við myndun nýrrar ríkisstjórnar í lok nóvember sl. með útgáfu forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og forsetaúrskurðar um skiptingu starfa ráðherra. Með þeim úrskurðum voru ýmis stjórnarmálefni flutt á milli ráðuneyta og ráðherra og breytingar gerðar á fjölda ráðherra og embættisheitum þeirra. Með útgáfu forsetaúrskurðar um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti að lokinni afgreiðslu Alþingis á tillögu þessari verður unnt að ljúka þeim skipulagsbreytingum sem lagt var upp með.

2. Skipulag Stjórnarráðs Íslands.
    Verkskipulagshlutverk forsætisráðherra og virk beiting þess í samræmi við þróun verkefna, nýjar áskoranir og pólitískar áherslur ríkisstjórnar á hverjum tíma er meðal mikilvægustu stjórntækja framkvæmdarvaldsins. Forsenda þess að stjórnsýslan sé árangursrík og skilvirk er að skipulag hennar og verkaskipting sé til þess fallin að hún geti sem best tekist á við þær áskoranir sem við er að etja hverju sinni. Endurskipulagning og tilfærsla verkefna milli ráðuneyta Stjórnarráðsins getur þannig verið nauðsynlegur liður í því að mæta nýjum áskorunum og takast á við ný eða breytt verkefni í takt við þarfir hvers tíma.
    Kröfur um sveigjanleika og viðbragðsþrótt stjórnkerfisins hafa fengið síaukið vægi á umliðnum árum samhliða örum samfélagsbreytingum. Þessar kröfur hafa enn aukist eftir efnahagshrunið eins og sjá má í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008 sem varpaði ljósi á alvarlega veikleika í íslensku stjórnkerfi, ekki síst að því er varðaði skort á samhæfingu og samvinnu þeirra stjórnvalda sem fóru með skyld verkefni og getu stjórnsýslunnar til viðbragða og stefnumótunar. Þeir lærdómar sem brugðið er ljósi á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varða alla meginþætti í starfsemi og hlutverki framkvæmdarvaldsins. Þeir snúa að mikilvægi faglegrar og pólitískrar stefnumótunar, gæðum við lagasetningu, að vandað sé til skipulags stjórnsýslunnar og verkaskiptingar á milli stjórnvalda, að stjórnvöld vinni saman og samhæfi aðgerðir þegar málefni og verkefni skarast og að stjórnsýslan hafi yfir að ráða vel menntuðum og hæfum starfsmönnum, svo dæmi séu tekin.
    Eins og fram kemur í skýrslu forsætisráðherra til Alþingis á 151. löggjafarþingi um viðbrögð við ábendingum rannsóknarnefnda Alþingis hefur síðastliðinn áratug verið unnið markvisst að stjórnkerfisumbótum með niðurstöður og ábendingar rannsóknarnefndar Alþingis að leiðarljósi í því skyni að auka sveigjanleika stjórnkerfisins með aukinni samvinnu og samstarf þvert á ráðuneyti sem tryggi að þekking og mannauður sé nýttur til fulls. Þetta hefur m.a. verið gert með því að ýta undir þverfaglega nálgun og hvetja til aukins hreyfanleika starfsfólks milli ráðuneyta. Á grundvelli þessara breytinga á umgjörð og starfsskilyrðum stjórnsýslunnar á umliðnum árum má ætla að Stjórnarráðið búi nú yfir þeirri auknu stefnulipurð og auknum sveigjanleika sem nauðsynlegur er til þess að innleiða breytingar hratt og vel með sem minnstri röskun á starfsemi stjórnsýslunnar.
    Þeim breytingum á ráðuneytisskipan Stjórnarráðs Íslands sem hér er gerð tillaga um er í samræmi við framangreint og er henni ætlað að tryggja að Stjórnarráðið sé sem best í stakk búið til að takast á við þau krefjandi samfélagsverkefni sem fram undan eru í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fyrir komandi kjörtímabil. Tvö ný ráðuneyti menningar- og viðskipta og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar á að takast á við áskoranir nýrra atvinnuvega og samhliða ýta undir þau tækifæri sem gefast í þágu samfélagsins alls. Ný ráðuneyti taka við málefnum sem áður heyrðu aðallega undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti með tilheyrandi endurskipulagningu þeirra málefna sem áfram verða á ábyrgð þeirra.
    Breytingar verða einnig á heitum annarra ráðuneyta í takt við nýjar áskoranir og flutning stjórnarmálefna til eða frá þeim. Til að mynda verður mennta- og menningarmálaráðuneytið þannig mennta- og barnamálaráðuneytið til samræmis við aukna áherslu á málefni barna sem flytjast til ráðuneytisins samhliða því að menningarmálin flytjast til nýs ráðuneytis menningar- og viðskipta. Með tilfærslu skipulagsmála og húsnæðis- og mannvirkjamála til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins verður til öflugra ráðuneyti innviða og tekur nýtt heiti ráðuneytisins mið af því svo dæmi sé tekið.
    Breytt nálgun við samþættingu málaflokka í ráðuneytum hefur jafnframt það að markmiði að skapa skilyrði fyrir nýja hugsun og skapandi lausnir. Sem dæmi má hér taka þá nálgun að hafa orkumál og náttúruvernd í sama ráðuneyti, mál sem við fyrstu sýn kunna að vera eðlisólík. Sú nálgun sem hér er kynnt til sögunnar er hins vegar í takt við þróun umræðu um þau mál þar sem kallað er eftir jafnvægi á milli nýtingar og verndar – í stað þess að tefla þessum málaflokkum saman sem andstæðum. Sama máli gegnir um málefni ferðaþjónustunnar og skapandi greina í ráðuneyti menningar- og viðskipta. Með sameiginlegri umgjörð þessara mikilvægu atvinnugreina er þannig markmiðið að hámarka gagnkvæman ávinning og stuðla að sameiginlegum lausnum í þágu beggja greinanna. Eins og sjá má eru þessar breytingar á skipan ráðuneyta síðast en ekki síst til þess fallnar að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins.

3. Nánar um breytingar á skipan ráðuneyta og verkefnum þeirra.
Forsætisráðuneyti.
    Stjórnarmálefnið mannréttindi og mannréttindasáttmálar færist til forsætisráðuneytis. Inntak stjórnarmálefnisins er almenn stefnumótun á sviði mannréttindamála, innleiðing og eftirfylgni alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga og yfirumsjón með framkvæmd og stöðu mannréttindamála með hliðsjón af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist sem og aðkoma og málsforræði vegna dómsmála sem höfðuð eru gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu o.fl. Um er að ræða margþætt verkefni sem felur m.a. í sér yfirumsjón með lagabreytingum þegar þeirra er þörf vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga og skýrslugjöf til nefnda um framkvæmd þeirra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.
    Mannréttindamál spanna verksvið ráðuneyta þvert á Stjórnarráðið og sveitarfélög landsins og því er öflug samvinna og samhæfing um málaflokkinn nauðsynleg. Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi undir forystu forsætisráðuneytisins verður efldur í því skyni að tryggja enn betur samhæfingu með aðkomu allra ráðuneyta. Samhliða verður aðkoma forsætisráðuneytis að málefnum er varða setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna efld í nánu samstarfi við utanríkisráðuneytið sem heldur utan um það verkefni.
    Ísland mun taka við formennsku meðal 47 aðildarríkja í Evrópuráðinu árið 2022. Í aðdraganda þess hefur fastafulltrúi Íslands tekið sæti í yfirstjórn Evrópuráðsins og mun gegna formennsku á mannréttindafundalotum ráðherranefndar Evrópuráðsins hálfu ári áður en Ísland tekur við formennskunni. Flutningur mannréttindamála til forsætisráðuneytisins nú endurspeglar áherslur og forystu Íslands í mannréttindamálum á alþjóðavettvangi um þessar mundir.
    Árið 2019 voru jafnréttismál flutt til forsætisráðuneytis. Jafnréttismál eru mannréttindamál og er augljós samlegð með þeim málefnum í forsætisráðuneytinu.
    Samstaða um mikilvægi mannréttinda er rík á Íslandi en þó ljóst að samfélagið stendur stöðugt frammi fyrir nýjum áskorunum þegar kemur að mannréttindavernd. Til að efla utanumhald málaflokksins í stjórnsýslunni er í sáttamála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf kveðið á um að komið verði á fót nýrri Mannréttindastofnun. Verður það verkefni forsætisráðuneytis að hrinda þeim áformum í framkvæmd.

Dómsmálaráðuneyti.
    Núverandi fyrirkomulag dómsmálaráðuneytis verður að mestu leyti óbreytt í skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands með tilflutningi einstakra stjórnarmálefna. Meðal verkefna sem flytjast til ráðuneytisins er framfylgd laga og reglna um undirbúning stjórnarfrumvarpa. Forsætisráðuneytið hefur á undanförnum árum innleitt ný vinnubrögð við undirbúning og smíði stjórnarfrumvarpa með miðlægu gæðaeftirliti og víðtæku samráði, bæði innan og utan Stjórnarráðsins. Er nú talið tímabært að verkefnið verði að danskri fyrirmynd flutt til dómsmálaráðuneytis þar sem verkefnið hefur m.a. samlegð með stjórnarmálefnum er varða birtingu laga og stjórnvaldserinda, lagasafn, Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Félagsmálaráðuneytið verður að félags- og vinnumarkaðsráðuneyti til samræmis við áherslur ríkisstjórnar á bætt umhverfi vinnumarkaðarins. Þetta endurspeglast í stjórnarsáttmála þar sem lögð er rík áhersla á árangursríkt samráð við aðila vinnumarkaðarins og því að leitast verði við að tryggja gott samspil hagstjórnar og kjarasamninga. Þannig megi stuðla að betri samfellu við samningagerð á vinnumarkaði sem leiði til efnahagslegs og félagslegs stöðugleika og bættra lífskjara. Í þessu skyni er ætlunin að efla embætti Ríkissáttasemjara svo dæmi sé tekið.
    Í stjórnarsáttmála er jafnframt boðuð endurskoðun löggjafar um framhaldsfræðslu í breiðu samráði til að tryggja að framhaldsfræðslukerfið sé í stakk búið til að takast á við samfélagsþróun, m.a. vegna loftslagsbreytinga og tæknivæðingar á vinnumarkaði. Þegar tækniframfarir eru jafnhraðar og raun ber vitni er mikilvægt að efla þekkingu, tryggja jöfn tækifæri og sporna gegn aðstöðumun í breyttu kerfi til þess að stuðla að réttlátum umskiptum. Framhaldsfræðsla er því ekki aðeins vinnumarkaðsmál heldur jafnframt félagslegt málefni og miða skipulagsbreytingar við að framkvæmd laga um framhaldsfræðslu verði á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer með málefni innflytjenda og flóttafólks og tekur nú jafnframt við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðuneytinu. Ráðuneytið hefur um árabil borið ábyrgð á móttöku kvótaflóttamanna en þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem bíða niðurstöðu umsóknar, hefur verið á ábyrgð dómsmálaráðuneytis. Tilfærsla þjónustunnar til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis er liður í að samræma að því marki sem unnt er móttöku fólks á flótta í samstarfi ríkis og sveitarfélaga óháð því á hvaða forsendum fólk kemur til landsins.
    Sú þjónusta sem er veitt umsækjendum um alþjóðlega vernd er grunnþjónusta sem ætlað er að mæta lágmarksþörfum einstaklinga, svo sem um húsnæði, framfærslu, nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, menntun ef um börn er að ræða og eftir atvikum aðra sérþjónustu, sem samsvarar öðrum málefnum ráðuneytisins. Tilfærsla málefnisins til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er liður í mótun skýrrar og heildstæðrar stefnu í málefnum útlendinga sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélagi og á vinnumarkaði. Dómsmálaráðuneytið mun áfram fara með réttaraðstoð og hefðbundna stjórnsýslu við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Núverandi fyrirkomulag fjármála- og efnahagsráðuneytis verður að mestu leyti óbreytt í skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Nýtt ráðuneyti vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunar endurspeglar áherslur ríkisstjórnarinnar á að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar og nýta hraðfleygar tæknibreytingar og stafræna umbyltingu í þágu samfélagsins alls. Á 21. öldinni hefur orðið bylting í þekkingariðnaði þar sem vísindi og rannsóknir á háskólastigi hafa gegnt lykilhlutverki. Stjórnkerfi hvers ríkis þarf að bregðast við þessu og aðlaga skipulag sitt að þessum veruleika.
    Ísland býr að öflugum tæknilegum innviðum og á kjörtímabilinu verður lögð áhersla á að styrkja þá innviði enn frekar. Sú staða skapar mikla möguleika til hagnýtingar hugvits og til að auka fjölbreytni atvinnulífsins og fjölga spennandi og verðmætum störfum og styrkja þannig samkeppnisstöðu Íslands.
    Stofnun nýs ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála er til marks um framsækna stefnu ríkisstjórnarinnar á þessum málefnasviðum. Markmið hins nýja ráðuneytis verður að horfa stöðugt til þess hvernig unnt er að gera hlutina betur en áður, hvernig hægt er að innleiða nýjungar og gera þannig bæði einstaklingum og fyrirtækjum kleift að bæta hag sinn og framtíðarhorfur. Nýtt ráðuneyti kemur til með að styðja við umhverfi nýsköpunar þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín, dafna og vaxa í opnu og frjálsu samfélagi nýsköpunar og samkeppni.
    Til þess að virkja tækifærin þarf að ryðja braut nýsköpunar og iðnaðar á öllum sviðum samfélagsins. Móta þarf skýra stefnu á því sviði þvert á málaflokka ráðuneyta. Samhliða uppbyggingu í iðnaði og nýsköpun er mikilvægt að styðja við og styrkja grunnrannsóknir í landinu og skapa og viðhalda öflugu stuðningsumhverfi á þessum sviðum og í því skyni verða rannsóknasjóðir m.a. efldir. Þá felast í því mikil tækifæri að tengja betur saman rannsóknir og iðnað. Með því að leiða saman í einu ráðuneyti málefni háskóla, vísinda, rannsókna, nýsköpunar, iðnaðar og hugverka eins og ráðgert er í þeirri tillögu sem liggur fyrir skapast grundvöllur fyrir markvissari stefnumótun og stjórnsýslu á þessum sviðum með aukinn vöxt, verðmætasköpun og velsæld í samfélaginu að markmiði.
    Rannsóknir og nýsköpun eru tæki til að takast á við samfélagslegar áskoranir. Rannsóknir og nýsköpun skipta sköpum fyrir langvarandi hagsæld, lífsgæði og sjálfbæra þróun. Í fámennu samfélagi á borð við Ísland er ekki síður mikilvægt að nýta rannsóknir og nýsköpun til þess að viðhalda menningararfinum, svo sem með rannsóknum og nýsköpun í máltækni. Tengsl rannsókna í háskólum og nýsköpunar í atvinnulífi eru mikil og hafa t.a.m. styrkst með vísindagörðum hér á landi líkt og erlendis. Sértekjur háskóla markast að hluta af samstarfi háskóla og iðnaðar og ávinningur atvinnulífs af nánu samstarfi við háskóla er óumdeildur. Ný, öflug og þekkt fyrirtæki hafa orðið til í samstarfi háskóla og atvinnulífs.
    Háskóli hefur þá sérstöðu sem menntastofnun að kennsla er aðeins hluti af starfsemi þeirra. Þá hafa háskólar frelsi til að velja sér viðfangsefni, þar fara fram rannsóknir og hagnýting þeirra og mikil þátttaka í alþjóðlegu samstarfi. Sjálfstæði háskóla er tryggt í lögum og kemur ríkisvaldið ekki með beinum hætti að skipulagi náms í háskólum eða innihaldi þess líkt og á öðrum skólastigum.
    Stofnun nýs ráðuneytis rennir styrkari stoðum undir sérstöðu háskóla og mikilvægi þess að háskólar og atvinnulíf vinni saman að rannsóknum og nýsköpun í íslensku samfélagi.

Heilbrigðisráðuneyti.
    Núverandi fyrirkomulag heilbrigðisráðuneytis verður óbreytt í skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Innviðaráðuneyti.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fær nýtt heiti og verður innviðaráðuneyti. Tveir stórir málaflokkar flytjast til ráðuneytisins, annars vegar húsnæðis- og mannvirkjamál og hins vegar skipulagsmál. Úr verður öflugt ráðuneyti innviða þar sem saman fara m.a. sveitarstjórnarmál, byggðamál, skipulagsmál, húsnæðis- og mannvirkjamál og samgöngumál. Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp öfluga og áreiðanlega innviði fyrir byggðir landsins og atvinnulífið með samræmdri stefnumótun í málefnum innviða í áætlunum ríkisins og aukna skilvirkni í leyfisveitingum framkvæmda. Með sérstöku innviðaráðuneyti er stigið mikilvægt skref í þá átt að styrkja enn frekar framþróun á þessu sviði.
    Með breytingunni er stefnt að því að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum, aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og að áætlanir í samgöngumálum, húsnæðismálum og skipulagsmálum verði samþættar og lagðar fram samhliða þannig að tryggja megi að samgöngur séu í þágu byggðar og loftslags. Þannig sé líklegra að takast megi að byggja upp samgöngukerfi og innviði sem fullnægja ferðaþörf og skapa um leið sjálfbær hverfi og sjálfbærar byggðir. Traustir, hagkvæmir og skilvirkir innviðir sem stuðla að bættum lífsgæðum fyrir íbúa, eykur styrk byggða og samkeppnishæfni samfélagsins. Skilvirk stjórnsýsla þar sem saman fer samþætting innviða, gott aðgengi að gögnum og samvinna við sveitarfélög tryggja nauðsynlega yfirsýn til að áætlanagerð sé í samræmi við þörf á hverjum tíma.
    Meginmarkmið opinberrar stefnu í húsnæðismálum er að tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna. Í því felst m.a. að stuðla að því að á hverjum tíma sé hæfilegt framboð af hentugu húsnæði sem mætir ólíkum þörfum fólks, efnum og aðstæðum og að veita fjárhagslegan stuðning þeim sem þess þurfa með. Með því að flytja málaflokkana yfir í nýtt innviðaráðuneyti og samþætta við sveitarstjórnarmál næst betri samvinna og upplýsingagjöf á milli ríkis og sveitarfélaga. Bætt yfirsýn gerir kleift að hraða skipulagsferlum, einfalda regluverk í samvinnu við sveitarfélög og stuðla að samræmdari afgreiðslu sveitarfélaga, svo sem í skipulagsmálum og byggingareftirliti. Umgjörð um byggingariðnað verður einfölduð í því skyni að lækka byggingarkostnað án þess að það sé á kostnað gæða og algildrar hönnunar.
    Hvetja þarf til stöðugrar uppbyggingar húsnæðis um land allt. Félagslegar aðgerðir í gegnum almenna íbúðakerfið, bætt réttarstaða leigjenda, samvinna við sveitarfélög og áhersla á að nauðsynlegar upplýsingar um húsnæðismarkað séu aðgengilegar á miðlægum grunni hverju sinni munu með nýjum áherslum bæta þjónustu við íbúa og sveitarfélög. Húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda verður bætt, m.a. með traustri lagaumgjörð, samræmdri umsóknagátt um húsnæðisbætur og aðgengilegri upplýsingagjöf. Það er mikilvægt að vel takist til á þessu sviði því skortur á framboði af húsnæði getur og hefur leitt til þenslu á húsnæðismarkaði og sett þrýsting á verðbólgu og meginvexti Seðlabanka Íslands.
    Skipulagsmál eru samofin samgöngumálum og húsnæðismálum. Til að markmið náist um sjálfbærar byggðir, að allir hafi aðgang að öruggu og vistvænu húsnæði á viðráðanlegu verði og í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu, er mikilvægt að áætlanir og framkvæmdir í þessum málaflokkum séu samræmdar eins og kostur er.
    Stuðla þarf að nægilegu framboði byggingarlóða til lengri tíma í samvinnu við sveitarfélög. Forsenda þess er að fyrir liggi greinargóðar rauntímaupplýsingar um húsnæðismarkað, framboð íbúða og stöðu í skipulags- og byggingamálum á öllu landinu. Skráning, miðlun og greining upplýsinga um húsnæðismál verður efld með tilliti til skipulagsákvarðana í samstarfi við Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Flutningur skipulagsmála til ráðuneytis innviða er hugsaður til að auka líkur á farsælli samræmingu áætlana á þessum mikilvægu sviðum bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga en þar gegnir landsskipulagsstefnan stóru hlutverki.

Matvælaráðuneyti.
    Matvælaráðuneytið byggir á grunni þeirra málefna sem voru á ábyrgð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en auk þess munu málefni skóga, skógræktar og landgræðslu flytjast til matvælaráðuneytisins.
    Á liðnu kjörtímabili var í fyrsta sinn sett matvælastefna fyrir Ísland og gildir hún til ársins 2030. Í stefnunni er fjallað um tækifæri og áskoranir íslenskrar matvælaframleiðslu til næstu tíu ára. Fjallað er um mikilvægi aðgengis að hollum mat til að tryggja lýðheilsu til framtíðar og áskoranir sem þarf að mæta til að tryggja fæðuöryggi landsmanna. Þá er fjallað um möguleika til að styrkja samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskra framleiðenda, ekki síst með nýsköpun og rannsóknum. Jafnframt um nauðsyn þess að matvælaframleiðsla styðji við loftslagsmarkmið og mikilvægi sjálfbærrar nýtingar á auðlindum landsins. Þá er fjallað um þróun á neyslumynstrum fólks og tækifærin til að bregðast við breyttum kröfum neytenda um gagnsæi og aukið aðgengi að upplýsingum. Með því að stofna sérstakt matvælaráðuneyti er stuðlað að farsælli innleiðingu matvælastefnunnar og stjórnkerfið gert hæfara til að ná þeim markmiðum sem hún setur fram.
    Skógræktin veitir framlög til skógræktar á lögbýlum og nauðsynlega þjónustu tengda þeim, rekur þjóðskógana sem eru vettvangur fjölþættra skógarnytja og skipuleggur skógrækt á landsvísu í samráði við sveitarfélög og aðra hagaðila í formi landsáætlunar og landshlutaáætlana í skógrækt. Skógræktin stundar einnig rannsóknir í þágu skógræktar, veitir ráðgjöf og fræðslu. Landgræðslan vinnur að stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar, gróðureftirliti og gróðurvernd. Hún veitir fræðslu og annast rannsóknir og þróunarstarf, tengt sjálfbærri landnýtingu.
    Meðal helstu verkefna í skógrækt og landgræðslu er að huga að því hvernig stuðlað verði að aukinni bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi og komið í veg fyrir losun í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Horft er til þess að forsendur geti verið til framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landnotkun. Aðkoma stofnana ríkisins hefur einkum falist í að þróa vottunarkerfi fyrir skógrækt en einnig er til skoðunar að slíkt fyrirkomulag nái til annarra flokka landnýtingar.
    Verkefni á sviði skógræktar og landgræðslu tengjast landbúnaði og landnýtingu verulega sem og loftslagverkefnum í landbúnaði. Þýðingarmikið er að tryggja sem víðtækasta þátttöku bænda á báðum þessum sviðum til að árangur náist. Með tilfærslu skógræktar og landgræðslu til ráðuneytis landbúnaðar eru skapaðar forsendur til að auka umfang og bæta árangur loftslagsverkefna í landbúnaði og landnýtingu. Verkefnaflutningurinn styður þannig við stór markmið ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum samkvæmt sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Nýtt ráðuneyti menningar og viðskipta tekur við málaflokkum sem nú heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Meginmálaflokkar ráðuneytisins verða því viðskiptamál, þ.m.t. samkeppnismál, ríkisaðstoð, neytendamál, ferðamál, verslun og þjónusta, fjölmiðlar, safnamál, listir og menning og íslensk tunga og íslenskt táknmál.
    Nýtt ráðuneyti menningar og viðskipta leiðir saman hina nýrri atvinnuvegi ferðaþjónustu og skapandi greina sem hafa orðið sífellt mikilvægari fyrir íslenskt efnahags- og viðskiptalíf. Ljóst er að ferðaþjónustan og menningargeirinn njóta gagnkvæms ávinnings af velgengni og hagsmunir þeirra að miklu leyti samofnir. Þannig hafa íslenskir menningarviðburðir á borð við tónlistar- og kvikmyndahátíðir verið aðdráttarafl ferðamanna um árabil. Að sama skapi njóta skapandi greinar góðs af stærri markaði sem fylgir fjölgun ferðamanna og aukinni eftirspurn eftir íslenskri list og menningu. Samlegðaráhrif málaflokkanna eru auðsjáanlega mikil og nauðsynlegt að þeim sé búin umgjörð þar sem stefnumótun og stuðningur hins opinbera stuðlar að viðgangi beggja atvinnugreina í senn.
    Í ráðuneyti viðskipta styrkjast enn frekar forsendur fyrir ný tækifæri og sókn þessara atvinnuvega í þágu samfélagsins alls. Með stuðningskerfi skapandi greina og almenna lagaumgjörð viðskiptalífsins skapast grundvöllur til framþróunar sem hinu nýja ráðuneyti er ætlað að nýta sér. Kvikmyndagerð hefur til að mynda orðið sífellt umsvifameiri í íslensku atvinnu- og menningarlífi síðustu ár. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Samkvæmt sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf er ætlunin að efla stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis og mun ráðuneyti menningar- og viðskipta hafa forystu um það verkefni og stuðla þannig að því að fleiri stór verkefni verði unnin á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.
    Ásamt málefnum samkeppnisréttar mun menningar- og viðskiptaráðuneytið fara með almenna samhæfingu í ríkisaðstoðarmálum og vera tengiliður íslenskra stjórnvalda gagnvart ESA vegna málaflokksins. Reglur um ríkisaðstoð byggja einkum á sjónarmiðum um að stuðningur ríkisins eigi ekki að valda ótilhlýðilegri röskun á samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði, hvort sem er innan tiltekins geira eða með því að stuðla að misjafnri aðstöðu mismunandi atvinnugeira. Reglur um ríkisaðstoð eru nátengdar almennri viðskiptaumgjörð atvinnulífsins þvert á einstaka málaflokka og atvinnugreinar og flutningur til ráðuneytis viðskipta bætir því heildarsýn og stefnumótun á sviðinu öllu.
    Meðal verkefna nýs ráðuneytis á sviði viðskiptalífs og neytendamála verður jafnframt athugun á sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu þar sem m.a. verða kannaðir möguleikar á sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum sem getur aukið samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. Meginmarkmiðið er að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið fær nýtt nafn og verður mennta- og barnamálaráðuneyti. Í samræmi við hið nýja heiti mun ráðuneytið fara með málefni skóla og fræðslu, æskulýðs- og íþróttamál auk þess sem málefni barna og barnavernd flytjast til ráðuneytisins. Með sameiningu þessara málaflokka í ráðuneyti mennta- og barnamála, samhliða tilfærslu annarra umfangsmikilla stjórnarmálefna til annarra ráðuneyta, er lagt upp með að gefa hverju þessara málefna aukið vægi í stjórnkerfinu.
    Á liðnu kjörtímabili var ráðist í umfangsmiklar umbætur á lagaumhverfi er varðar málefni barna með farsæld þeirra að leiðarljósi. Í öndvegi þeirra umbóta er ný löggjöf um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem tekur gildi nú um áramótin. Markmið þessara umbóta er eins og nafnið gefur til kynna að bæta þjónustu við börn með því að afnema kerfislægar hindranir og búa málaflokknum heildstæða umgjörð. Skólakerfið gegnir þar lykilhlutverki enda verja börn þar meginhluta dags til langs tíma.
    Ráðuneyti mennta- og barnamála er samkvæmt framansögðu í kjörstöðu til að tryggja að menntun, aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi. Stuðningur við börn og aðgengi að góðri þjónustu hefur jákvæð áhrif á þroska og velsæld og stuðlar að jöfnum tækifærum út í lífið. Þátttaka barna og ungmenna í íþrótta- og frístundastarfi er ekki síður mikilvægur þáttur í þroska og uppvexti þeirra og mun ráðuneytið í samstarfi við sveitarfélög vinna að því að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, búsetu, og aðstæðum að öðru leyti.
    Meðal meginatriða sem lagt var upp með í þeirri umbótavinnu sem vísað er til að framan var að tryggja sívirk og snemmtæk úrræði til að mæta þörfum barna og fjölskyldna þeirra með þverfaglegri samvinnu þeirra stofnana sem fara með málefni barna. Með því er einkum átt við að grípa börn sem glíma við vanda eða þurfa að öðru leyti sérstakan stuðning eins fljótt og hægt er. Þar sem börn verja stærstum hluta tíma síns utan heimilis í skólanum gegnir skólakerfið óneitanlega veigamiklu hlutverki þegar kemur að því að grípa börn sem þurfa sérstakan stuðning. Þetta á ekki síst við þegar grunur leikur á um að börn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sem þarfnast aðkomu barnaverndaryfirvalda. Á starfsfólki leik- og grunnskóla hvílir enda sérstök skylda til þess að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og að tilkynna frávik til barnaverndaryfirvalda. Með tilfærslu barnaverndarmála til ráðuneytis skólamála er enn frekar tækifæri til að stuðla að samræmdri stefnumótun og samvinnu þeirra aðila sem þjónusta börn frá degi til dags til þess að vernda þau og grípa þegar á þarf að halda.
    Barna- og fjölskyldustofa fer með verkefni samkvæmt barnaverndarlögum sem áður voru í höndum Barnaverndarstofu, þ.m.t. rekstur tilgreindra úrræða. Þá er Barna- og fjölskyldustofa lykilstofnun þegar kemur að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna þar sem hún fer m.a. með umfangsmikið leiðbeiningahlutverk gagnvart þeim sem framkvæma lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Samlegð hér er því einnig mikil.
    Ráðgjafar- og greiningarstöð þjónustar fyrst og fremst börn og fjölskyldur þeirra og er meginverkefni stofnunarinnar að tryggja að börn með alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að draga úr afleiðingum röskunarinnar. Ráðgjafar- og greiningarstöðin vinnur náið með félags- og skólaþjónustu sveitarfélaga, barnadeildum og barna- og unglingageðdeildum sjúkrahúsa, Þroska- og hegðunarstöð og sérfræðingum í heilbrigðisþjónustu og gegnir þannig lykilhlutverki við samþættingu þjónustu barna.
    Enda þótt málefni ráðuneytisins spanni víðara svið er eins og sjá má af framangreindum málefnunum ráðuneytisins höfuðáhersla lögð á farsæld barna, menntun þeirra og velferð. Með sameiningu þessara stjórnarmálefna fæst betri yfirsýn yfir málefni barna í víðari skilningi og tækifæri til áframhaldandi sóknar á því sviði í samræmi við áherslur í sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fær nýtt nafn og verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Stærsta verkefni stjórnvalda á komandi árum er að sporna við loftslagsvánni, þar á meðal að tryggja sanngjörn orkuskipti og bætta orkunýtni og að snúa frá bruna jarðefnaeldsneytis og nota í staðinn endurnýjanlega orkugjafa eins hratt og unnt er. Um eða yfir 70% losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu kemur frá jarðefnaeldsneyti og því horfir heimsbyggðin til hreinna orkuskipta sem grundvallarþáttar í lausn á loftslagsvánni. Nýtt heiti umhverfisráðuneytis og flutningur orkumála undir það endurspeglar þetta meginverkefni umhverfis- og stjórnmálanna á heimsvísu á komandi árum þar sem áhersla þarf að vera á að auðlindanýting sé í sátt við náttúru og umhverfi.
    Samhengi orku- og loftslagsmála eru augljóst. Framleiðsla og aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa og loftlagsvernd er sitt hvor hliðin á sama peningnum. Flutningur orkumála og orkuframleiðslu til ráðuneytis umhverfismála er hugsuð til að samþætta og leita jafnvægis á milli sjónarmiða umhverfis- og loftlagsverndar annars vegar og orkuöflunar og orkuiðnaðar hins vegar en hvort tveggja eru grundvallarforsendur velsældar og hagvaxtar í framtíðinni hér á landi og um heim allan.
    Á Íslandi er um 40% losunar (án landnotkunar) frá orkunotkun. Orkuskipti eru þannig ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins. Sameining orku-, umhverfis- og loftlagsmála í einu ráðuneyti gefur rík tækifæri til að samræma enn betur stefnumótun og framkvæmd stefnu í orkuskiptum, orkumálum og loftslagsmálum. Á þeirri vegferð er sjálfbær þróun leiðarljós sem og jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.
    Ísland stendur framar öðrum þjóðum á sviði orkuskipta. Hreinum orkuskiptum rafmagns og hita er svo gott sem lokið á Íslandi, sem er einsdæmi á heimsvísu, auk þess sem Ísland er í góðu færi að vera meðal fyrstu eða jafnvel fyrst ríkja til að hætta alveg notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta gefur Íslandi möguleika á að vera fyrirmynd í alþjóðlegu samhengi loftslagsmála. Tilgangur með endurskipulagningu verkefna umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis er m.a. að Ísland nái markmiðum stjórnvalda á þessu sviði.
    Tilflutningur orkumála undir ráðuneyti umhverfismála endurspeglar auk þess þá áherslu að orkuframleiðsla á Íslandi skuli vera á grænum forsendum. Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarfið undirstrikar þetta þar sem fram kemur að ekki verði gefin út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands og að áhersla verði á græna orkuframleiðslu. Öll orkuöflun hefur hins vegar áhrif á náttúru og umhverfi, þ.m.t. nýting endurnýjanlegra og loftslagsvænni orkugjafa á borð við jarðhita, fallvötn, vind- og sjávarorku. Á Íslandi hefur verið leitast við að samræma sjónarmið orkuöflunar og náttúruvernd undir merkjum rammaáætlunar. Hún gerir því ráð fyrir aðkomu margra, utanaðkomandi sérfræðinga, framkvæmdavaldsins og að lokum Alþingis. Nánara samstarf stofnana og sérfræðinga á sviðum orkumála og náttúruverndar innan stjórnsýslunnar er mikilvægt til að vinna við rammaáætlun verði markvissari. Sameining náttúruverndar og orkumála í ráðuneyti umhverfismála er ekki síst til þess fallin að auka samlegð í stjórnsýslu á þessu sviði.
    Auk orkumála flytjast málefni menningarminja til ráðuneytisins. Menningarminjar eru hluti af landslagi og umhverfi náttúru Íslands og mun ráðuneytið fara með forystu í stefnumótun og uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum. Stjórn nýtingar á svæðum þar sem finna má náttúru- og menningarminjar hefur þróast hratt síðustu ár vegna fjölgunar ferðamanna. Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminjum sem innleidd var með lögum árið 2018 hefur reynst mikilvægt stjórntæki í þeim efnum. Minja- og náttúruvernd byggja á áþekkum aðferðum og fela í sér fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir skemmdir á náttúru- og menningarverðmætum.
    Vænta má skilvirkari framkvæmdar og betra samræmis við friðlýsingar náttúru- og menningarminja auk þess sem stefnumörkun, mótun og stjórnsýsla þjóðgarða mun með þessu móti taka betur mið af samhengi sögu og náttúru. Með þessu verða því valdmörk menningar- og náttúruminja skýrari og nálgun heildrænni í þágu náttúru- og minjaverndar í samhengi við ferðaþjónustu. Framkvæmd umhverfismats tekur auk þess betur mið af samhengi menningar- og náttúruminja í náttúru Íslands. Þá kemst framkvæmd og ábyrgð á heimsminjasamningi hvað varðar náttúru- og menningarminjar á eina hendi.
    Mikilvæg samlegð og samræming felst því í flutningi menningarminjamála til umhverfisráðuneytis. Flutningur málaflokksins mun stuðla að skilvirkari stjórnsýslu um málefni er lúta að umhverfinu almennt enda mikilvægt að vernd náttúru og menningarminja haldist í hendur. Þá má vænta þess að breytingin leiði til betri nýtingar fjármuna og aukins faglegs árangurs með samhentari og samstilltari stjórnsýslu á málefnasviðinu. Menningarminjar eru hluti af landslagi og umhverfi náttúru Íslands.

Utanríkisráðuneyti.
    Núverandi fyrirkomulag utanríkisráðuneytis verður óbreytt í skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

4.     Tímasetning breytinga og áætlaður kostnaður.
    Stefnt er að því að nýr forsetaúrskurður um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti með þeim breytingum sem gerð eru skil í tillögu þessari taki gildi 1. febrúar 2022.
    Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu er gert ráð fyrir að ráðuneytum fjölgi úr tíu í tólf. Fjölgun ráðuneyta hefur óhjákvæmilega í för með sér viðbótarkostnað, m.a. vegna nýrra stöðugilda sem til verða. Liggur viðbótarkostnaður þá fyrst og fremst í auknum launakostnaði. Að frátöldum ráðherra og tveimur aðstoðarmönnum má gera ráð fyrir að a.m.k. sex ný stöðugildi verði til við stofnun nýs ráðuneytis, þ.m.t. ný staða ráðuneytisstjóra. Heilt yfir er áætlað að kostnaður, þ.m.t. launakostnaðar, rekstrarkostnaður og kostnaður vegna húsnæðis, vegna stofnunar nýs ráðuneytis sé í kringum 190 millj. kr. á ársgrundvelli. Kostnaður vegna fjölgunar ráðuneyta um tvö við þær skipulagsbreytingar sem hér eru kynntar er þó minni en tvöfaldur sá kostnaður enda fjölgar ráðherrum aðeins um einn og takmarkast fjölgun stöðugilda aðstoðarmanna ráðherra, ritara og bílstjóra af því. Gert er ráð fyrir að endanlegt mat á kostnaði vegna skipulagsbreytinganna komi fram við tillögugerð við 2. og eftir atvikum 3. umræðu á Alþingi um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.