Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 207  —  137. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (samsköttun).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ingu Torfadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá KPMG og Deloitte.
    Í frumvarpinu er kveðið á um breytingar á 55. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem miða annars vegar að því að heimila dótturfélögum félaga í EES-ríkjum eða í Færeyjum sem staðsett eru hér á landi samsköttun með innlendum samstæðufélögum og hins vegar því að heimila innlendum móðurfélögum að óska eftir takmarkaðri samsköttun með dótturfélögum sínum skráðum innan eins EES-ríkis eða í Færeyjum enda séu öll almenn skilyrði samsköttunar uppfyllt. Með frumvarpinu er brugðist við ábendingum Eftirlitsstofnunar EFTA um samsköttun félaga og nýtingu eftirstöðva rekstrartaps.
    Frumvörp sem lúta að hluta til að sama efni hafa verið lögð fram á síðustu þremur löggjafarþingum, sbr. 4. mál á 151. þingi, 269. mál á 150. þingi og 433. mál á 149. þingi, en ekki náð fram að ganga. Í frumvarpinu sem hér er til meðferðar er ekki fyrir að fara öðrum þáttum en þeim sem beinlínis er ætlað að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Umsögn KPMG um málið er efnislega samhljóða þeirri sem barst um málið í samráðsgátt stjórnvalda 1. október sl. Vísast til umfjöllunar um umsögnina í samráðskafla í greinargerð með frumvarpinu sem og til niðurstöðuskjals ráðuneytisins í samráðsgátt, sbr. mál 182/2021 í gáttinni. Benda má á að ætlunin með frumvarpinu er eingöngu að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA en ekki að taka ákvæði um samsköttun félaga til gagngerrar endurskoðunar. Ábendingar KPMG kunna hins vegar að gefa tilefni til slíkrar endurskoðunar og hvetur nefndin til þess að þær verði hafðar til hliðsjónar þegar að þeirri vinnu kemur, sem krefst ígrundaðrar yfirferðar og víðtækara samráðs. Hið sama á við um umsögn Deloitte til nefndarinnar en í henni kemur m.a. fram að efni frumvarpsins sé almennt til bóta og að í frumvarpinu felist jákvæð skref þótt unnt sé að gera betur.
    Nefndin leggur til tæknilegar breytingar á frumvarpinu sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Inngangsmálsliður b-liðar orðist svo: 5. mgr. orðast svo.
     b.      Í stað orðsins „tapsnýtingar“ í 3. málsl. b-liðar komi: nýtingar taps.
     c.      Í stað orðsins „leiða“ í 4. málsl. b-liðar komi: reikna.
     d.      C-liður falli brott.

Alþingi, 20. desember 2021.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Daði Már Kristófersson. Diljá Mist Einarsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Halldóra Mogensen. Jóhann Páll Jóhannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.