Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 220  —  174. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021, sbr. lög nr. 78/2021.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í inngangskafla greinargerðar frumvarps þessa er eðli fjáraukalaga lýst:
    „Fjáraukalögum er afmarkað mjög skýrt hlutverk og efni í lögum um opinber fjármál. Í því felst að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir skuli koma fram í fjárlögum. Í fjáraukalögum verði hins vegar einungis leitað heimilda til að bregðast við útgjaldatilefnum sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga en sýnt þyki að útgjöldin falli til á árinu og að ríkissjóður komist ekki hjá að greiða þau.“
    Meðal ófyrirséðra gjalda sem ríkissjóður kemst ekki hjá að greiða og mælt er fyrir um í þessu frumvarpi eru 8,5 milljarðar kr. í aukafjármagnskostnað. Sá kostnaður er að uppistöðu vegna vanmats á verðbólgu á árinu.
    Fjármagnskostnaður ríkissjóðs var 3,5 milljörðum kr. lægri í fyrra en ef af allri lántökunni sem stefnt var að hefði orðið, því afkoma ríkissjóðs var betri en vonir stóðu til. Á móti þessu vega tæpir 10 milljarðar kr. vegna meiri verðbóta því efnahagsviðsnúningur hefur verið ójafn og ber með sér mikinn verðþrýsting, sérstaklega á eignamörkuðum.
    Þá bætast tæpir 4 milljarðar kr. við rekstrarkostnað vegna verðlagshækkana sem færast yfir á fjárlög 2022. Beinn aukakostnaður ríkissjóðs á þessu ári vegna meiri verðbólgu en við var búist þegar síðustu fjárlög voru samþykkt er því rúmlega 13 milljarðar kr.
    Þennan verðbólgukostnað má að nær öllu leyti rekja til fasteignaverðshækkana, enda skýrir hækkun íbúðaverðs nær alla aukaverðbólgu í landinu umfram spár. Verðbólgan er að miklu leyti til afleiðing af hagstjórnarákvörðunum ríkisstjórnarinnar sem hefur með afstöðuleysi sínu gagnvart íbúðamarkaði skapað ójafnvægi í hagkerfinu, bæði til lengri og skemmri tíma. Sérstaklega sköpuðu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í COVID-faraldrinum aðstæður sem ýktu vandann á húsnæðismarkaði. Þetta ójafnvægi bitnar hvað harðast á viðkvæmustu hópum samfélagsins sem finna verulega fyrir verðlagshækkunum og íbúðaverðshækkunum.
    Rök 2. minni hluta fyrir fjárheimild til viðbótareingreiðslu til öryrkja fyrir jólin má rekja til framangreinds ástands: líkt og ríkissjóður kemst ekki hjá því að greiða sinn eigin kostnað vegna viðbótarverðbólgu kemst ríkissjóður ekki heldur hjá því að bregðast við neyð viðkvæmra hópa í samfélaginu vegna hækkandi verðlags í landinu. Þá er ljóst að tekjulágir hópar hafa ekki mikið svigrúm til að bregðast við breyttum aðstæðum vegna sóttvarnaaðgerða sem eru enn í fullum gangi.
    Annar minni hluti fagnar því að tillaga um 1.200 millj. kr. framlag vegna 53,1 þús. kr. eingreiðslu til örorkulífeyrisþega, sem undirrituð og fleiri stóðu að við 1. umræðu um frumvarp þetta, hafi verið tekin til skoðunar hjá meiri hlutanum og ákvörðun tekin um að öll fjárlaganefnd flytti breytingartillögu um viðbótargreiðslu til öryrkja og einstaklinga á endurhæfingarlífeyri fyrir jól.

Alþingi, 20. desember 2021.

Kristrún Frostadóttir.