Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 232  —  1. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Frumvarp þetta, fyrsta fjárlagafrumvarp kjörtímabilsins, er einkennandi fyrir ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Frumvarpið berst til þingsins allt of seint. Efni þess er að mestu leyti óbreytt frá síðustu fjárlögum. Í því er engin svör að finna við alvarlegum vandamálum í ríkisrekstri. Miklu púðri er eytt í að fegra aðgerðir ríkisstjórnarinnar og draga hulu yfir hið neikvæða. Fátækt fólk er skilið eftir eina ferðina enn. Kosningaloforð eru virt vettugi.
    Einkenni ríkisstjórnarsamstarfs sömu flokka á því kjörtímabili sem leið voru sífelldar tafir á þörfum umbótum, engin viðleitni til að taka á vaxandi rekstrarvanda heilbrigðiskerfisins, forgangsröðun ríkisfjármála í þágu útvalinna á kostnað fólksins og loks síendurteknir frasar um eigið ágæti. Frumvarp til fjárlaga ber þess merki að ríkisstjórnin muni halda sig við sömu áherslur á komandi árum.
    Þjóðin er að klofna í tvennt. Kjaragliðnun vex. Öryrkjar og eldra fólk getur ekki náð endum saman. Ungt fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkað án aðstoðar foreldra. Á meðan hækka ofurlaunin og stéttaskipting eykst. Brátt verða í landinu tvær þjóðir, eigendur og leigjendur, verði ekkert aðhafst. Við getum varla státað okkur af því að búa í norrænu velferðarsamfélagi þegar þúsundir bíða í röðum eftir matarúthlutunum. Hvað þá þegar heilbrigðiskerfið getur ekki tekið við einu rútuslysi án þess að allt fari í bál og brand. Frumvarp til fjárlaga boðar ekki raunverulegar breytingar í þágu fólksins, síður en svo. Öll áhersla er lögð á að viðhalda óbreyttu ástandi, vaxandi ójöfnuði, stöðnun og hnignun.

Staðan í ríkisfjármálum.
    Fagnaðarefni er hversu vel hefur gengið að vinna upp þann mikla samdrátt sem heimsfaraldurinn COVID-19 olli. Halli í ríkisrekstri verður minni í ár en fjárlög gerðu ráð fyrir og atvinnuleysi hefur minnkað. Samstaða var á Alþingi um mikilvægar efnahagsaðgerðir, eins og fjárfestingarátak í vegakerfinu, skattaívilnanir vegna átaksins „Allir vinna“ og atvinnusköpun í gegnum verkefnið „Hefjum störf“. Þessar aðgerðir, ásamt fjölgun ferðamanna og loðnuvertíð höfðu jákvæð áhrif á atvinnustig, gengisstyrk og hagvöxt.
    Á næsta ári er spáð 5,3% hagvexti og halli ríkissjóðs dregst verulega saman. Engu að síður eru ýmsir þættir sem valda áhyggjum. Þar ber helst að nefna vaxandi verðbólgu, en einnig verður að líta til þess að atvinnuleysi hefur staðið í stað undanfarna mánuði. Þá er ómíkron-afbrigði COVID-19 í vexti og nágrannaþjóðir spá fjölgun smita á næstu mánuðum. Frekari bylgjur heimsfaraldursins hafa neikvæð áhrif á hagkerfið og ríkisfjármál auk þess sem þær ógna lífi og heilsu fólks. Vonandi tekst okkur að halda faraldrinum í skefjum, en ljóst er að ómíkron-afbrigðið getur hæglega sett strik í reikninginn.
    Hagstofan spáir 3,3% verðbólgu á næsta ári. Verðbólgan mælist 4,8% og hefur mælst yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt frá því að COVID-19 barst til landsins. Ísland er ekki einsdæmi hvað þetta varðar, en verðbólga mælist nú 6,8% í Bandaríkjunum og 4,9% á Evrusvæðinu. Heimsfaraldurinn COVID-19 hefur valdið röskun á framleiðslukeðjum og vöruskortur hefur í kjölfarið leitt til verðhækkana.
    Húsnæðisverð hefur hækkað víða um heim og þar er Ísland engin undantekning. Framboð á húsnæði hefur minnkað undanfarið og því seljast eignir hraðar en nokkru sinni fyrr og nær undantekningarlaust á yfirverði. Það hefur mjög skaðleg áhrif á samfélagið þegar húsnæðisverð hækkar jafnmikið á svo skömmum tíma og raun ber vitni. Tekjuháir og eignafólk auðgast en erfiðara verður fyrir tekjulága og millitekjufólk að komast inn á húsnæðismarkað. Ungt fólk í þessum hópum getur ekki keypt sér íbúð án þess að njóta aðstoðar frá foreldrum. Þá hækka íbúðir svo hratt í verði að reglulegur sparnaður dugar ekki fyrir aukningunni.
    Hið opinbera er farið að finna fyrir skaðlegum áhrifum verðbólgu. Í frumvarpi til fjáraukalaga kemur fram að skuldir ríkissjóðs hafi aukist um 15,6 milljarða kr. á árinu vegna verðbóta. Þetta hefur leitt til aukinna vaxtagjalda ríkissjóðs og hækkunar á fjárheimildum. Heimilin fá enga slíka aukningu og aðstoð. Þeirra fjárhagur versnar og versnar án nokkurra úrræða. Verði ekki gripið til aðgerða er hættan sú að fjöldi fólks missi heimili sín og ævisparnað, líkt og gerðist í kjölfar hrunsins 2008.

Fjárlög eða drög.
    Athyglisvert er hve vandfundnar áherslur nýrrar ríkisstjórnar eru í fjárlagafrumvarpinu. Fjárlagafrumvarpið sem hér er til umfjöllunar tekur við þar sem frá var horfið og er beint framhald síðasta fjárlagafrumvarps. Fjárlögin eru að nær öllu leyti óbreytt milli ára. Helstu breytingar á milli ára eru launa- og verðlagsuppfærslur og lækkun heimilda vegna tímabundinna verkefna sem tengdust heimsfaraldrinum. Þetta er athyglisvert í ljósi nýs stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í sáttmálanum eru fögur fyrirheit um ýmsar aðgerðir en aðgerðirnar virðast ekki hafa ratað inn í frumvarp til fjárlaga.
    Í nýrri ríkisstjórn sitja sömu flokkar og sátu þar á síðasta kjörtímabili. Flestir ráðherrarnir halda störfum þó að einhver stólaskipti hafi átt sér stað. Tveir mánuði liðu frá kosningum og þar til fjárlögin litu dagsins ljós án þess að nokkur ný verkefni hafi ratað þangað inn. Hvar eru ummerki hins nýja stjórnarsáttmála? Að undanförnu hefur borist fjöldi fregna um aðkallandi vanda í ríkisrekstri. Hvar eru lausnirnar? Ekki í þessu frumvarpi.

Framsetning fjárlaga.
    Með öllu er ólíðandi hve erfitt er að fá yfirsýn og svör við grundvallarspurningum um ríkisfjármál í fjárlagafrumvarpinu. Miklu púðri er eytt í að draga upp sem besta mynd af ríkisfjármálunum og árangri fyrri aðgerða.
    Í umfjöllun um einstök málefnasvið er almennt stiklað á stóru um breytingar fjárheimilda á milli ára og ýmist vísað til þess að fjárheimildir séu innan ramma eða að tímabundin verkefni falli niður. Við nánari athugun kemur síðan í ljós að verið er að skera niður fjárframlög í tiltekin verkefni. Hvers vegna er þetta ekki sagt berum orðum? Það er sérstaklega ámælisvert þegar niðurskurður er falinn með þessum hætti í fjárlagafrumvarpi sem kemur fram svo seint á árinu. Þá gefst minni tími til þess að gera athugasemdir og leiðréttingar.
    Mikið vantar upp á í umfjöllun um upplýsingar um fjármál einstaka stofnana. Töluverð vinna fer í að athuga hvort stofnanir séu í raun að fá þær fjárheimildir sem þær telja sig þurfa til að halda áfram óbreyttum rekstri. Þá er mjög erfitt að ganga úr skugga um hvort einstaka verkefni séu fjármögnuð að fullu, og þegar jafn stuttur tími er til afgreiðslu fjárlaga og raun ber vitni þá gefst einfaldlega ekki nægur tími í slíka vinnu.
    Fjármála- og efnahagsráðherra leiddi þær kerfisbreytingar sem innleiddar voru með setningu laga um opinber fjármál. Eitt meginmarkmið þeirra breytinga var að auka gagnsæi í ríkisfjármálum. Framsetning þessa frumvarps vinnur bersýnilega gegn því markmiði.

Umsagnir um frumvarp til fjárlaga.
    Fjöldi umsagna barst um frumvarpið þótt lítill tími hafi gefist til umfjöllunar. Það er athyglisvert að jafnvel þó að fjárlagafrumvarpið hafi ekki litið dagsins ljós fyrr en í desember hafa borist fleiri umsagnir um það en bárust við nokkurt fjárlagafrumvarp síðasta kjörtímabils. Það gefur til kynna að frekari leiðréttinga sé þörf en almennt gengur og gerist. Enda er það yfirleitt svo að umsagnir eru lagðar fram í þeim tilgangi að benda á atriði sem þarfnast lagfæringar eða til að kalla eftir breytingum.
    Umsagnir bárust frá opinberum stofnunum, sveitarfélögum, verkalýðshreyfingunni og ýmsum hagsmunasamtökum, t.d. Öryrkjabandalaginu, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp og Geðhjálp. Rauði þráðurinn í umsögnum framangreindra aðila var gagnrýni á grunnþætti fjárlagafrumvarpsins, ábendingar um að fjármagn skorti í ákveðnum málaflokkum og ákall eftir forgangsröðun fjármuna í þágu samfélagslega mikilvægra verkefna. Einnig bárust umsagnir frá hagsmunasamtökum fjármagnseigenda, þ.e. Viðskiptaráði, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum atvinnulífsins og fleiri góðvinum ríkisstjórnarinnar. Eins og venjan er lofuðu þessir aðilar allar aðgerðir sem þjóna hagsmunum fyrirtækja og eigenda þeirra en gagnrýndu jafnframt útgjaldaaukningu og hallarekstur.
    Sérstakt áhyggjuefni er hve margar ábendingar bárust um fjárskort í tilteknum málaflokkum. Í umsögn Landspítalans kemur fram að nærri 2 milljarða kr. vanti upp á fjárveitingar til að viðhalda sama þjónustustigi. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu benda á að um áramótin skerðist rekstrarframlag ríkisins til hjúkrunarheimila um 1 milljarð kr. Þá hafa rekstrarframlög ríkissjóðs ekki tekið breytingum til samræmis við hjúkrunarþyngd, sem eykst ár frá ári.
    NPA-miðstöðin missir að óbreyttu framlag upp á 300 millj. kr. um áramótin. Fjöldi fólks bíður eftir notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) en fjármagn vantar fyrir fleiri NPA-samningum.
    SÁÁ, sem reka nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, þurfa að reiða sig á sjálfsaflafé til að fjármagna rekstur sjúkrahússins Vogs. Samtökin hættu þátttöku í rekstri spilakassa og hafa orðið fyrir tekjufalli vegna þess. Spilafíkn er skaðlegur sjúkdómur sem mikilvægt er að vinna gegn. Mikið ánægjuefni er því að SÁÁ hafi sagt skilið við slíkan rekstur. Fíkn er sjúkdómur sem veldur ekki aðeins einstaklingnum og fjölskyldu hans skaða, heldur samfélaginu öllu. Ríkið verður að greiða fullt verð fyrir þessa nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu. Það er fjárfesting sem skilar samfélaginu margföldum ávinningi.
    Geðhjálp ítrekar í umsögn sinni mikilvægi geðheilbrigðisþjónustu, sérstaklega á tímum heimsfaraldurs. Samtökin veittu á síðasta ári sálfræðiþjónustu fyrir 28 millj. kr. Þau gagnrýna að ekki standi til að setja nema 100 millj. kr. í niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu af hálfu ríkisins. Alþingi samþykkti á síðasta kjörtímabili að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en ríkisstjórnin hefur ekki tryggt viðhlítandi fjármagn til verkefnisins. Í ljósi þess hve mikil eftirspurn er eftir sálfræðiþjónustu duga 100 millj. kr. skammt.
    Öryrkjabandalag Íslands, Landssamband eldri borgara, Landssamtökin Þroskahjálp, BSRB, ASÍ og fleiri gagnrýndu harðlega að ekki standi til að hækka lífeyri almannatrygginga til samræmis við launaþróun líkt og kveðið er á um í 69. gr. laga um almannatryggingar. Röngum mælikvörðum er beitt í frumvarpinu til að ákveða árlega hækkun lífeyris og sú uppfærsla sem frumvarpið leggur til heldur hvorki í við launavísitölu né kjarasamningsbundnar hækkanir lágmarkslauna. Undanfarna áratugi hefur bilið á milli launa og lífeyris aukist. Kjaragliðnun þessi mælist nú í tugum prósenta og nauðsynlegt er að grípa þegar í stað til aðgerða.
    Framangreindar ábendingar lúta allar að því að fjármagn skorti til að sinna opinberri þjónustu í velferðarmálum. Hér er ekki um að ræða ákall eftir styrkjum heldur ákall eftir nauðsynlegu fjármagni inn í rekstrargrunninn. Þörf er á umfangsmiklum breytingum á frumvarpi til fjárlaga að þessu leyti.

Tillögur ríkisstjórnarflokkanna.
    Meiri hluti fjárlaganefndar hefur kynnt breytingartillögur sínar. Í mörgum atriðum er um að ræða breytingar vegna uppfærðra áætlana þó að ákveðnar breytingar megi rekja til ákvarðana ríkisstjórnarinnar, vinnu fjárlaganefndar eða ábendinga umsagnaraðila.
    Vegna uppfærðra áætlana eru gerðar breytingartillögur á útgreiðslum Fæðingarorlofssjóðs, 1.627 millj. kr., lækkun um 450 millj. kr. vegna lægra nýgengis örorku, vaxtabætur lækka um 400 millj. kr. og endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar aukast um 1.259 millj. kr.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er að finna ýmsar tillögur sem tengjast stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Umfangsmestu tillögurnar eru vegna aðgerða gegn kynferðisbrotum, 200 millj. kr., markaðsátakið „Saman í sókn“, 100 millj. kr. til að fjölga lögreglumönnum og nemendum í lögreglunámi og 80 millj. kr. til að efla geðheilbrigði í skólum. Ráðherrakapallinn er engu að síður langumfangsmesta aðgerðin sem tengist stjórnarsáttmálanum, en auka þarf fjárheimildir um rúman hálfan milljarð króna vegna kapalsins.
    Meiri hluti fjárlaganefndar ætlar að bregðast við ýmsum ábendingum umsagnaraðila. Fjárheimildir eru hækkaðar til að mæta auknum kostnaði sem fellur til vegna betri vinnutíma, í vaktavinnu og styttingu vinnuvikunnar. Hætt var við niðurskurð á rekstrarframlagi til hjúkrunarheimila upp á 1 milljarð kr. Einnig virðist sem svo að fjárheimildir til VIRK hafi verið 200 milljónum kr. lægri í upphaflegu frumvarpi en samkvæmt samningi og er það misræmi leiðrétt. Þá er fallið frá áformum frumvarpsins um niðurskurð á fjárveitingum til NPA þjónustu. Fjárheimildir eru auknar um 850 millj. kr. til að fjölga sjúkrarýmum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Sú aukning á að létta álagið á Landspítalanum vegna faraldursins. Þá eru færðar 750 millj. kr. af safnlið og liðum vegna lyfjakostnaðar. Þetta er betra en ekki neitt, en engu að síður langt frá þeirri tölu sem Landspítalinn leggur til í eigin umsögn og telur að þurfi til að viðhalda óbreyttum rekstri.
    Það veldur vonbrigðum að ekki hafi náðst samstaða í nefndinni um að gera meiri breytingar en raun ber vitni til að bæta velferðarkerfið. Tillögur meiri hlutans eru að mestu leiti til þess fallnar að breyta frumvarpinu til hins betra, en betur þarf ef duga skal.

Eflum heilbrigðiskerfið.
    Rekstrarvandi heilbrigðiskerfisins er augljós. Stór hluti þjóðarinnar hefur ítrekað kallað eftir því að heilbrigðiskerfið fái fjármagn til samræmis við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum, 11% af vergri landsframleiðslu. Við erum langt frá því að ná því markmiði. Á komandi árum þarf að ráðast í gagngerar breytingar á þessu sviði og fjármagn þarf að fylgja. Yfir 100 manns með færni- og heilsumat bíða eftir útskrift af Landspítalanum og dvelja því í dýrasta úrræði sem völ er á.
    Mannekluvandinn á Landspítalanum vex ár frá ári og starfsfólk er undir miklu álagi. Þá er umbunin ekki mikil fyrir fólkið sem hefur staðið í eldlínunni gagnvart COVID-19. Í fyrra var jólagjöfin gjafabréf upp á einn skó í Skechers. Í ár verður gjöfin aðeins rausnarlegri, dugar fyrir skóparinu. Starfsfólkið fær að velja á milli gjafabréfs eða að gjöf í þeirra nafni renni til Mæðrastyrksnefndar. Segir það mikið um viðhorf ríkisins til starfsmanna Landspítalans. Á sama tíma fer lítið sem ekkert fjármagn frá ríkinu til góðgerðarsamtaka sem annast matarúthlutanir. Fjölskylduhjálp fær heilar 500.000 kr. Það á sem sagt að fela starfsmönnum ríkisins ábyrgðina á því að fjármagna matarúthlutanir þessi jólin, í vali sínu á jólagjöf.
    Það dugar skammt að byggja hátæknisjúkrahús ef ekki verður ráðin bót á undirliggjandi rekstrarvanda heilbrigðiskerfisins. Það er algjör lágmarkskrafa að Landspítalinn fái það fjármagn sem þarf til að halda óbreyttu þjónustustigi. Þótt fjárheimildir aukist á milli ára fara þær að mestu í umsamdar kjarabætur. Afgangurinn fer í ný verkefni, nánar tiltekið nýja farsóttardeild og rekstur nýrra hjúkrunarrýma. Það er fagnaðarefni að verið sé að opna farsóttardeild og fjölga hjúkrunarrýmum en fjármagn til þessara verkefna gerir lítið til að bæta það sem upp á vantar á öðrum sviðum.
    Í umsögn Landspítalans er kallað eftir því að aðhaldskrafa spítalans falli niður og að fjárheimild verði aukin um 1,4 milljarða kr. Þetta er ekki lausn til langs tíma heldur aðeins það sem þarf til að viðhalda óbreyttu þjónustustigi. Tillögur meiri hlutans lúta að því að færa fjárheimildir milli liða og auka þannig rekstrarfé um 750 millj. kr. Heilbrigðiskerfið stendur ekki svo vel að hægt sé að auka fjárheimildir spítalans með því að taka fé annars staðar frá, t.d. af liðum sem eiga að standa undir lyfjakostnaði. Þetta er sýndarmennska, ekki svar við ákalli spítalans. Í sameiginlegum breytingartillögum Flokks fólksins og annara stjórnarandstöðuflokka er því gerð tillaga um að fella niður aðhaldskröfu Landspítalans og aðhaldskröfu Sjúkrahússins á Akureyri og lagt er til að framlög verði aukin til samræmis við raunvöxt í heilbrigðiskerfinu.
    Fleiri heilbrigðisstofnanir en Landspítalinn kalla eftir auknum fjárheimildum vegna viðvarandi rekstrarvanda. Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni sendu ákall til fjárlaganefndar vegna þess að fjárheimildir fjárlagafrumvarpsins duga ekki til að viðhalda óbreyttum rekstri. Vegna þess leggur Flokkur fólksins til, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, að fjárheimildir til þeirra verði auknar um 100 millj. kr.

Sálfræðiþjónusta fyrir alla.
    Á síðasta kjörtímabili samþykkti Alþingi að sjúkratryggingar skildu taka til nauðsynlegrar sálfræðimeðferðar. Það vakti því mikla furðu þegar fjármálaráðherra tilkynnti í kjölfarið að fjármagn mundi ekki fylgja til verkefnisins. Eftir miklar deilur innan og utan þings féllst ríkisstjórnin loks á að veita 100 millj. kr. til verkefnisins. Ljóst er að 100 millj. kr. duga skammt í þessum efnum. Sem dæmi til viðmiðunar þá stendur til að auka fjárheimildir á sama málefnasviði um 790 millj. kr. vegna aukins tannlæknakostnaðar milli ára. Við verðum að taka af skarið og fjármagna sálfræðiþjónustu með viðeigandi hætti.
    Heimsfaraldurinn hafði umtalsverð neikvæð áhrif á líðan fólks. Börn upplifðu mikla röskun á daglegu lífi og framhaldsskólanemendur misstu af félagsstarfi á mikilvægustu mótunarárunum. Margir einangruðust félagslega og þeir sem voru á viðkvæmum stað fyrir faraldurinn eru verr staddir í dag.
    Greiðsluþátttaka hins opinbera vegna sálfræðiþjónustu á að vera sjálfsagður hlutur. Ellegar er hættan sú að þeir efnaminni geti ekki sótt sér hjálp. Því er í sameiginlegum breytingartillögum stjórnarandstöðunnar lagt til að fjárheimildir hækki um 900 millj. kr. til að fjármagna sálfræðiþjónustu.

Staða hjúkrunarheimila.
    Þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnarflokkanna virðist ekki eiga að ráðast í nauðsynlegar úrbætur í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Hjúkrunarheimilin hafa lengi kallað eftir því að fjárframlög taki mið af aukinni hjúkrunarþyngd. Biðlistar eftir rýmum eru langir sem veldur því að fólk kemur inn á heimilin veikara en áður.
    Stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki virðist ekki taka mið af löngu fyrirséðri öldrun þjóðarinnar. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar dugar engan veginn til að vinna niður biðlistana og illa gengur að ljúka framkvæmdum á tilsettum tíma. Fyrir vikið dvelur fólk lengur í óhentugum úrræðum sem eru auk þess miklu dýrari í rekstri. Þetta ástand er meginástæða þess hve illa gengur að leysa fráflæðisvanda Landspítalans.
    Lausnin er einföld. Byggjum fleiri hjúkrunarheimili og tryggjum fjármagn fyrir rekstri þeirra. Öldrun þjóðarinnar á að vera fagnaðarefni. Við eigum að njóta þess að lifa lengur en fyrri kynslóðir. Þess í stað ætla stjórnvöld að hunsa vandann. Afleiðingarnar eru langir biðlistar og sífelldar deilur milli hjúkrunarheimila, sveitarfélaga og ríkisins um hver eigi að greiða fyrir reksturinn.
    Frumvarp til fjárlaga felur í sér verulega skerðingu á framlögum til hjúkrunarheimila. Rekstrarframlög lækka um 1,1 milljarð kr. milli ára vegna þess að hækkun síðustu fjárlaga er sögð hafa verið tímabundið framlag. Einnig er gerð aðhaldskrafa upp á 400 millj. kr.
    Í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) kemur fram að nauðsynlegt sé að falla frá fyrirhuguðum niðurskurði til að tryggja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila. Einnig þurfi að auka framlög milli ára svo að fjármagn fylgi launa- og verðlagsþróun og aukinni hjúkrunarþyngd.
    Flokkur fólksins fagnar því að til stendur að koma til móts við þessar ábendingar þó aðeins að hluta til. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu telja að fjárþörfin nemi 3 milljörðum kr. en meiri hluti fjárlaganefndar leggur til 1,2 milljarða kr. vegna bættrar vaktavinnu. Þá á að hækka framlag um 1 milljarð kr. í rekstrargrunninn. Samtals eru þetta 2,2 milljarðar kr. Alls óvíst er hvort 1,2 milljarðar kr. duga til að mæta auknum launakostnaði og þá er í rauninni ekki verið að auka framlög í rekstrargrunninn heldur falla frá áformum um niðurskurð milli ára. Vonandi náum við meiri samstöðu þvert á flokka um úrbætur í þessum málaflokki í náinni framtíð. Við verðum að taka okkur á þegar kemur að málefnum aldraðra. Allir eiga skilið áhyggjulaust ævikvöld. Öruggur rekstrargrundvöllur hjúkrunarheimila er lykilþáttur í þeim efnum.

SÁÁ.
    Það hefur lengi verið eitt helsta baráttumál Flokks fólksins að tryggja rekstrargrundvöll SÁÁ. Samtökin veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands, en samningurinn dugar aðeins fyrir hluta af rekstrarkostnaði. Um áramótin fellur niður tímabundið framlag síðustu fjárlaga.
    SÁÁ telja að 380 millj. kr. vanti upp á til þess að geta fullnýtt afkastagetu sjúkrahússins Vogs. Í umsögn SÁÁ við fjárlagafrumvarpið kemur fram að heilbrigðisyfirvöld séu aðeins að nýta 70% af afkastagetu sjúkrahússins Vogs. Á meðan lengjast biðlistar og í dag bíða 600 manns eftir að komast á Vog.
    Samtökin leggja sitt af mörkum til fjármögnunar með hinni árlegu álfasölu, en það er smánarblettur á samfélaginu þegar góðgerðarfélög þurfa að safna fé til að fjármagna sjálfsagða heilbrigðisþjónustu. Ekki þurfa viðsemjendur Vegagerðarinnar að safna peningum til að ljúka við síðustu vegspottana ár hvert. Það er kominn tími fyrir hugarfarsbreytingu í þessum málaflokki.
    Fíknisjúkdómar valda fjölda ótímabærra dauðsfalla ár hvert. Alþingi ber að fjármagna að fullu heilbrigðisþjónustu til þeirra sem þjást af fíknisjúkdómum.
    Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að SÁÁ verði veitt tímabundið framlag upp á 120 millj. kr. Það dugar ekki til. Við verðum að fjármagna þessa heilbrigðisþjónustu með viðeigandi hætti. Samtökin biðja um 380 millj. kr. og því leggur Flokkur fólksins til, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, að framlög hækki um 380 millj. kr. til að fjármagna rekstur SÁÁ.

Öryrkjar og eldra fólk eiga betra skilið.
A. Kjaragliðnun.
    Ár eftir ár hefur ríkisstjórnin virt að vettugi skýr fyrirmæli 69. gr. laga um almannatryggingar. Frumvarp þetta er engin undantekning. Lögin setja það skilyrði að lífeyrir almannatrygginga skuli fylgja launaþróun. Launaþróunin liggur fyrir. Launavísitala hefur hækkað um 7,5% á ársgrundvelli. Í stað þess að leggja launavísitölu til grundvallar er í fjárlagafrumvarpinu miðað við meðaltaxtahækkanir og lögð til 3,8% hækkun lífeyris á milli ára. Ofan á þessa hækkun hefur fjármálaráðherra bætt 0,8% vegna þess að uppfærsla síðustu fjárlaga hélt ekki í við verðbólgu. Samanlagt er þetta því 4,6% hækkun á lífeyri almannatrygginga.
    Ofan á þessi 4,6% fá öryrkjar 1% viðbót og eldra fólk fær hærra frítekjumark atvinnutekna. Að óbreyttu vex kjaragliðnun milli ára. Kjör lífeyrisþega hafa ekki fylgt kaupmætti undanfarna áratugi og mælist hún nú í tugum prósenta.
    Lífeyrisþegar geta ekki farið í verkfall til að krefjast leiðréttingar. Þeirra hagsmunir fá því yfirleitt ekki forgang hjá ríkisstjórninni. Alþingi Íslendinga ber að standa vörð um hagsmuni allra í samfélaginu og tryggja að lífeyrisþegum verði ekki mismunað með þessum hætti. Skýrum fyrirmælum í 69. gr laga um almannatrygginga er ætlað að tryggja það.
    Öryrkjabandalag Íslands bendir á í umsögn sinni að raunhækkun framfærslu, að teknu tilliti til verðbólguforsendna frumvarpsins, verði innan við 4.000 kr. milli ára. Það gerir aðeins 1,5% hækkun. Ekki þarf mikið að fara úrskeiðis til að þurrka út ávinninginn af þessari 1,5% hækkun, enda virðist ekkert lát á verðbólgu. Verðbólga bitnar ávallt verst á þeim sem minnst hafa á milli handanna.
    Flokkur fólksins leggur til, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, að lífeyrir almannatrygginga hækki til samræmis við launaþróun. Þetta er algjör lágmarkskrafa til að tryggja lífeyrisþegum lögbundna leiðréttingu milli ára og koma í veg fyrir vaxandi kjaragliðnun.

B. Frítekjumark atvinnutekna.
    Til stendur að hækka frítekjumark ellilífeyris vegna atvinnutekna um 100.000 kr. Það er breyting til batnaðar, enda hefur frítekjumarkið staðið í stað árum saman. Flokkur fólksins hefur lengi barist fyrir því að frítekjumarkið verði afnumið. Það er hagur allra að fólk fái að vinna óháð aldri og margir vilja vera lengur á vinnumarkaði fram yfir lífeyristökualdur. Það eykur þekkingu á vinnustöðum og eflir lýðheilsu.
    Ríkið verður ekki fyrir fjárhagslegu tapi af því að hækka frítekjumarkið, enda skilar aukin atvinnuþátttaka eldra fólks auknum skatttekjum og stuðlar að hagvexti, fyrir utan samfélagslegan ávinning sem ekki verður metinn til fjár.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu aukast útgjöld Tryggingastofnunar um 540 millj. kr. vegna hækkunar frítekjumarksins. Þessi fjárhæð er fengin með útreikningi á töpuðum skerðingum. Ekki er tekið tillit til þeirra fjármuna sem skila sér inn á tekjuhliðinni með aukinni atvinnuþátttöku aldraðra. Í raun eru meiri líkur en minni á því að ríkissjóður hagnist á hækkun frítekjumarksins. Flokkur fólksins fagnar hækkuninni en hvetur jafnframt þingheim til að íhuga vandlega hvort ekki sé tilefni til að afnema með öllu skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna.
    Tekjutengingar og skerðingar vegna tekna í almannatryggingakerfinu ganga gegn grunnhugsun hins þriggja stoða lífeyriskerfisins landsins þar sem gert er ráð fyrir virkni allra stoða. Þessar stoðir eru almannatryggingar ríkisins, skyldutrygging lífeyrisréttinda og séreignarsparnaður einstaklinga.
    Öryrkjabandalag Íslands kallar eftir því í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið að öryrkjar fái sömu leiðréttingu á frítekjumarki og ellilífeyrisþegar. Frítekjumark atvinnutekna öryrkja hefur staðið óbreytt í rúman áratug. Það eru því mikil vonbrigði að ekki standi til að gæta jafnræðis í þessum efnum. Sömu rök eiga við í báðum tilvikum.
    Óbreytt frítekjumark gerir það að verkum að öryrkjar eiga erfitt með að komast inn á vinnumarkað og verða auk þess fyrir grimmilegum skerðingum í kjölfarið. Ávinningurinn er lítill og áhættan er sú að örorka verði endurmetin áður en fólk hefur aðlagast vinnu að fullu. Flokkur fólksins hefur ítrekað kallað eftir viðhorfsbreytingum á þessu sviði. Við viljum að öryrkjar fái að vinna í allt að 2 ár án þess að verða fyrir skerðingum og án þess að örorkumat verði endurskoðað. Svipað fyrirkomulag var tekið upp í Svíþjóð og hefur skilað miklum árangri.
    Flokkur fólksins leggur til, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, að frítekjumark atvinnutekna öryrkja hækki, enda hvetur það til aukinnar atvinnuþátttöku og bættrar lýðheilsu. Þetta er algjör lágmarkskrafa til að tryggja jafna þátttöku til atvinnu og sjálfsbjargar án skerðinga. Atvinnufrelsið beinlínis kallar á það.

Húsnæðismál.
    Á undanförnum árum hefur framboð á húsnæði ekki haldið í við eftirspurn. Vegna þessa og annarra þátta hefur húsnæðisverð hækkað gríðarlega, eða í veldisvexti. Verðbólgan hefur tekið við sér með tilheyrandi áhrifum á greiðslubyrði heimilanna. Húsnæðisverð er stærsti liðurinn sem drífur áfram verðbólguna í dag. Þetta þarf að stöðva.
    Það verður sífellt erfiðara fyrir ungt fólk að komast inn á húsnæðismarkað og slegist er um hverja íbúð. Um 40% íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru seldar yfir ásettu verði og meðalsölutími íbúða hefur aldrei mælst styttri. Við verðum að auka framboð á húsnæði til að stemma stigu við þessari þróun.
    Flokkur fólksins, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, leggur því til að fjárheimild málefnasviðs 31.10 hækki um 3,5 milljarða kr. til að tvöfalda megi stofnframlög ríkisins vegna almennra íbúða. Þetta er til þess gert að auka framboð á ódýru húsnæði fyrir lágtekju- og millitekjufólk. Aukið framboð ætti að leiða til lægra verðs, í það minnsta draga úr hækkunum.

Leiðsöguhundar.
    Alþingi samþykkti í júní sl. breytingu á lögum þess efnis að ríkissjóður skuli tryggja fjármagn til að afla, þjálfa og flytja inn leiðsöguhunda til samræmis við eftirspurn hverju sinni. Mikilvægt er að tryggja fjármagn vegna þessa verkefnis.
    Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er búið að ráðstafa 10 millj. kr. til að ráða hundaþjálfara í fullt starf og til stendur að flytja inn þrjá leiðsöguhunda á næsta ári. Allmargir bíða eftir leiðsöguhundi og Alþingi hefur þegar samþykkt að mæta þörfum blindra eftir þessu hjálpartæki sem leiðsöguhundur er. Fylgjum því eftir með viðhlítandi fjármögnun.
    Flokkur fólksins vill ganga lengra og ráðstafa til viðbótar 50 millj. kr. til málaflokksins. Þessir fjármunir mundu stytta biðlista eftir leiðsöguhundum og tryggja að fjármagn dugi fyrir þjálfun hunda og eigenda í meðferð leiðsöguhundanna sem geta aukið lífsgæði blindra stórkostlega.

Blóðmerahald.
    Löggjafinn verður strax að banna blóðtöku úr fylfullum merum nema nauðsyn beri til vegna læknismeðferðar á veiku dýri. Ekki er einungis um siðferðilega ranga iðju að ræða og óverjandi illa meðferð á varnarlausum dýrum heldur einnig um gríðarlegan álitshnekki á ímynd lands og þjóðar á alþjóðavísu. Um leið og löggjafinn bannar blóðmerahald verður hann að bæta bændum þann tekjumissi sem þeir sannanlega verða fyrir í kjölfarið.
    Því leggur Flokkur fólksins til að fjárheimildir verði auknar um 210 millj. kr. til að bæta þennan tekjumissi. Um er að ræða svipaða fjárhæð og blóðmerabændur fá á ári hverju fyrir sölu á blóði úr fylfullum merum. Það er einlæg von okkar í Flokki fólksins að Alþingi banni þetta dýraníð í tæka tíð, áður en næsta blóðtökuvertíð hefst.

Ný Breiðafjarðarferja.
    Nauðsynlegt er að fjárfesta í nýrri Breiðafjarðarferju sem allra fyrst. Ferjusamgöngur spila lykilhlutverk í atvinnu- og byggðaþróun á Vesturlandi og Vestfjörðum. Gamli Baldur er kominn til ára sinna og uppfyllir ekki nútímakröfur um þægindi í farþegaflutningum og útlit er fyrir aukinni eftirspurn vegna vöruflutninga. Auk þess er Baldur ekki útbúinn varavél og hefur oftar en einu sinni þurft aðstoð vegna vélabilana.
    Fjórðungssamband Vestfjarða og sveitarfélög á Vesturlandi hafa ítrekað kallað eftir því að gamli Herjólfur verði nýttur til ferjusiglinga á Breiðafirði þangað til ný ferja kemur til landsins. Þetta er skynsamleg ráðstöfun, enda er skipið ekki í notkun sem stendur. Þannig má efla ferjusiglingar til muna og tryggja betur öryggi farþega uns ný ferja er tilbúin til notkunar. Flokkur fólksins leggur því til að heimild til sölu á skipinu Herjólfi III. falli brott úr 6. gr. frumvarpsins.

Fyrirhuguð sala á Íslandsbanka og heimild til sölu á hlutafé í Landsbanka.
    Í fjárlagafrumvarpinu er heimild til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka. Í júní sl. seldi ríkið 35% hlutafjár í bankanum og hver einasti kaupandi græddi rúm 20% á einni nóttu. Verðið hefur nú hækkað um 60% og má því öllum vera ljóst hvers konar brunaútsala átti sér stað.
    Þá er að finna í fjárlagafrumvarpinu heimild til sölu á 30% hlutafjár ríkisins í Landsbankanum. Hér er um stórmál að ræða. Íslendingar vita hve mikilvægt eignarhald á stærstu bönkum samfélagsins er. Við lærðum þá lexíu í hruninu í október 2008.
    Alþingi Íslendinga verður að taka afstöðu til þessara áforma með beinum hætti og greiða atkvæði gegn því að ríkisstjórnin selji verðmætar eignir þjóðarinnar á afsláttarkjörum til útvalinna. Alþingi verður að tryggja hagsmuni þjóðarinnar og samfélagsins þegar kemur að því að ákveða eignarhald á þessum mikilvægu bönkum.
    Flokkur fólksins leggur því til að heimildir í 6. gr. frumvarpsins til sölu á hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka og Landsbanka falli brott.

Nýtum tekjustofna ríkissjóðs.
    Á síðasta kjörtímabili ákvað ríkisstjórnin að lækka bankaskatt og veiðigjöld. Tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytinga er verulegt. Það er grundvallaratriði að þeir sem nýta auðlindir þjóðarinnar í eigin þágu greiði fullt verð fyrir afnotin. Veiðigjöldin eru varla dropi í hafið hjá útgerðinni, enda er eigið fé fyrirtækja í sjávarútvegi 333 milljarðar kr. á meðan veiðigjöldin skila ríkissjóði aðeins 7 milljörðum kr. Árið 2018 skiluðu veiðigjöldin ríkissjóði 11,5 milljörðum kr. og í raun hefði mátt rukka meira.
    Þetta er ekki forgangsröðun fjármuna í þágu fólksins. Ríkið verður af rúmlega 10 milljörðum kr. ár hvert vegna þess að bankarnir og útgerðin vildu lægri skatta. Ríkisstjórnarflokkarnir urðu við þessum vilja.
    Flokkur fólksins, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, leggur til að tekjur ríkissjóðs verði auknar um 4 milljarða kr. með hækkuðu veiðigjaldi. Flokkur fólksins, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu, leggur einnig til að breytingar verði gerðar á reiknuðu endurgjaldi til að koma í veg fyrir að greiddur sé fjármagnstekjuskattur af launatekjum. Það mundi auka skatttekjur ríkissjóðs um 6 milljarða kr.
    Auk þessa leggur Flokkur fólksins til að lækkun bankaskattsins verði dregin til baka og aukast þá tekjur ríkissjóðs um 6 milljarða kr. Lækkun bankaskatts rýrði tekjur ríkissjóðs um 6 milljarða kr. á ársgrundvelli. Þessi lækkun átti að leiða til betri vaxtakjara en raunin er önnur. Bankarnir voru furðu lengi að bregðast við stýrivaxtalækkunum Seðlabankans en brugðust við eins og keppendur í hraðaspurningum Gettu betur þegar stýrivextirnir hækkuðu. Lækkun bankaskattsins gerði ekkert nema að hækka hlutabréfaverð bankanna og rýra tekjur ríkissjóðs.
    Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir tillögu um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóð. Þannig má auka tekjur ríkissjóðs svo um munar án þess að skerða ráðstöfunartekjur heimilanna á nokkurn hátt. Þannig mætti fjármagna að fullu nauðsynlegar breytingar á almannatryggingakerfinu, hækkun skattleysismarka og ráðast í þarfar úrbætur í heilbrigðiskerfinu.
    Það er ekki í boði að leyfa velferðar- og heilbrigðiskerfinu að grotna niður og auka ár frá ári bilið milli fátækra og ríkra. Tækifærin eru til staðar. Eftir hverju erum við að bíða. Forgangsröðum fjármunum. Fólkið fyrst!

Alþingi, 21. desember 2021.

Eyjólfur Ármannsson.