Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 194  —  107. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um biðtíma og stöðugildi geðlækna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu langur biðtími er nú eftir viðtali við geðlækni hjá eftirfarandi stofnunum:
                  a.      Landspítalanum,
                  b.      Sjúkrahúsinu á Akureyri,
                  c.      Heilbrigðisstofnun Austurlands,
                  d.      Heilbrigðisstofnun Norðurlands,
                  e.      Heilbrigðisstofnun Suðurlands,
                  f.      Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,
                  g.      Heilbrigðisstofnun Vestfjarða,
                  h.      Heilbrigðisstofnun Vesturlands,
                  i.      Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins?
     2.      Hversu mörg stöðugildi geðlækna eru nú við hverja þessara stofnana og hversu mörg telur ráðherra að þau þurfi að vera til að tryggja viðunandi þjónustu?
     3.      Hversu mörg stöðugildi geðlækna hafa verið auglýst síðastliðið ár en engar umsóknir borist, sundurliðað eftir stofnunum?


    Spurningum þingmanns er svarað fyrir hverja stofnun fyrir sig. Tekið er fram að forstjóri heilbrigðisstofnunar skipuleggur heilbrigðisþjónustu á upptökusvæði viðkomandi stofnunar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og reglugerð nr. 11/2020. Þörf fyrir þjónustu geðlæknis er því mat hverrar stofnunar og kemur það mat fram hér í upplýsingum um hverja heilbrigðisstofnun.

Landspítali.
     1.      Ferliþjónusta geðþjónustunnar (göngu- og dagdeilda) samanstendur af 15 þverfaglegum og sérhæfðum teymum. Ekki er haldið sérstaklega utan um biðtíma eftir viðtölum eftir fagstéttum innan teymis enda er þjónustan við sjúklinga þverfagleg og byggist á teymisvinnu. Það fer eftir eðli máls hvaða fagstétt (geðlæknir, deildarlæknir, hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi, iðjuþjálfi eða sálfræðingur) sér viðkomandi sjúkling í fyrsta viðtali.
     2.      Nú eru 22 geðlæknar starfandi í 19,7 stöðugildum á spítalanum. Til að tryggja viðunandi þjónustu á legudeildum, í ráðgjafaþjónustu innan og utan spítalans, í bráðaþjónustu og á dag- og göngudeildum og til að sinna kennslu og þjálfun sérnámslækna og læknanema, telur spítalinn að þurfi 31 stöðugildi geðlæknis.
     3.      Frá sumrinu 2020 hefur spítalinn auglýst þrisvar sinnum, bæði innan lands og erlendis, eftir geðlækni til starfa. Einungis hafa borist umsóknir frá erlendum aðilum en tveir voru ráðnir og von er á að árangur verði af þriðju auglýsingunni nú í mars með ráðningu eins einstaklings.

Sjúkrahúsið á Akureyri.
     1.      Á stofnuninni er um þrenns konar þjónustu geðlækna að ræða og er biðtími eftir viðtali geðlæknis því misjafn. Engin bið er eftir bráðaviðtali og fær skjólstæðingur sem lagður er inn á legudeild viðtal við geðlækni samdægurs eða næsta dag ef aðstæður leyfa. Geðlæknar starfa í þverfaglegu teymi á göngudeild og innan viku frá forviðtali málastjóra við skjólstæðing er mál hans kynnt á þverfaglegum teymisfundi. Ef í ljós kemur í forviðtali að vandi skjólstæðings er bráður fær hann bráðaviðtal hjá geðlækni. Að öðrum kosti er viðtal við geðlækni bókað eftir þörfum og í samráði við skjólstæðing á meðan hann er í göngudeildarmeðferð.
     2.      Á stofnuninni eru heimiluð fimm stöðugildi geðlækna og ein staða deildarlæknis við fullorðinshluta geðsviðs. Að auki er heimilað 75% stöðugildi barna- og unglingageðlæknis. Fjórir geðlæknar starfa við stofnunina en einungis einn þeirra er í fullu starfi. Telur stofnunin að til að tryggja viðunandi þjónustu þyrftu að vera sex stöðugildi geðlækna þegar tekið er tillit til vaktabyrði sólarhringsvaktþjónustu. Að auki þyrfti að lágmarki 100% stöðugildi barna- og unglingageðlæknis og þrjú stöðugildi deildarlækna sem myndu starfa við bæði fullorðinsgeðlækningar og barna- og unglingageðlækningar.
     3.      Ekki hefur verið auglýst eftir geðlækni síðastliðið ár og hafa allar ráðningar komið í kjölfar persónulegra samskipta við lækna geðsviðs.

Heilbrigðisstofnun Austurlands.
     1.      Biðtími eftir geðlæknaþjónustu er um tveir mánuðir. Erindum er forgangsraðað eftir bráðleika.
     2.      Við stofnunina starfar nú yfirlæknir geðheilbrigðismála í 50% stöðugildi en 100% staða geðlæknis er talin tryggja þjónustu fyrir þá 11 þúsund íbúa sem búa í heilbrigðisumdæmi Austurlands.
     3.      Einu sinni hefur verið auglýst eftir geðlækni og var sá ráðinn sem nú starfar hjá stofnuninni í 50% starfshlutfalli.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
     1.      Ekki er boðið upp á þjónustu geðlækna við Heilbrigðisstofnun Norðurlands, HSN, utan þjónustu geðheilsuteymis.
     2.      Í geðheilsuteymi stofnunarinnar var geðlæknir í 20% stöðu en hann hætti störfum nýlega. Talið er að stofnunin þurfi að lágmarki 40% stöðu geðlæknis í geðheilsuteymi, í almenn viðtöl og sem stuðning við heilsugæslulækna.
     3.      Stofnunin mun á næstunni auglýsa 40% hlutastöðu geðlæknis í geðheilsuteymi HSN.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
     1.      Nýr geðlæknir kom til starfa 1. desember 2021 og því er biðtími eftir viðtali hjá geðlækni frekar stuttur enn sem komið er.
     2.      Nýr geðlæknir var ráðinn í 100% stöðugildi 1. desember sl.
     3.      Ekki hefur verið auglýst eftir geðlækni við stofnunina sl. ár.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
     1.      Enginn geðlæknir er starfandi við stofnunina og því er enginn biðlisti eftir slíkri þjónustu á staðnum.
     2.      Að mati stofnunarinnar væri æskilegt að hafa eitt stöðugildi geðlæknis starfandi við geðheilsuteymið.
     3.      Nýverið var auglýst ný staða yfirlæknis í geðheilsuteymi. Barst ein umsókn sem síðar var dregin til baka.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
    Ekki er starfandi geðlæknir við stofnunina og ekki hefur verið leitast eftir að ráða geðlækni til starfa. Heilbrigðisstofnunin er í samstarfi við barna- og unglingageðteymi Landspítala, LSH, um þjónustu. Eins getur Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, HVEST, boðið sjúklingum sínum viðtöl við geðlækni á Landspítala í gegnum fjarfundabúnað. Samstarfsverkefni um fjargeðheilbrigðisþjónustu milli LSH og HVEST var sérstaklega styrkt árið 2019. Bið eftir þeirri þjónustu er ekki skráð hjá heilbrigðisstofnuninni.
    
Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
     1.      Biðtími eftir viðtali hjá geðlækni er sem stendur fjórir mánuðir.
     2.      Geðlæknir er starfandi við stofnunina í 30% starfshlutfalli. Miðað við að biðtími er að lengjast má ætla að starfshlutfall geðlæknis þyrfti að vera a.m.k. 50%.
     3.      Geðlæknir kom til starfa í geðheilsuteymi stofnunarinnar í lok október 2019 og ekki hefur verið auglýst síðan.
    
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
     1.      Geðlæknar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins starfa í þverfaglegum geðheilsuteymum og þurfa skjólstæðingar að vera í meðferð innan geðheilsuteymanna til að fá tíma hjá geðlækni því að ekki er hægt að panta tíma beint hjá geðlækni án þess að vera í þjónustu geðheilsuteymis. Einungis einstaklingar með flókinn vanda eru teknir í meðferð í geðheilsuteyminu og er biðtími eftir þeirri þjónustu á bilinu 2–5 mánuðir. Geðlæknar teymanna veita símaráðgjafarþjónustu til heimilislækna vikulega.
     2.      Innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins starfa sjö geðheilsuteymi og er einn geðlæknir í hverju teymi. Samtals eru því sjö geðlæknar starfandi á stofnuninni ásamt framkvæmdastjóra geðheilbrigðisþjónustu sem einnig er geðlæknir. Einn barna- og unglingageðlæknir starfar í 50% stöðugildi á Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hann eykur starfshlutfall sitt í 100% hinn 1. janúar 2022. Að mati stofnunarinnar væri æskilegt að hafa tvö stöðugildi geðlæknis í hverju geðheilsuteymi svo að hægt væri að tryggja samfellu í þjónustu, auka aðgengi og leysa af í fjarvistum. Þá telur stofnunin að 100% stöðu barna- og unglingageðlæknis vanti í nýja geðheilsumiðstöð barna innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem sett verður á fót á næsta ári.
     3.      Auglýst var eftir geðlækni að hausti 2021 og skilaði sú auglýsing ráðningu.