Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 208  —  164. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir og lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (fjárhagslegar viðmiðanir og lykilupplýsingaskjöl).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Benedikt Hallgrímsson og Gunnlaug Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Jónu Björk Guðnadóttur, Yngva Örn Kristinsson, Hallgrím Ásgeirsson, Magnús Fannar Sigurhansson og Hjördísi Gullu Gylfadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum sem fjalla um vísitölur á fjármálamarkaði til að forðast óvissu um hvað komi í stað vísitalna sem hætt verður að birta eftir lok árs 2021. Þá er með frumvarpinu lagt til að framlengd verði til ársloka 2022 undanþága frá lögum um upplýsingagjöf til fjárfesta. Breytingarnar endurspegla nýlegar breytingar á Evrópugerðum sem lögin byggjast á.

Umfjöllun nefndarinnar og breytingartillögur.
Undanþáguheimild 3. gr. frumvarpsins.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er lagt til að undanþáguheimild 3. gr. frumvarpsins, til að bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti, verði látin eiga almennt við þegar þess er þörf til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðunar sem samningur styðst við, en takmarkist ekki við vaxtaviðmiðanir sem koma í stað vaxtaviðmiðana sem eru lagðar af eða verða ónothæfar.
    Að mati meiri hlutans gæti án slíkrar heimildar orðið erfitt fyrir íslensk fjármálafyrirtæki að styðjast við nýjar alþjóðlegar vaxtaviðmiðanir, sem miðast við dagvexti, í samningum sem eru til lengri tíma en eins dags. Leggur meiri hlutinn til að ákvæðinu verði breytt á þann hátt að heimilað verði að bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti ef þess er þörf til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðunar.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands til nefndarinnar er á það bent að túlka megi 3. gr. frumvarpsins á þann hátt að hún heimili að vöxtum sé bætt við höfuðstól oftar en einu sinni á ári ef samningur miðast við vaxtaviðmiðun sem kemur í stað vaxtaviðmiðunar sem er lögð af eða verður ónothæf, jafnvel þótt um sé að ræða nýjan samning en ekki samning sem hefur áður stuðst við vaxtaviðmiðun sem er lögð af eða verður ónothæf. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er tekið undir ábendingu Seðlabankans. Líkt og að framan greinir leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæðinu og telur að með henni sé tryggt að ekki leiki vafi á um túlkun þess.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á heiti frumvarpsins sem ekki hefur efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Efnisgrein 3. gr. orðist svo, ásamt fyrirsögn:

Höfuðstólsfærsla vaxta samkvæmt vaxtaviðmiðun.

                      Þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, má bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti ef þess er þörf til að endurspegla virka vexti vaxtaviðmiðunar.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins verði:  Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir og lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (vísitölur á fjármálamarkaði og upplýsingagjöf til fjárfesta).

Alþingi, 20. desember 2021.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Daði Már Kristófersson. Diljá Mist Einarsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir.