Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 197  —  189. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á kosningalögum, nr. 112/2021 (atkvæðagreiðslur meðal íbúa sveitarfélaga).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 2. mgr. 22. gr., 143. gr. og 3. tölul. 144. gr. skulu lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, og lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, halda gildi sínu við atkvæðagreiðslur meðal íbúa sveitarfélaga á grundvelli 38. gr., 107. gr. og 119. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem fara fram fyrir 14. maí 2022. Fer um framkvæmd þeirra atkvæðagreiðslna eftir lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, og lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, eftir því sem við getur átt.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði samráð við dómsmálaráðuneyti við vinnslu þessa máls.
    Hinn 13. júní sl. samþykkti Alþingi ný kosningalög, nr. 112/2021. Lögin taka gildi 1. janúar 2022 fyrir utan nokkur ákvæði til bráðabirgða sem tóku gildi þegar í stað. Við gildistöku laganna falla brott lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, og lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
    Í nýju kosningalögunum, nr. 112/2021, er ekki fjallað sérstaklega um íbúakosningar að því frátöldu að úrskurðarnefnd kosningamála skal úrskurða um kærur vegna ólögmætis íbúakosninga sem haldnar eru á grundvelli sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, þ.e. íbúakosninga á grundvelli 38. gr. og 107. gr. og sameiningarkosninga á grundvelli 119. gr.
    Fyrirhugaðar eru íbúakosningar um sameiningu sveitarfélaga í byrjun næsta árs. Í sveitarstjórnarlögum segir að almennt skuli slíkar kosningar fara samkvæmt ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna, eftir því sem við á. Frá 1. janúar 2022 munu slíkar kosningar fara eftir ákvæðum hinna nýju kosningalaga, eftir því sem við á. Kosningalög hafa ekki að geyma ákvæði um fyrirkomulag og framkvæmd íbúakosninga. Nauðsynlegt er að taka af allan vafa um hvaða reglur gilda um framkvæmd og fyrirkomulag íbúakosninga. Að öðrum kosti er hætta á ágreiningi um framkvæmd og fyrirkomulag atkvæðagreiðslna þeirra íbúakosninga sem framundan eru.
    Innviðaráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi á vormánuðum 2022 frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum þar sem mælt verði með skýrari hætti fyrir um hvaða reglur skuli gilda um íbúakosningar sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum. Reynslan af íbúakosningum hefur leitt í ljós að þær reglur sem gilda um slíkar kosningar eru í einhverjum tilvikum óþarflega miklar og kunna að leiða til þess að úrræðið sé minna notað en tilefni væri til.
    Í ljósi þess að innviðaráðherra ráðgerir að mæla fyrir frumvarpi á vormánuðum þar sem lagt verður til að um íbúakosningar verði fjallað í sveitarstjórnarlögum í stað þess að vísa til kosningalaga þegar það á við og til að draga úr óvissu um framkvæmd væntanlegra íbúakosninga er lagt til með frumvarpi þessu að um atkvæðagreiðslur meðal íbúa sveitarfélaga á grundvelli tiltekinna ákvæða sveitarstjórnarlaga fari samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna og lögum um kosningar til Alþingis með þeim hætti sem verið hefur. Er lagt til að miðað verði við atkvæðagreiðslur meðal íbúa sem fara fram fyrir 14. maí 2022. Þann dag fara fram kosningar til sveitarstjórna samkvæmt kosningalögum, nr. 112/2021.