Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 221  —  174. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021, sbr. lög nr. 78/2021.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    Frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram á Alþingi 13. desember sl. Frumvarpið gekk til fjárlaganefndar 15. desember og því gefst óvenjustuttur tími til umfjöllunar um efni þess í nefndinni. Þótt stuttur tími sé til stefnu þá er engu að síður hægt að gera mikilvægar breytingar á frumvarpinu til hins betra. Eins og fram kemur í frumvarpinu er afkoma ríkissjóðs talsvert betri en gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga fyrir ári síðan. Skýrist það m.a. af hröðum efnahagsbata og lækkandi atvinnuleysi. Tekjur ríkissjóðs eru 63 milljörðum kr. hærri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Því er til staðar svigrúm til úrbóta handa samfélagshópum sem ekki hafa fengið viðeigandi stuðning stjórnvalda í heimsfaraldrinum. Öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafa orðið fyrir miklum neikvæðum áhrifum, bæði andlegum og fjárhagslegum. Margir hafa þurft að einangra sig vegna undirliggjandi sjúkdóma og vegna sóttvarnaráðstafana hefur ýmis þjónusta raskast. Þá hefur verðbólga aukist til muna undanfarið og bitnar það verst á þeim sem hafa lágar tekjur.
    Flokkur fólksins fagnar því að samstaða hafi náðst um að greiða öryrkjum jólabónus, 53.100 kr., skatt- og skerðingarlaust. Marga munar svo sannarlega um þessa viðbót. Ríkisstjórnin hafði svo gott sem þvertekið fyrir að greiða uppbótina en eftir mikla baráttu Flokks fólksins og flokka í stjórnarandstöðu og ákall frá þúsundum öryrkja um hjálp er sigur í höfn.
    En það er ekki nóg að tryggja öryrkjum eingreiðslu fyrir jólin. Fjöldi ellilífeyrisþega lifir undir fátæktarmörkum og á erfitt með að ná endum saman, sérstaklega um jólin þegar kaupa þarf gjafir og jólamat. 3. minni hluti fjárlaganefndar leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að sama viðbót, 53.100 kr., verði greidd til þess hóps ellilífeyrisþega sem minnstar tekjur hafa. Því er lögð til breyting á útgjaldahlið frumvarpsins þess efnis að þrjár neðstu tekjutíundirnar fái eingreiðslu fyrir sömu upphæð.
    Þriðji minni hluti leggur einnig til að hjálparsamtök sem annast matarúthlutanir fái styrk úr ríkissjóði. Þessi samtök sinna mikilvægu hlutverki og aðstoða fátækar fjölskyldur í sinni sárustu neyð. Eftirspurnin er alltaf mest um jólin og samtökin vilja gjarnan gefa meira en þau geta. Stuðningur við hjálparsamtök sem annast matarúthlutanir er stuðningur sem skilar sér til fjölskyldna sem þurfa mest á hjálp að halda. Hjálpum öllum að halda gleðileg jól.

Alþingi, 21. desember 2021.

Eyjólfur Ármannsson.