Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 223  —  154. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, (framlenging á gildistíma).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástríði Scheving Thorsteinsson og Valgerði B. Eggertsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Sigurð Kára Árnason frá heilbrigðisráðuneytinu, Ingólf Friðriksson frá utanríkisráðuneytinu, Skarphéðin Berg Steinarsson frá Ferðamálastofu, Jóhannes Þór Skúlason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Guðmund Ólafsson frá Icelandair, Arnar Magnússon og Jóhann Pétur Harðarson frá Play air, Karl Alvarsson og Guðmund Daða Rúnarsson frá Isavia og Sigrúnu Henríettu Kristjánsdóttur og Völu Hrönn Viggósdóttur frá Samgöngustofu.
    Nefndinni bárust upplýsingar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og minnisblað frá ríkislögreglustjóra. Nefndin sendi tillögu að breytingu á frumvarpinu til umsagnaraðila og barst sameiginleg umsögn um þá breytingu frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Isavia, Icelandair og Play air.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða V í lögum um loftferðir verði framlengdur til 1. júlí 2022 en ákvæðið hefði að óbreyttu fallið úr gildi 31. desember 2021. Ákvæðið hefur að geyma heimild ráðherra til að kveða á um tímabundnar skyldur flug rekenda/umráðenda loftfars til að tryggja sóttvarnir með reglugerð þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi og almannaheilbrigði krefst. Þær skyldur eru afmarkaðar í ákvæðinu og ná til þess að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn COVID-19, vottorð um að COVID-19 sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn COVID-19 áður en farið er um borð í loftfar enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga. Þá getur ráðherra kveðið á um skyldu til að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu. Skv. 2. mgr. ákvæðisins tekur sú skylda þó ekki til íslenskra ríkisborgara.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Eftir að frumvarpinu var vísað til nefndarinnar boðaði Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í formlegu áminningarbréfi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 15. desember sl. samningsbrotamál á hendur íslenska ríkinu. Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins hefur ESA átt í samskiptum við íslensk stjórnvöld vegna ákvæðis til bráðabirgða V í lögum um loftferðir. Í bréfi ESA kemur fram að EES-ríkjum er heimilt að takmarka för EES-borgara með það að markmiði að ná tökum á COVID-19 faraldrinum en slíkar takmarkanir þurfa m.a. að grundvallast á reglum um meðalhóf og jafnræði. ESA óskaði rökstuðnings íslenskra stjórnvalda fyrir því af hverju reglurnar tækju ekki til allra EES-borgara sem hafa löglega búsetu á Íslandi en vísar í bréfi sínu til þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti hvernig aðgerðirnar grundvallist á meðalhófi og samrýmist reglum EES-réttar. Þá kemur fram í bréfi ESA að aðgerðirnar séu með þeim hætti að þær fari í m.a. bága við EES-löggjöf sem tryggir aðstoð og bætur til farþega sem er neitað um far.
    Á fundi nefndarinnar með gestum komu fram ýmsar athugasemdir við gildandi regluverk, m.a. um að ekki hefði verið náð þeim markmiðum ákvæðis til bráðabirgða V í lögum um loftferðir að minnka þörf á tvöfaldri skoðun gagna sem farþegar þurfa að framvísa, þ.e. er við byrðingu og við komuna til landsins. Fyrirkomulagið eins og það væri eftir gildistöku ákvæðisins hefði í för með sér flöskuhálsa, ylli töfum og neikvæðri upplifun farþega og leiddi til hópamyndana sem hefðu í för með sér aukna smithættu. Nauðsynlegt væri að tryggja að meginreglan yrði að gögn yrðu aðeins skoðuð á einum stað.
    Meiri hlutinn telur rétt að bregðast við þeim ábendingum sem fram komu í áminningarbréfi ESA þannig að sjónarmiðum sem þar koma fram um meðalhóf og jafnræði sé mætt. Jafnframt tekur meiri hlutinn undir ábendingar um að nauðsynlegt sé að breyta þeirri framkvæmd sem er við lýði að gögn allra farþega sæti skoðun bæði við byrðingu sem og við komuna til landsins líkt og markmiðið var með setningu ákvæðisins.

Breytingartillaga nefndarinnar.
    Í samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið leggur nefndin til breytingar á ákvæði til bráðabirgða V í lögum um loftferðir sem ætlað er að mæta framangreindum sjónarmiðum.
    Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að í stað þess að ráðherra verði heimilt að kveða á um skyldu flugrekenda til að synja farþega um flutning sem hvorki hefur forskráð sig né getur framvísað tilskildum gögnum verði heimilt að kveða á um skyldu flugrekenda til að tilkynna íslenskum löggæsluyfirvöldum, innan tilgreinds tíma, um slíka farþega, nafn þeirra, vegabréfsnúmer og flugnúmer, sem eru á leið til landsins. Sú skylda taki jafnt til allra farþega óháð þjóðerni og leggur nefndin til að samhliða falli brott undanþáguákvæði 2. mgr. Með því að afmarka þær persónuupplýsingar sem ákvæðið varðar með tæmandi talningu við upplýsingar sem ekki teljast vera viðkvæmar persónuupplýsingar sem og því að upplýsingunum skuli eingöngu miðlað til löggæsluyfirvalda, telur meiri hlutinn að gætt sé meðalhófs og að ákvæðið standist kröfur sem löggjöf og reglur á sviði persónuverndar gera. Meiri hlutinn leggur til að í reglugerð verði kveðið á um innan hvaða tímamarka tilkynning til löggæsluyfirvalda þarf að berast. Til að ákvæðið nái markmiði sínu þarf slík tilkynning að berast áður en viðkomandi farþegi lendir hér á landi. Er það m.a. ljóst með hliðsjón af varnaðaráhrifum auk þess sem það er forsenda þess að unnt verði að láta af tvöfaldri skoðun vottorða allra farþega.
    Í öðru lagi verði heimilt að gera flugrekendum skylt að upplýsa viðkomandi farþega um afleiðingar þess geti þeir ekki framvísað framangreindum gögnum við komuna hingað til lands, sem geta til að mynda verið sektir eða brottvísun við komu á grundvelli sóttvarnalaga, nr. 19/1997. Telur meiri hlutinn að með þessu móti séu varnaðaráhrif ákvæðisins nægilega tryggð. Gert er ráð fyrir að skylda flugrekenda til að kanna forskráningu og vottorð farþega verði óbreytt.
    Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 4. mgr. ákvæðisins þannig að stjórnvaldssektir sem Samgöngustofa hefur heimild til að leggja á beinist að flugrekanda/umráðanda loftfars en ekki einstaklingi eða lögaðila.
    Meiri hlutinn telur að með framangreindum breytingum sé komið til móts við athugasemdir ESA m.a. hvað varðar meðalhóf og jafnræði. Þá áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að sú vinnsla og miðlun persónuupplýsinga sem af þessu hlýst þurfi að vera í fullu samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og að reglugerð ráðherra sem er sett á grundvelli 1. mgr. m.a. þurfi að taka mið af því.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið þess efnis að þær tímabundnu skyldur sem ráðherra er heimilt að leggja á flugrekendur samkvæmt ákvæðinu eru íþyngjandi. Við setningu reglugerðar á grundvelli ákvæðisins, sem og við lögbundna endurskoðun reglugerðar sem fara skal fram eigi sjaldnar en á fjögurra vikna fresti skv. 3. mgr. ákvæðisins, er því nauðsynlegt að gæta meðalhófs og rökstyðja þörfina til þess að beita heimildinni.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að leitað verði tæknilegra lausna, svo sem varðandi forskráningu farþega og stafrænar innritunarlausnir, sem miði að því að gera eftirfylgni við reglugerð setta á grundvelli ákvæðisins sem minnst íþyngjandi í framkvæmd fyrir flugrekendur og farþega. Nauðsynlegt er að tæknilausnir íslenskra yfirvalda séu samrýmanlegar stafrænum lausnum flugrekenda þannig að kerfin getið unnið saman og skilað sem bestri virkni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum:
     a.      B-liður 1. mgr. orðast svo: Skyldu flugrekanda/umráðanda loftfars til að tilkynna löggæsluyfirvöldum hér á landi, innan tilgreinds tíma, um nafn farþega, vegabréfsnúmer og flugnúmer, enda hafi farþegi ekki forskráð sig eða framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Skyldu flugrekanda/umráðanda loftfars til að upplýsa farþega um afleiðingar þess ef farþegi hefur ekki forskráð sig eða framvísað vottorði eða staðfestingu skv. a-lið.
     c.      2. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „einstakling eða lögaðila fyrir brot“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: flugrekanda/umráðanda loftfars ef hann brýtur.
     e.      9. mgr. orðast svo:
                      Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. júlí 2022.

Alþingi, 21. desember 2021.

Vilhjálmur Árnason,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Bjarni Jónsson. Helga Vala Helgadóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.