Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 203  —  194. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um minnisvarða um eldgosin í Surtsey og Heimaey.


Flm.: Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Birgir Þórarinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir.


    Alþingi ályktar, í tilefni þess að árið 2023 eru liðin 60 ár frá upphafi Surtseyjargossins og 50 ár frá upphafi Heimaeyjargossins:
     a.      Að fela undirbúningsnefnd að safna hugmyndum og gera tillögur að minnismerki til minningar um tímamótin og skulu þær liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2022. Nefndin skal hafa samráð við stofnanir og samtök sem tengjast eldgosunum í Surtsey og Heimaey. Í undirbúningsnefnd skulu eiga sæti fimm fulltrúar og skal tilnefningu þeirra vera þannig háttað að þingflokkar minni hluta á Alþingi sammælist um tilnefningu á einum fulltrúa, þingflokkar meiri hluta á Alþingi sammælist um tvo fulltrúa, bæjarstjórn Vestmannaeyja tilnefni einn fulltrúa og forsætisráðherra einn fulltrúa sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar. Fyrir árslok 2022 móti undirbúningsnefndin endanlegar tillögur og kynnir þær forsætisráðherra auk þess að annast frekari undirbúning fyrir uppsetningu minnisvarða árið 2023.
     b.      Að fela forsætisráðherra að sjá undirbúningsnefnd fyrir starfsaðstöðu og undirbúa tillögur um fjárframlög til verkefnisins 2022–2023.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 151. löggjafarþingi (179. mál) og er lögð fram að nýju með litlum breytingum.
    Nokkrir stóratburðir í náttúru Íslands á liðinni öld lifa með þjóðinni og marka djúp spor í sögu aldarinnar; allt frá Kötlugosinu 1918 til mannskæðra snjóflóða fyrir vestan og austan undir aldarlok. Fáir atburðir hafa þó vakið meiri athygli á Íslandi utan lands en neðansjávargosið sem myndaði Surtsey og jarðeldarnir á Heimaey.
    Til Surtseyjargossins sást fyrst 14. nóvember 1963 og stóð það til ársins 1967, án alvarlegra afleiðinga. Eldgosið myndaði um 3 km2 eyju; nýjan viðmiðunarpunkt landhelgi og síðar efnahagslögsögunnar. Surtsey er einna fremst meðal eldfjallaeyja á heimsminjaskrá UNESCO. Hún er þeirra yngst og einstæður vettvangur vísindamanna sem fylgjast með myndun móbergs úr gjósku og landnámi gróðurs og dýra á nýju, ónumdu landi og í sjó umhverfis eyjuna. Surtsey hefur verið vísindamönnum og vísindum vettvangur mikilvægra uppgötvana. Í eyjunni hefur einnig verið fylgst með framvindu strandrofs og ferlum rofmyndana á landi, einkum vindrofs. Surtsey hefur minnkað um nærri helming en það hægir smám saman á rofi og veðrun. Líklega verður Surtsey í aldanna rás, líkt og sumar stærri eyjar Vestmannaeyja eru nú orðnar, að sæbröttum móbergs- og hraunstandi með fallegum gróðurhatti.
    Eldgosið á Heimaey braust út aðfaranótt 23. janúar 1973 og stóð í sex mánuði með hörmulegum afleiðingum fyrir byggðina sem þó rétti við eftir öflugar mótvægisaðgerðir og margvíslegt uppbyggingarstarf. Í upphafi Heimaeyjargossins skarst 2 km löng gossprunga í gegnum austasta hluta eyjarinnar, nánast í túnfæti byggðarinnar. Sprungan gaus hraunstrokum enda á milli og gjósku í sjó allra nyrst. Smám saman einangraðist gosvirknin við miðbik hennar og þar hlóðst upp ríflega 200 m hár gjósku- og hraungígur, Eldfell. Heimaey var 11,20 km2 að flatarmáli en að gosi loknu mældist hún 13,44 km2. Í eynni bjuggu um 5.000 manns og þurfti að flytja langflesta þeirra á brott eins fljótt og auðið var. Mögnuð barátta björgunarmanna og bæjaryfirvalda vakti heimsathygli. Saga hennar og reynslan af átökum við hraunflóð og gjóskufallið er um margt einstæð, einkum saga hinnar merkilegu hraunkælingar. Svipað gildir um hreinsun og endurreisn byggðar og atvinnulífs sem á sérstæðan sess í sögunni. Afrek þessa tíma mega ekki falla í gleymsku.
    Árið 2023 verða 60 ár liðin frá Surtseyjargosinu og 50 ár frá Heimaeyjargosinu. Á meðan enn er fólk á lífi sem man vel þessa atburði báða telja flutningsmenn mikilvægt að þessara tímamóta verði minnst á veglegan hátt í Vestmannaeyjum sem og sögu eldsumbrotanna og samfélagsins.
    Flutningsmenn leggja áherslu á að undirbúningsnefndinni verði gefið svigrúm til að safna hugmyndum og koma með tillögur sem ríma við atburðina og hvetji fólk til að heimsækja Vestmannaeyjar til að upplifa sögu samfélags þar, og náttúrunnar, á síðari hluta 20. aldar.
    Nauðsynlegt er að undirbúningsnefndin hafi nægan tíma til undirbúnings, samráðs og vinnu sinnar. Gert er ráð fyrir að tillögur skuli liggja fyrir í árslok 2022 og að endanlegar tillögur verði mótaðar í upphafi árs 2023 og þær kynntar forsætisráðherra. Vonir standa til að minnismerki um eldgosin skapi sér sess í Vestmannaeyjum til frambúðar, verði þekkt kennileiti og áminning um þá atburði sem áttu sér stað og mótuðu sögu bæjarfélagsins.