Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 177  —  175. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020 (lágmarksframfærsla námsmanna).

Flm.: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Heimilt er að veita framfærslulán sem skal að lágmarki nema neysluviðmiði ráðuneytis félagsmála að viðbættum húsnæðiskostnaði og að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu.
     b.      4. mgr. orðast svo:
             Nánar skal mælt fyrir um framkvæmd þessa í úthlutunarreglum, þ.m.t. hámark skólagjaldalána og takmarkanir miðað við námsframvindu námsmanns. Sjálfsaflafé námsmanna skal ekki koma til frádráttar á heimild til lántöku.

2. gr.

    14. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Námsstyrkur.

    Námsmenn sem stunda nám sem telst lánshæft skv. II. kafla geta sótt um námsstyrk til framfærslu sem nemur 72.000 kr. á mánuði miðað við fulla námsframvindu skv. 13. gr.
    Fjárhæð styrks tekur breytingum fyrir upphaf hvers skólaárs í réttu hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs næstliðins almanaksárs fyrir viðkomandi skólaár. Fjárhæðin skal birt í úthlutunarreglum og vera óbreytt alla mánuði skólaársins.
    Námsmenn geta valið um hvort námsstyrkur þeirra sé greiddur út mánaðarlega eða í lok hverrar annar. Hafi hærri styrkur verið greiddur en námsframvinda skv. 13. gr. veitir rétt til verður fjárhæð hans skuldfærð sem námslán eða kemur til hækkunar höfuðstóls ef námsmaður hefur þegar þegið námslán.
    Námsstyrkur er veittur í níu mánuði á hverju skólaári og skiptist jafnt á haust- og vorönn eða jafnt á haust-, vetrar- og vorönn þegar um fjórðungaskóla er að ræða. Heimilt er í úthlutunarreglum að mæla fyrir um að námsstyrkur sé veittur í allt að þrjá mánuði til viðbótar vegna náms á sumarönn sem uppfyllir nánari skilyrði úthlutunarreglna.
    Námsstyrkur hvers námsmanns er veittur að hámarki í 45 mánuði óháð því hvort veittur er fullur styrkur á hverri önn eða hlutfallslegur, sbr. 13. gr., og eingöngu í þeim mánuðum þegar fullt nám er stundað, sbr. 3. mgr. og nánari ákvæði í úthlutunarreglum.
    Fjárhæð námsstyrks kemur til frádráttar á heimild til framfærsluláns þær annir sem hann er veittur.

3. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Endurgreiðsla námslána hefst tveimur árum eftir námslok nema lánþegi óski eftir því að hefja endurgreiðslur fyrr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2022.

Greinargerð.

    Fjárhagslegur stuðningur við námsmenn og námslánakerfi er grundvallarforsenda þess að tryggja jafnrétti til náms. Námslánakerfið er jafnframt leið stjórnvalda til að sýna í verki stuðning sinn við háskólamenntun. Námslánakerfið er svar stjórnvalda við því hvernig þau vilja tryggja jafnrétti til náms. Stjórnvöld sem vilja standa vörð um háskólaumhverfið og vilja veg háskólamenntunar og rannsókna sem mestan þurfa að búa þannig að námsmönnum að þeir fái stuðning og umgjörð til að sinna námi sínu.
    Við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu sökum efnahagsáfalla í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru er rétt að horfa til framtíðar og fjárfesta markvisst í háskólamenntun, rannsóknum og nýsköpun. Mikilvægur liður í því er að búa vel að háskólastúdentum, að tryggja þeim þau kjör að þeir geti sinnt háskólanámi án þess að þurfa samhliða að tryggja sér framfærslu með vinnu. Þegar þessi umgjörð liggur skýr og ljós fyrir af hálfu stjórnvalda löðum við fólk til náms, við tryggjum að stúdentar ljúki námi og búi við þær aðstæður að geta einbeitt sér að náminu. Þannig er samfella í námi tryggð og námsframvindu stúdenta um leið hraðað.
    Íslenskir námsmenn hafa almennt meiri fjárhagslegar áhyggjur en aðrir evrópskir námsmenn. Þá eru háskólanemar hér á landi almennt eldri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta kann að hluta að vera skýring þess að íslenskir námsmenn eru lengur í námi en nágrannar okkar. Mikilvægt er að námsstyrkur og námslán dugi stúdentum til framfærslu. Ítrekað hefur komið fram að grunnframfærsla sé of lág til að námsmenn geti framfleytt sér. Það gefur augaleið að þegar stúdentar þurfa að vinna til að framfleyta sér er það til þess fallið að draga úr námshraða og námsárangri.
    Í gildandi lögum um Menntasjóð námsmanna er kveðið á um að miða skuli við að framfærslulán nægi námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og búsetu. Þetta ákvæði hefur verið gagnrýnt fyrir að kveða ekki á um hver framfærsluviðmiðin skuli vera og tryggja ekki námsmönnum hækkun á framfærslu í samræmi við verðlag. Í ljósi reynslunnar liggur því fyrir að lagaákvæðið þarf að vera skýrt og afdráttarlaust um það að grunnframfærsla skuli að lágmarki nema neysluviðmiði félagsmálaráðuneytis að viðbættum húsnæðiskostnaði og að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu. Er sú breyting lögð til í frumvarpi þessu.
    Menntun leiðir til aukinnar nýsköpunar og bættrar almennrar velferðar í samfélaginu. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að byggja skapandi atvinnulíf með hugviti og þekkingu. Með því móti sköpum við eftirsóknarverð störf, aukum við framleiðni og mótum samfélag sem laðar að sér hæfileikaríka einstaklinga. Með þessu tryggjum við að ungt fólk sem sækir sér framhaldsmenntun erlendis velji að koma aftur heim. Liður í því að tryggja næstu kynslóð samkeppnishæf lífskjör er að störf á Íslandi standist samkeppni að utan. Sú samkeppni snýst vissulega um kjör en ekki síður um hvernig störf eru í boði, hvernig starfsumhverfi býðst, hversu auðvelt er að eignast heimili á Íslandi og hver daglegur kostnaður fjölskyldna er. Menntakerfið geymir lausnina við þeirri áskorun sem lýtur að því að hér verði til fjölbreytt og spennandi störf. Grundvallarstoð þess að styðja við háskólamenntun, rannsóknir og nýsköpun er að styðja við háskólastúdenta meðan á námi þeirra stendur og að verja það markmið að jafnrétti sé til náms óháð efnahag.
    Ákvæði 2. gr. frumvarpsins byggist á frumvarpi til laga um námslán og námsstyrki sem lagt var fram á 145. þingi (794. mál) af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Fyrirkomulaginu er ætlað að skapa hvata fyrir nemendur til að vera í fullu námi og að ljúka því á tilsettum tíma. Samkvæmt ákvæðinu munu nemendur geta sótt um framfærslustyrk sem nemur 72.000 kr. á mánuði í allt að 45 mánuði. Styrkurinn hækki síðan árlega sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs.
    Núverandi stuðningsfyrirkomulag í námslánakerfinu felur fyrst og fremst í sér niðurgreiðslu vaxta fyrir fólk sem lokið hefur námi. Með því kemur stuðningurinn ekki fram fyrr en að loknu námi og gagnast því lítt stúdentum meðan á námi stendur. Þar nýtast fjármunirnir ekki best, enda hefur fólk að jafnaði mun meiri þörf fyrir stuðning meðan það er í námi en eftir að námi lýkur. Þetta er einn helsti gallinn við stuðningskerfið í gildandi lögum um Menntasjóð námsmanna. Það kveður á um niðurfellingu hluta láns, eftir útskrift, sem léttir greiðslubyrði fólks sem komið er út á vinnumarkað en felur hins vegar ekki í sér neinn beinan stuðning við námsmenn. Vænlegra er til árangurs að styðja við námsmenn meðan á námi stendur. Frumvarp þetta felur í sér tilfærslu á stuðningi til námsmanna, þ.e. að stuðningurinn verði veittur meðan á námsgöngu stendur. Gera verður ráð fyrir einskiptiskostnaði í fjárlögum ársins vegna þessa verði frumvarpið að lögum. Önnur ár verður kostnaður ríkissjóðs hinn sami þar sem stuðningur sem nú er í formi niðurfellingar lána og niðurgreiðslu vaxta verði framvegis í formi beins fjárhagslegs stuðnings til námsfólks.