Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 225  —  188. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Barna- og fjölskyldustofu og lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (flutningur starfsmanna).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Tryggvadóttur, Ernu Kristínu Blöndal og Gissur Pétursson frá félagsmálaráðuneyti. Nefndinni barst umsögn frá BHM og minnisblað frá félagsmálaráðuneytinu.
    Við gildistöku laga um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, og laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, hinn 1. janúar 2022 verða lagðar niður tvær stofnanir, annars vegar Barnaverndarstofa og hins vegar ráðuneytisstofnunin Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar. Við gildistökuna munu fyrrgreindar stofnanir taka yfir verkefni síðarnefndu stofnananna. Frumvarp þetta kveður á um að störf hjá Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar verði flutt til hinna nýju stofnana með því að þær yfirtaki gildandi ráðningarsamninga við þá starfsmenn sem eru í starfi við gildistöku laga nr. 87/2021 og laga nr. 88/2021.
    BHM lýsir í sinni umsögn áhyggjum af því að breytingar á verkefnum leiði til þess að starfi verði breytt það mikið að það verði mögulega lagt niður eða starfsmönnum sagt upp. Í minnisblaði sem nefndinni barst frá félagsmálaráðuneytinu kemur fram að af hálfu ráðuneytisins er lögð rík áhersla á að engum starfsmanni Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar verði sagt upp um áramótin á þeim grundvelli að starf hans hafi verið lagt niður. Þá áréttar nefndin að í frumvarpinu kemur fram að ráðningarkjör starfsmanna verða þau sömu hjá nýjum stofnunum og ráðningarkjör þeirra hjá Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar. Tekur nefndin undir mikilvægi þess að réttarstaða starfsmanna verði tryggð á fyrrgreindan hátt og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 21. desember 2021.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Halldóra Mogensen. Jódís Skúladóttir. Viktor Stefán Pálsson.