Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 199  —  191. mál.
Beiðni um skýrslu


frá innanríkisráðherra um undanþágur frá aldursákvæði hjúskaparlaga.

Frá Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Evu Sjöfn Helgadóttur, Eyjólfi Ármannssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen, Ingu Sæland, Jakobi Frímanni Magnússyni og Tómasi A. Tómassyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að innanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um undanþágur frá aldursákvæði hjúskaparlaga frá því að sjálfræðisaldur var hækkaður í 18 ár.
    Í skýrslunni komi m.a. fram hvaða verklag var viðhaft í hverju tilviki, þ.e. hvaða hlutlægu viðmið voru lögð til grundvallar við mat umsókna, hvaða gagna hafi verið aflað og hvernig ráðuneytið rækti rannsóknarskyldu sína til að ganga úr skugga um að ekki væri um þvingun að ræða áður en hver beiðni um undanþágu var samþykkt. Jafnframt verði gerð grein fyrir því hvernig ráðuneytið hafi brugðist við alþjóðlegri lagaþróun, þeim tilmælum sem beint hefur verið gegn barnahjónaböndum, og hvernig metið hafi verið hvort framkvæmdin samræmdist barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Greinargerð.

    Þessi beiðni um skýrslu var áður flutt á 151. löggjafarþingi (859. mál) og er nú endurflutt. Um nokkurt skeið hefur tíðni barnahjónabanda hér á landi verið til athugunar og hefur upplýsinga verið óskað frá dómsmálaráðherra vegna þess. Fyrsta fyrirspurnin þess efnis var lögð fram af Andrési Inga Jónssyni í mars 2018 (402. mál á 148. löggjafarþingi), en þar var spurt um hversu oft dómsmálaráðuneytið hefði veitt undanþágu frá skilyrðum um aldur hjónaefna skv. 2. málsl. 7. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, frá því að sjálfræðisaldur var hækkaður í 18 ár. Fram kom að á þeim tíma hefðu 18 umsóknir um undanþágu borist og allar hefðu þær verið samþykktar. Í flestum tilvikum voru einstaklingar 17 ára þegar leyfi var veitt, en í tveimur tilvikum voru þeir 16 ára. Í svari dómsmálaráðherra kom jafnframt fram að til stæði að endurskoða hjúskaparlög með það að markmiði að afnema undanþágur vegna aldurs til þess að ganga í hjúskap. Ári síðar var ráðherra inntur eftir því með fyrirspurn (747. mál á 149. löggjafarþingi) hvað þeirri endurskoðun liði. Í svari dómsmálaráðherra kom fram að endurskoðunin væri í vinnslu og fyrirhugað væri að leggja fram frumvarp á næsta þingi. Ekkert slíkt frumvarp leit dagsins ljós á 150. löggjafarþingi.
    Á 151. löggjafarþingi lagði Andrés Ingi Jónsson fram frumvarp um afnám undanþágu frá aldursskilyrðum hjúskaparlaga (347. mál), en nokkru síðar gerði dómsmálaráðherra slíkt hið sama (646. mál). Bæði frumvörpin hafa verið til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Við umfjöllun nefndarinnar var kallað eftir nánari upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu varðandi aldur hjónaefna þeirra einstaklinga sem fengið hafa undanþágu frá aldursskilyrðinu. Þær upplýsingar bárust 8. júní 2021. Þar kemur fram að oft hafi ekki verið um hjúskap jafnaldra að ræða, heldur hafi aldur hjónaefnis oftast verið í kringum 25 ár. Í tveimur tilvikum, árin 2004 og 2005, var um að ræða 17 ára stúlku og 31 árs hjónaefni. Slíkt misræmi í aldri vekur upp fjölmargar spurningar, m.a. um það hvernig ráðuneytið hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína við hverja umsókn til að tryggja að ekki væri um einhvers konar þvingun að ræða.
    Þess er því óskað að fram komi upplýsingar um það hvernig verklagi hafi verið háttað við mat á umsóknum og hvernig það verklag hafi breyst í áranna rás. Hvaða viðmið voru lögð til grundvallar við mat umsókna, hvaða gagna var aflað og hvernig ráðuneytið uppfyllti rannsóknarskyldu sína. Jafnframt hvaða ástæður hafi verið gefnar í hverju tilviki fyrir sig og hvernig ráðuneytið hafi sannreynt þær ástæður og kannað aðstæður hjónaefnanna. Þær upplýsingar sem hér er óskað eftir geta reynst persónugreinanlegar í ljósi þess hversu fá tilvik um er að ræða. Það er mikilvægt að ráðuneytið gæti að persónuverndarsjónarmiðum við skýrslugjöfina, en tryggi á sama tíma að sem fyllstar upplýsingar komi fram um framkvæmdina.
    Við setningu hjúskaparlaga á 116. löggjafarþingi lágu til grundvallar niðurstöður úr norrænu löggjafarsamstarfi og þau norrænu lög sem sett höfðu verið síðustu árin á undan, en þar voru til staðar undanþágur vegna aldurs. Þróun lagaumhverfis á alþjóðavísu hefur hins vegar verið sú að af Norðurlöndunum er einungis á Íslandi í gildi slíkt undanþáguákvæði. Það er því ósk skýrslubeiðenda að fram komi upplýsingar um það hvaða vinna eða skoðun hafi átt sér stað í dómsmálaráðuneytinu í kjölfar breytinga í lagaumhverfi nágrannalandanna, sem viðbragð við þeim alþjóðlegu tilmælum sem komið hafa út, í framhaldi af lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða við innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
    Skýrslubeiðni þessari er ætlað að gera upp framkvæmd þessa undanþáguákvæðis á þeim tímapunkti þegar vonandi styttist í að það heyri sögunni til. Ef einhver misbrestur hefur verið á framkvæmdinni, sem leitt hefur til þess að brotið hafi verið á rétti einstaklinga sem njóta verndar barnasáttmálans, þá þurfa þær upplýsingar að rata í dagsljósið. Þar sem niðurstöður úttektarinnar geta reynst gagnrýnar á framkvæmd ráðuneytisins sjálfs er þess óskað að leitað verði út fyrir ráðuneytið til óháðs aðila við gerð skýrslunnar.