Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 198  —  190. mál.
Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um framlög, styrki, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samninga allra ráðherra sem kunna að fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð.

Frá Helgu Völu Helgadóttur, Loga Einarssyni, Kristrúnu Frostadóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Jóhanni Páli Jóhannssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Halldóru Mogensen, Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Gísla Rafni Ólafssyni, Evu Sjöfn Helgadóttur, Ingu Sæland, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Eyjólfi Ármannssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Jakobi Frímanni Magnússyni, Tómasi A. Tómassyni, Sigmari Guðmundssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Guðbrandi Einarssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bergþóri Ólasyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um framlög, styrki, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samninga allra ráðherra á tímabilinu frá og með frestun á fundum Alþingis á 151. löggjafarþingi 13. júní 2021 og til setningar 152. löggjafarþings 23. nóvember 2021.
    Í skýrslunni komi fram:
     a.      Í hverra þágu framlög, styrkir, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samningar sem kunna að fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð eru í hverju tilviki.
     b.      Hvaða fjárheimildir eða samþykktir Alþingis er stuðst við í hverju tilviki.
     c.      Fjárhæðir sem um er að ræða, sundurgreindar eftir ráðherrum, og röksemdir fyrir veitingu einstakra styrkja.
     d.      Tímasetningar, skilyrði, fyrirvarar eða annað sem áhrif getur haft á framvindu einstakra mála.
    Þá er óskað eftir því að ríkisendurskoðandi upplýsi hvernig hafi verið gætt að skilyrðum 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, varðandi styrkveitingar. Ríkisendurskoðandi skili Alþingi skýrslu sinni eigi síðar en 1. apríl 2022.

Greinargerð.

    Skýrslubeiðni þessi er lögð fram af þingmönnum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Flokks fólksins og Miðflokksins.
    Samkvæmt 1. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, starfar ríkisendurskoðandi á vegum Alþingis og er trúnaðarmaður þess við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins. Þá er ríkisendurskoðandi sjálfstæður og engum háður í störfum sínum.
    Ráðherrum er heimilt skv. 1. mgr. 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna sem varða þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á. Grein skal gerð fyrir útgjöldum slíkra styrkja í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi og í ársskýrslu viðkomandi ráðherra. Þá skal við úthlutun styrkja og framlaga gæta almennra reglna stjórnsýsluréttarins um jafnræði, hlutlægni og gagnsæi. Jafnframt skal gæta að samkeppnissjónarmiðum við úthlutun. Umboðsmaður Alþingis hefur í álitum sínum bent á að það sé í betra samræmi við sjónarmið um jafnræði og vandaða stjórnsýsluhætti að auglýst sé opinberlega þegar til stendur að úthluta takmörkuðum gæðum, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4351/2005. Það getur til að mynda átt við þegar margir aðilar sinna sambærilegum verkefnum. Loks er í 2. mgr. 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, kveðið á um að gera skuli skriflegan samning um einstakar styrkveitingar en það á við þegar um er að ræða reglulega styrki eða framlög eða fjárhæð einstaks styrks er talsverð. Í slíkum styrktarsamningi skuli fjallað um skyldur um skýrslugjöf og reikningsskil.
    Í aðdraganda alþingiskosninga hefur borið á því að ráðherrar hefji úthlutanir til einstakra mála í stórum stíl til að vekja athygli á sér og sínu framboði. Einnig að ráðherrar lofi fjárveitingum sem ekki hafa komið til formlegrar umræðu á Alþingi. Má þar nefna loforð um fjárveitingar til byggingar geðdeilda, nemendagarða og þyrluskýla. Telja skýrslubeiðendur það vera ólýðræðislegt að svo sé farið með almannafé og aðstaða sé jafnvel misnotuð með þessum hætti.
    Skýrslubeiðendur telja nauðsynlegt að gagnsæi og aðhald sé með fjárveitingum sem þessum og til þess að það sé tryggt þarf að liggja fyrir óháð úttekt á þeim. Skýrslubeiðnin er einnig gerð þannig að ekki megi efast um tilgang fjárveitinga ráðherra og til að jafnræðis sé gætt milli móttakenda hins opinbera fjármagns úr hendi ráðherra.